Póstsagan komin út
Bókin Póstsaga Íslands 1873-1935 eftir Heimi Þorleifsson sagnfræðing sem kom út haustið 2004, fékk nýlega verðlaun í flokki fræðirita á frímerkjasýningunni Nordia 2005 í Gautaborg.
Eins og venja er til á slíkum sýningum voru þar sýnd fræðirit sem þykja hafa sérstakt gildi fyrir norræna og alþjóðlega póst- og samgöngusögu. Meðal þeirra var Póstsaga Íslands 1873-1935, síðari bindi. Bókin fékk verðlaunin „stórt gyllt silfur” og einkunnina 8.8 á tíu-skalanum. Sérstök dómnefnd fjallar um ritin og gaf hún íslensku póstsögunni lofsamlega umsögn fyrir ítarlega rannsókn, skíra framsetningu, vandaðar tilvitnanir og glæsilegt útlit.
Fyrri bók höfundar Póstsaga Íslands 1776-1873 sem kom út árið 1996 hefur einnig hlotið mjög góða dóma og viðurkenningar á frímerkjasýningunum erlendis.
Höfundur fékk sérstök heiðursverðlaun á sýningunni Nordia 98 í Óðinsvéum.
Íslandspóstur gaf seinni bókina út en Póstur og sími þá fyrri. Sögufélagið, Fiscersundi 3, 101 Reykjavík, annast dreifingu bókanna.