Prófkjör virt að vettugi
– Gunnar Þórarinsson skrifar
Í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar gaf ég kost á mér í 1.-2. sæti. Fyrir fjórum árum vann ég 2. sætið í prófkjöri flokksins og hef á yfirstandandi kjörtímabili unnið af heilindum fyrir sveitarfélagið. Þar hef ég hef einbeitt mér að mörgum mikilvægum verkefnum og hefur árangur af þeirri vinnu verið að skila sér undanfarin misseri, að sjálfsögðu í samstarfi við félaga mína.
Mér þótti því ekki óeðlilegt að sækjast á ný eftir sæti ofarlega á lista flokksins, þar sem ákveðið var að efna til prófkjörs, en sú lýðræðislega aðferð hefur á landsvísu verið aðalsmerki Sjálfstæðisflokksins. Auðvitað gerði ég mér grein fyrir því að við ramman reip yrði að draga. Árni Sigfússon hefur um langt skeið veitt listanum forystu og ég var því við öllu búinn varðandi niðurstöðu prófkjörsins.
Úrslitin voru ótvíræð og Árna Sigfússyni í hag en ég var í raun ekki ósáttur með minn árangur. Fékk tæplega 440 atkvæði í 1. sæti listans en það dugði þó aðeins til þess að 5. sætið varð mitt hlutskipti. Þetta var niðurstaðan eftir prófkjör þar sem ríflega 1500 manns greiddu atkvæði. Þátttakan verður að teljast bærileg í ekki stærra sveitarfélagi og lýsa allvel vilja Sjálfstæðismanna til uppröðunar á listanum. Sem einlægur lýðræðissinni sætti ég mig að sjálfsögðu við vilja fólksins. Ég var því þess albúinn að taka 5. sætið og vinna áfram eftir bestu getu að framförum í sveitarfélaginu.
Frá prófkjöri hefur verið mikil undiralda í ráðum og nefndum flokksins. Háværar raddir hafa verið uppi um að fara algerlega á svig við úrslit prófkjörsins, réttlæta það með lagatæknilegum flækjum og þvinga þannig fram uppstillingu. Það kom svo á daginn að mér boðið 7. sætið sem ég hafnaði á þeim forsendum að ég teldi prófkjörið hafa svarað því á lýðræðislegan hátt hver uppröðun listans skyldi vera.
Á fjölmennum fundi í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins, fimmtudaginn 20. mars var síðan endanlega gengið frá framboðslista flokksins vegna komandi sveitarstjórnarkosninga. Þá kom í ljós það sem legið hafði í loftinu um nokkurt skeið að nafn mitt var þurrkað út af listanum. Þau undirmál og ofríki sem hefur grasserað innan nefnda og ráða flokksins síðustu vikurnar opinberuðust þar með skýrum hætti. Slík vinnubrögð voru þó greininlega ekki öllum að skapi því að listinn var samþykktur á fundinum með innan við 60% atkvæða. Sú niðurstaða hlýtur að vera flokknum umhugsunarefni.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur á landsvísu státað af því að hafa í heiðri þá lýðræðislegu leið til uppröðunar á framboðslistum að efna til prófkjörs. Það er von mín að Sjálfstæðismenn í öðrum sveitarfélögum fari ekki inn á sömu braut og elítan innan flokksins í Reykjanesbæ að fara á svig við niðurstöður prófkjörs af þeirri einu ástæðu að úrslitin eru henni ekki að skapi. Með því væri prófkjörsleiðin nánast eyðilögð. Óvíst væri hvort hinn almenni kjósandi sæi ástæðu til þátttöku þar sem ekki væri tryggt að atkvæði hans væri í heiðri haft. Margur myndi líka hugsa sig tvisvar um áður en hann gæfi kost á sér í framboð með allri þeirri vinnu og tilkostnaði sem prófkjöri fylgir ef niðurstöður væru síðan að engu hafðar.
Ég vil að endingu þakka öllu því frábæra fólki sem ég hef unnið með á vettvangi Sjálfstæðisflokksins á yfirstandandi kjörtímabili. Það hefur stutt við bakið á mér gegnum þykkt og þunnt og gert mér kleift að fylgja eftir góðum málum á vettvangi bæjarstjórnar. Ég mun á næstu vikum íhuga mín mál með mínum stuðningsmönnum. Öllum má ljóst vera að ég hef fullan hug á því að vinna áfram að framfararmálum sveitarfélagsins með setu í bæjarstjórn.
Fái ég til þess góðan byr og hvatningu mun ég ásamt stuðningsmönnum mínum efna til sérframboðs. Komi til þess mun kosningabaráttan af okkar hálfu verða háð á drengilegan hátt þar sem málefni og aðkallandi úrlausnarefni í Reykjanesbæ verða í forgrunni. Íbúum Reykjanesbæjar óska ég velfarnaðar á komandi árum, ekki síst með tilliti til öflugrar atvinnuuppbyggingar. Hún er sú undirstaða sem öll velferð og farsæld til framtíðar byggist á.
Gunnar Þórarinsson