Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Prófkjör er aðferð til að velja “landslið” kjördæmisins
Föstudagur 10. nóvember 2006 kl. 10:24

Prófkjör er aðferð til að velja “landslið” kjördæmisins

-Það er ekki keppni milli svæða eða bæjarfélaga.

Það sló mig að sjá auglýsingu “Suðurnesjafólks” í VF í gær þar sem það hvetur til hópstemmingar um að kjósa fyrst og fremst frambjóðendur af Suðurnesjum í prófkjöri Sjálfstæðismanna á morgun. Í framhaldi af auglýsingunnu hefur reyndar Björk Guðjónsdóttir sent frá sér yfirlýsingu þar sem hún lýsir yfir að auglýsingin sé hvorki komin frá henni né hennar stuðningsmönnum og það sama hefur Kristján Pálsson gert en Kristján tekur þó samt undir innihald auglýsingarinnar í yfirlýsingu sinni.
Prófkjör er aðferð sem notuð er til að velja fólk á framboðslista. Lýðræðisleg aðferð sem gefur kjósendum tækifæri til að raða upp á lista þeim einstaklingum sem bjóða sig fram, með það að markmiði að útkoman verði sterkur og heilsteyptur listi sem líklegur er til árangurs í alþingiskosninunum næsta vor.  Þess vegna er mikilvægt að listinn skipist fólki af báðum kynjum sem hefur tengingar sem víðast í kjördæminu og er tilbúið að hlusta og skilja mismunandi þarfir íbúanna. Fólki með mismunandi bakgrunn, reynslu og áherslur sem vinna mun saman af hörku til árangurs fyrir kjördæmið í heild.
Prófkjör er ekki keppni milli svæða í kjördæminu. Það er ekki keppni milli ÍBK, Selfoss, Sindra eða ÍBV eins og þegar keppt er í íþróttum. Prófkjör er aðferð til að velja “landslið” kjördæmisins. Aðferð til að velja þá einstaklinga sem kjósendur telja líklegasta til að mynda besta liðið til að vinna að árangri fyrir kjördæmið í heild. Lið sem ná mun árangri í næstu kosningum.
Ég býð mig ekki fram í prófkjörinu til að verða fulltrúi eins svæðis frekar en annars í kjördæminu. Ég býð mig fram til starfa fyrir kjördæmið í heild. Til að vinna með fólkinu og fyrir fólkið sem í kjördæminu býr, allt frá Hornafirði til Suðurnesja, til árangurs fyrir Suðurkjördæmi í heild. Þannig og einungis þannig eiga þingmenn kjördæmisins að hugsa.

Grímur Gíslason
Greinarhöfundur býður sig fram í 3. – 5. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024