Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Rafíþróttir eru komnar til að vera
Föstudagur 17. september 2021 kl. 07:40

Rafíþróttir eru komnar til að vera

Stórtíðindi úr rafíþróttaheiminum bárust á dögunum. Heimsmeistaramótið í tölvuleiknum League of Legends fer fram í Laugardalshöll í nóvember. Ekki aðeins er þetta gríðarleg landkynning, þar sem tugir milljóna manna munu fylgjast með mótinu, heldur skilar þetta jafnframt í beinhörðum peningum inn í íslenskt hagkerfi. Það er engu um það logið að þetta eru stórtíðindi.

Það er eðlilegt að mörg spyrji sig hvað þessar rafíþróttir séu eiginlega. Þrátt fyrir að þær séu aðeins nýlega farnar að hasla sér völl hér á landi sem íþróttagrein með markvissri þjálfun þá hefur þeim vaxið fiskur um hrygg á skömmum tíma. Síðustu árin hafa rafíþróttir stimplað sig inn sem raunhæfur möguleiki fyrir fjölda fólks að þrífast innan íþróttafélaga um land allt.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Rafíþróttaiðkun

Rafíþróttir eru á svipuðu sviði og skákíþróttin því þar fer saman hugur og hönd. Það reynir á heilastarfsemina, útsjónarsemina og svo samhæfingu allra þessa þátta. Í skákinni þarft þú að kunna mannganginn líkt og leikjaspilarar þurfa að þekkja þær persónur sem þeir ætla að spila og hvaða eiginleikum þeir hafa að geyma. Skákin er taktísk þar sem þú þarft að hugsa marga leiki fram í tímann, sem á einnig við um þá tölvuleiki sem spilaðir eru í rafíþróttum.

Keppendur í rafíþróttum æfa að jafnaði saman undir merkjum ákveðins félags eða liðs, hvort sem það er skráð íþróttafélag eða önnur félagsstarfsemi. Félagið þarf að koma sér upp æfingaaðstöðu með tölvuveri og setja upp æfingartíma fyrir iðkendur. Það þarf einnig að huga að félagslega, líkamlega og andlega þættinum hjá iðkendum og svo fræðslu fyrir foreldra barna sem stunda rafíþróttir.

Markmið rafíþróttaþjálfunar eru meðal annars:

Að kenna spilurum að tileinka sér íþróttamannslegt og sjálfsbetrunarhugarfar þegar kemur að spilun tölvuleikja.

Að kenna spilurum að tileinka sér heilbrigða spilahætti og njóta ávinnings þeirra.

Að hittast í hópum á æfingum til að vinna gegn félagslegri einangrun sem oft er tengd tölvuleikjaspilun.

Að þjálfa færni sem skiptir máli í öllum liðsíþróttum, eins og samskipti og samheldni.

Foreldrafræðsla um netöryggi og orðaforða til að eiga árangursríkar samræður við börnin sín um tölvuleiki.

Æfingatímar í rafíþróttum

Þau íþróttafélög sem bjóða upp á rafíþróttir skipta börnunum í aldursflokka á svipaðan hátt og aðrar íþróttir gera. Æfingartíminn er oftast tvær klukkustundir. Flest íþróttafélög setja upp æfingarnar sínar einhvern veginn á eftirfarandi hátt:

Börnin mæta og gera léttar upphitunaræfingar eða fara í leiki. Síðan er spjallað saman um hvað verður gert á æfingunni. Þá er sest við tölvuna og farið yfir leikinn sem verður spilaður og leikjapersónurnar. Þá er einnig lagt á ráðin um hvernig gæti verið best að ná markmiðum leiksins. Síðan er blásið til leiks, oftast eru þetta liðsleikir þar sem nokkrir eru saman í liði að spila á móti öðru liði. Í lok æfingar er svo spjallað saman um hvernig gekk, hvað keppendur lærðu af æfingunni og greint hvað hefði mátt betur fara.

Í elstu aldursflokkunum, sem eru að jafnaði ungmenni á framhaldsskólaaldri, er keppt á Íslandsmótum og öðrum keppnismótum. Þar er keppt í fjölbreyttum leikjum; eins og Fifa sem er fótboltaleikur, Counter-Strike sem er skotleikur og svo ævintýraherkænskuleiknum League of Legends – en þetta er langt frá því að vera tæmandi upptalning.

Rétt eins og Íslendingar eiga atvinnumenn í knattspyrnu á erlendri grundu eigum við jafnframt atvinnumenn í rafíþróttum. Þrátt fyrir að þeir séu ekki margir – ennþá – má t.d. nefna Finnbjörn „Finnsi“ Jónasson sem spilar leikinn Overwatch. Rafíþróttasamtök Íslands stefna á að verða öflugri og stærri með hverju árinu og þannig eiga möguleika á því að verða á meðal fimm efstu þjóða í heiminum í rafíþróttum árið 2025. Þannig að við gætum séð fleiri atvinnumenn í rafíþróttum framtíðarinnar.

Margrét Sigrún Þórólfsdóttir
Skipar 8. sæti Pírata í Suðurkjördæmi.