Ráða peningar för?
Fyrir margt hef ég verið gagnýndur í gegnum tíðina. Það er hins vegar nýlunda að það sé borið upp á mig að ég láti peninga stjórna gjörðum mínum, eins kom fram í grein Hannesar Friðrikssonar sem birtist á Víkurféttavefnum 14. feb. sl.
Ástæða þess að hann heldur þessu fram, er að ég var tilnefndur af bæjarráði Reykjanesbæjar ásamt Böðvari Jónssyni í nefnd um byggingu hjúkrunarheimilis og skiluðum við sameiginlegu áliti til bæjarráðs. Þetta sameiginlega álit okkar Böðvars er Hannesi Friðrikssyni greinilega ekki þóknanlegt. Það skal leiðrétt hér að Sigurður Garðarsson, framkvæmdastjóri Nesvalla var ekki skipaður fulltrúi í þessa nefnd eins og fullyrt er í grein Hannnesar heldur kom hann aðeins að starfi nefndarinnar sem framkvæmdastjóri Nesvalla.
Okkur Böðvari var ætlað að gera forathugun á því hvort hagstæðara væri að byggja nýtt hjúkrunarheimili í Reykjanesbæ frá grunni eða breyta því húsnæði sem ætlað var undir öryggisíbúðir á Nesvöllum í hjúkrunarheimili.
Leyfi hefur fengist frá ríkinu
Leyfi hefur fengist frá ríkinu til byggingar þrjátíu rýma hjúkrunarheimilis sem Reykjanesbær mun byggja og reka. Reykjanesbær mun endurleigja þessa byggingu til ríkisins þar sem rekstur hjúkrunarheimila er á forræði þess að 85% en 15% kostnaðar greiðist af sveitarfélögum. Ríkið greiðir fast verð á fermetra við slíka byggingu og það skiptir því máli að byggt verði (eða breytt) fyrir samsvarandi eða lægri upphæð en ríkið leggur til, svo að sveitafélagið þurfi ekki að taka á sig viðbótarkostnað vegna slíkrar framkvæmdar.
Þar sem að fyrir liggur að þjónusta við eldri borgara eigi að vera staðsett á Nesvöllum kom önnur staðsetning ekki til greina og því beindum við sjónum okkar sérstaklega að því svæði. Leituðum við því til framkvæmdarstjóra Nesvalla sem sem tók þátt í því með okkur að afla þeirra gagna sem nauðsynleg þóttu til þess að geta komist að niðurstöðu.
Það sem við höfðum í höndum var það fermetraverð sem ríkið var tilbúið að greiða. Við fengum tilboð frá Nesvöllum vegna þess húsnæðis sem nú hýsir svokallaðar öryggisíbúðir og síðan var leitað upplýsinga frá öðrum aðilum sem voru að byggja ný hjúkrunarheimili, bæði á höfuðborgarsvæði og landsbyggð.
Breyting á núverandi húsnæði hagstæðust
Niðurstaða þessarar athugunar var sú að það verð sem Nesvellir buðu var talsvert lægra en það sem kostaði að byggja ný rými frá grunni miðað við við þær upplýsingar sem við höfðum. Svo miklu munaði að við sáum möguleika á því að hefja rekstur dagdeildar fyrir heilabilaða einstaklinga í Reykjanesbæ á sama stað fyrir mismuninn. Að sjálfsögðu settum við það sem skilyrði að ráðuneyti velferðarmála veitti heimild fyrir þessu og staðfesti að þessi húsakynni uppfylltu öll þau skilyrði sem gilda um slík vistunarrými.
Rök mín fyrir því að þetta væri hagkvæmt voru eftirfarandi:
1. Með því að fara ofangreinda leið gætum við eytt biðlistum eftir hjúkrunarrými á 6 – 8 mánuðum. Bygging nýs hjúkrunarheimilis frá grunni tæki talsvert lengri tíma. Rúmlega þrír tugir einstaklinga eru í mjög brýnni þörf eftir slíku rými og hafa verið lengi. Það ætti því að vera forgangsmál að eyða slíkum biðlista og auka lífsgæði þeirra sem þurfa á slíkri þjónustu að halda.
2. Margir hafa haldið því á lofti að með því að byggja frá grunni værum við að skapa atvinnu. Ekki geri ég lítið úr því en bendi á að það þarf að gera breytingar á núverandi húsnæði sem kallar á talsvert vinnuafl. Jafnframt vil ég benda á að þegar hjúkrunarheimilið er komið í fullan rekstur munu milli 40 og 50 einstaklingar sinna þar umönnunnar- og þjónustustörfum ýmis konar. Viðbúið er að konur vinni þau störf að stórum hluta.
3. Sú húsaleiga sem ríkið kemur til með að greiða mun vera verðtryggð frá þeim degi sem húsnæðið verður tekið í notkun. Þó að að þetta vegi ekki eins þungt núna þegar að verðbólga er á niðurleið var þetta atriði sem vert þótti að taka tillit til.
Það er alveg skýrt í mínum huga að það skiptir máli hvað greitt er og það skiptir líka máli hversu langur tími líður þar til aldraðir fái notið þjónustunnar. Enn fremur skiptir það máli að skapa hér tugi umönnunnar og þjónustustarfa í sveitarfélaginu. Því fyrr því betra.
Hannes bendir einnig á það í grein sinni að ákveðnir bæjarfulltrúar hafa talið málið vanreifað og þyrfti frekari skoðunar við. Það verður þá að teljast merkilegt að þeir skuli ekki hafa greitt atkvæði gegn þessu þegar ákvörðun var tekin um að fara þessa leið í bæjarstjórn nýverið. Þar áréttaði sjálfstæðismaðurinn fyrri hjásetu sína en samfylkingarmaðurinn leyfði málinu að renna í gegn átakalaust.
Nú er að verða liðið heilt ár frá því að málið var fyrst tekið til meðferðar í bæjarkerfinu og á þeim tíma hefur það margsinnis farið fyrir bæjarráð til umræðu og ályktunar. Telji menn enn að málið sé vanreifað er það bara vegna þess að þeir hafa ekki lesið gögnin sín.
Það að halda því fram að hagsmunum hinna öldruðu hafi verið ýtt til hliðar fyrir hraða og peninga er auðvitað bara gaspur af því tagi sem einkennir pólítíska umræðu á Íslandi í dag. Ég eftirlæt Hannesi það hlutverk en ætla mér ekki að eyða tíma mínum í slíkt.
Guðbrandur Einarsson