Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

  • Rafrænar kosningar um skólamat
  • Rafrænar kosningar um skólamat
Laugardagur 17. maí 2014 kl. 12:50

Rafrænar kosningar um skólamat

– Anna Sigríður Jóhannesdóttir skrifar

Börnum og unglingum er tamt að nýta tölvutækni í leik og starfi. Með spjaldtölvuvæðingu í grunnskólunum aukum við möguleika á að nýta tölvutæknina á margan hátt. Eitt af því sem við sjálfstæðismenn í Reykjanesbæ viljum gera er að bjóða nemendum grunnskólanna að kjósa rafrænt um holla matseðla og hafa þannig áhrif á val hádegismáltíðar sem er í skólunum. Slíkt eflir lýðræðisvitund meðal grunnskólabarna í bænum, undirbýr þau við að taka eigin ákvarðanir, kennir þeim hvernig ná megi samstöðu og málamiðlunum og vekur upp ábyrgðartilfinningu  meðal þeirra. Tæknin er til staðar, hvort sem unnið verður í gegnum íbúavefinn eða með sérstökum kosningum í skólunum. Myndræn framsetning gefur jafnframt yngri börnum skólanna tækifæri á að taka þátt í slíkri kosningu.

Börnin fá hafragraut  á morgnana og hollt í hádeginu
Við sjálfstæðismenn erum stolt af því að hafa verið í forystu fyrir meira en 10 árum síðan við að bjóða heitan mat í hádeginu í öllum grunnskólum sveitarfélagsins. Skólamáltíðin er ódýrust í Reykjanesbæ þegar borin eru saman stærstu sveitarfélög landsins og munum við tryggja áfram ódýrar og góðar hádegismáltíðir í grunnskólunum og tryggja gæði og heilbrigði þeirra. En við viljum stíga skrefinu lengra. Mörg börn í Reykjanesbæ hefja daginn snemma t.d. með íþróttaæfingum fyrir skólatíma á morgnana og fara jafnvel á aðrar æfingar seinna um daginn eða í leikfimi og sund í skólanum. Mikilvægt er að huga að næringu og svefni allra barna, þetta eru lykilþættir sem skipta miklu máli í lífi barnsins.  Því er brýnt að orkuþörf þeirra sé svarað þegar þau koma í skóla að morgni. Við viljum bjóða upp á  hafragraut í morgunmat fyrir þau börn sem þess óska sér að kostnaðarlausu. Í þessari viku munu öll börn í grunnskólum Reykjanesbæjar geta fengið sér hafragraut í löngu frímínútunum. Fái Sjálfstæðisflokkurinn til þess stuðning í kosningunum 31.maí munu íbúar sjá þessar hugmyndir verða að veruleika strax á næsta skólaári.

Anna Sigríður Jóhannesdóttir
frambjóðandi D-lista sjálfstæðismanna

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024