Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 8. febrúar 2002 kl. 09:14

Prófkjör Samfylkingarinnar.

Þann 23.febrúar n.k. fer fram prófkjör hjá Samfylkingunni í Reykjanesbæ. Í október á síðasta ári var félagsmönnum send skoðanakönnun, þar sem óskað var eftir áliti þeirra á því hvernig standa bæri að uppröðun á lista fyrir bæjarstjórnarkosningarnar í vor. Við fengum skýr skilaboð um það að fara í opið prófkjör. Þrátt fyrir það er ljóst að margir eru andvígir prófkjörum og eru ekki reiðubúnir að gefa kost á sér í prófkjörsslaginn. Virðist það síður hugnast kvenfóki innan okkar félags og setur það aðferðinni vissulega ákveðna annmarka. Á hitt ber hinsvegar að líta að þeir sem bjóða sig fram sýna eindregið hug sinn til að stefna í forystuna og axla þá ábyrgð sem henni fylgir. Hafa ber í huga að þegar gengið er til prófkjörs þá eru menn að velja úr hópi samherja sem vinna munu að sameiginlegum markmiðum fyrir komandi bæjarstjórnarkosningar. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í prófkjöri Samfylkingarinnar og leita eftir stuðningi í 2.-5. sæti.
Staða fjölskyldunnar
Undanfarið kjörtímabil hef ég setið í fjölskyldu-og félagsmálaráði fyrir Samfykinguna og hef auk þess verið varabæjarfulltrúi. Þau málefni sem ég hef því haft hvað beinust afskipti af snúa að málefnum fjölskyldunnar. Það virðast flestir sammála því, hvar í flokki sem þeir eru, að hlúa beri að þeim málaflokki, sem vissulega snertir fjölmarga þætti. Reyndin er þó sú að á síðustu árum hefur fjárhagsstaða margra fjölskyldna versnað til muna og eins og fram hefur komið í fjölmiðlum fór fjárhagsaðstoð Reykjanesbæjar upp um ríflega 60% á síðasta ári. Undirrituð gerði athugasemdir á sínum tíma um vanáætlun fjárhags-aðstoðar í fjárhagsáætlun. Miðað við fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar þessa árs er gert ráð fyrir því að fjárhagsaðsoðin lækki um 24 milljónir frá síðasta ári. Út frá hvaða forsendum er gengið er mér hulin ráðgáta. Það er staðreynd að á síðustu árum hefur launamunur í landinu verið að aukast verulega, auk þess sem atvinnuástand hefur versnað. Viðmiðunarframfærsla svo og tekjur öryrkja og ellilífeyrisþega hafa engan veginn hækkað í hlutfalli við framfærslukostnað, s.s. húsnæðiskosnað og aðrar nauðsynjar. Þar með hefur fjárhags-og félagslegu öryggi verið ógnað. Líkur eru á að fjárhagsaðstoð aukist fremur en lækki á komandi ári, þó svo að við vonumst eftir jafnvægi og bættum hagvexti til handa þeirra sem minnst mega sín í þjóðfélaginu.
Menntun, atvinna, öryggi.
Í upphafi þessa kjörtímabils lögðum við í Samfylkingunni fram tillögu í fjölskyldu- og félagsmálaráði að taka upp sambærilegar reglur og Reykjavíkurborg hefur um styrki til námsfólks, með mjög takmarkaðar launatekjur. Í flestum tilfellum er hér um að ræða fjölskyldufólk, ekki síst einstæða foreldra sem jafnframt vilja mennta sig. Þetta þótti nokkuð óábyrg tillaga sem ekki fékk hljómgrunn. Kröfur og jafnframt möguleikar til menntunar eru til staðar í þjóðfélaginu í dag og efling nýsköpunar og framfara er ein mikilvægasta auðlind sem við eigum. Það er mikilvægt að hlúa að þeirri auðind. Staðið hefur verið myndarlega að einsetningu grunnskólans hér í bæ en ekki er síður mikilvægt að standa vel að uppbyggingu innra starfs skólanna og sinna vel þeirri sérfræðiþjónustu sem samkvæmt grunnskólalögum skal boðið upp á til að koma til móts við þarfir hvers og eins. Möguleikar á fjölbreytileika í námi, eflingu verklegra greina og samþættingu námsgreina eru að mínu mati m.a. þeir þættir sem helst þarf að efla innan grunnskólans. Möguleikar til framhalds-og símenntunar eru góðir hér á þessu svæði og tenging við atvinnulífið er þó nokkur, sem ber að efla enn frekar í framtíðinni. Þá er ekki síður brýnt að hlúa að atvinnurekstri og efla lítil og meðalstór fyrirtæki sem eru að koma undir sig fótunum. Þjónusta s.s. verslun hér á svæðinu virðist á undanhaldi og er það málefni sem mikilvægt er að skoða alvarlega með þeim aðilum sem að málum koma og best til þekkja. Það er mikilvægt að efla atvinnustarfsemi og þjónustu í bænum.
Umhverfis- og skipulagsmál.
Reykjanesbær hefur upp á ýmislegt að bjóða. Margt hefur verið vel gert s.s. uppbygging gamla bæjarins og Grófarsvæðisins. Andlit bæjarins, þ.e. miðbæjarkjarninn hefur þó orðið undir og mikilvægt er að vinna ötullega að framkvæmd og endurskoðun þeirra áætlana sem til eru um uppbyggingu hans á næstu árum. Það hefur oft verið deilt um skipulagsmál á síðasta kjörtímabili. Deilurnar hafa oftar en ekki snúist um það hvort eða hvernig staðið skuli að heildarskipulagninu hverfa. Það er mjög mikilvægt að Reykjanesbær setji sér heildstæða stefnu í skipulagsmálum og skipuleggi heil hverfi með það í huga að auðga byggð og byggja upp heildstæða þjónustueiningu. Viðbyggingaráráttan hefur löngum verið okkar Akkilesarhæll ,sem m.a. hefur haft þær afleiðingar að erfitt hefur verið um vik við skiptingu skólahverfa.
Umhverfismál eru mér hugleikin og tel ég mjög mikilvægt að virkja bæjarbúa til góðra verka, gefa þeim aukin áhrif og ábyrgð í sínu nánasta umhverfi og á það ekki síst við um unga fólkið. Mikilvægt er efla umhverfisfræðslu og almenna umhverfisvitund í bæjarfélginu.
Sveindís Valdimarsdóttir







Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024