Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Pólskir starfsmenn í boði Flugleiða
Mánudagur 6. mars 2006 kl. 13:50

Pólskir starfsmenn í boði Flugleiða

Icelandair hefur í hyggju að ráða starfsmenn frá Póllandi í hlaðdeild félagsins á Keflavíkurflugvelli í sumar. Þetta kemur fram í viðtali við forstjóra félagsins Jón Karl Ólafsson í fréttabréfi FÍA, félags íslenskra atvinnuflugmanna.

Jón Karl segir að ástæða þess að félagið grípi til þessara aðgerða sé sú að erfiðlega hefur gengið að manna umræddar stöður síðastliðin ár með þeim afleiðingum að brottförum hefur jafnvel seinkað vegna manneklu.

Og áfram heldur forstjórinn, “ væntingar fólks um kaup og kjör hér á landi er með öðrum hætti en áður. Íslendingar fást síður til að taka að sér ákveðin störf eins og þekkist t.d. í sjávarútvegi. Við verðum að mæta þessum breytingum með einhverjum hætti og tryggja það að flugið sé á tíma”.

Þarna hittir forstjórinn naglann á höfuðið, eitthvað þarf að gera. En ekki datt forstjóranum það í hug að kanna af hverju svona erfiðlega gengur að fá fólk til vinnu. Er það ekki vegna þess að launin eru svo lág? Fyrir nokkrum árum var biðröð fólks að sækja um störf t.d. í hlaðdeildinni og komust færri að en vildu. Þá var atvinnuleysi nokkuð mikið hér á þessu svæði og var það aðalástæðan en ekki að fólk flykktist þangað upp eftir vegna þess að launin væru svo góð. Láglaunastefna félagsins í hlaðdeild og hreinsun hefur ekkert breyst hvort sem um mikið eða lítið atvinnuleysi er að ræða.
En forstjórinn segist þurfa að mæta þessum breytingum með einhverjum hætti. Hér er hugmynd handa honum. Hækkaðu launin og þá ertu orðinn samkeppnisfær við atvinnumarkaðinn á svæðinu. Byrjendalaunin í hlaðdeildinni eru aðeins 20-30 þúsund krónum hærri en atvinnuleysisbætur og það eiga starfsmenn í hlaðdeild og hreinsun ekki að sætta sig við. Það getur verið að Pólverjarnir geri það enda skilst mér að nú þegar sé búið að ráða um 50 þeirra til vinnu í sumar og er þegar verið að útbúa fyrir þá húsnæði, hver greiðir kostnaðinn við það?

Í viðtalinu er Jón Karl spurður um viðbrögð frá verkalýðsforystunni á Suðurnesjum við þessu og segist hann engin viðbrögð hafa fengið. Hann leggur áherslu á að ekki sé verið að taka neitt frá föstum starfsmönnum.

Það vekur athygli ef ekkert hefur heyrst frá Verkalýðs-og sjómannafélagi Keflavíkur því oft þarf nú minna til en svo að eitthvað heyrist í Kristjáni Gunnarssyni formanni félagsins. Það er ljóst að þessi ákvörðun flugfélagsins að flytja inn erlent vinnuafl til sumarstarfa mun rýra möguleika t.d. framhaldskólanema á aukavinnu með námi. Þá er lag núna fyrir VSFK að aðstoða forstjórann við að mæta þessum breytingum,t.d. með launahækkunum sem væntanlega þýða fleiri umsóknir um sumarstörf frá íbúum Suðurnesja.

Ragnar Örn Pétursson
formaður Starfsmannafélags
Suðurnesja
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024