Pólitíkin í Reykjanesbæ
Á samskiptamiðlum og í fjölmiðlum hefur fólk verið duglegt að tjá sig um ýmislegt er bæinn varðar. Ef umræða er innan ákveðinna velsæmismarka þá er slík umræða hið besta mál og okkur ber að fagna henni og kynna okkur stöðuna út frá hlutlausu sjónarmiði. Í umræðunni hafa komið raddir alls staðar frá og íbúar bæjarins velta gjarnan stöðu bæjarins fyrir sér í slíkri umræðu. Kostir og gallar vega mismikið og er það í hlutverki lesandans að ákveða sjálfur hvað honum finnst um stöðuna. Það svertir þó umræðuna mikið þegar fólk notast á við svokölluð ad-hominem rök, persónuárásir. Þar er vegið að manneskjunni en ekki málefninu. Í málefnalegri umræðu þarf fólk einnig að virða frelsi annarra til þess að tjá sig. Franski stjórnspekingurinn Voltaire sagði að þó hann væri kannski ósammála manneskju væri hann reiðubúinn til þess að láta lífið fyrir frelsi manneskjunnar til þess að tjá sig. Það er einmitt það sem gerðist í frönsku stjórnarbyltingunni nokkrum árum eftir þessa tilvitnun. Fólk lét lífið fyrir frelsið. Því finnst mér sorglegt þegar fólk virðir ekki frelsi annarra til þess að tjá sig.
Gott starf er alltaf hægt að gera betra
Í málefnalegri umræðu er hlutleysið sterkasta vopnið. Ég greip til þeirra ráða að líta á stöðu bæjarins út frá hlutlausu sjónarmiði. Ég komst sjálfur að þeirri niðurstöðu að staðan væri alls ekki góð og að gallarnir vógu talsvert meira en kostirnir. Í gær gaf Íslandsbanki einmitt út skýrslu um stöðu sveitarfélaga á landinu. Þar kom fram að rekstur Reykjanesbæjar stæði að öllu jöfnu ekki undir skuldsetningu á meðan rekstur nær allra annarra sveitarfélaga stæði undir skuldsetningu. Einnig kom þar fram að tekjur annarra sveitarfélaga hafa hækkað töluvert og að skuldir þeirra lækkuðu um 7% á síðasta ári, á meðan í Reykjanesbæ hækkaði skuldahlutfallið úr 270% í 271% á síðasta ári. Ekki er mikið um gífurlegan rekstrarhalla hjá öðrum sveitarfélögum en í Reykjanesbæ var hallinn 973 milljónir í fyrra og verður að öllum líkindum enn meiri á næsta ári þegar útgjöld hækka um hálfan milljarð. Núverandi meirihluti hefur frá upphafi eytt mestri orku sinni í uppbyggingu í Helguvík og eru enn nokkur ár í að allt þar verði tilbúið. Vegna þessa eru skuldir Reykjaneshafnar nú hátt í 7.5 milljarðar og atvinnuleysi í Reykjanesbl nú um 3% hærra en á landsvísu og hefur árin 2002-2014 verið um 2-3% hærra en á landsvísu. Það ber þó að nefna að það er um 5 sinnum dýrara að skapa starf í stóriðju heldur en í einhverju öðru, meðal annars vegna dýrra fjárfestinga, lækkandi álverðs og lítillar arðsemis Landsvirkjunar. Því er þessi forgangsröðun meirihlutans ansi furðuleg
Að vísu hefur núverandi meirihluti skilið hér eftir sig fallegan bæ og að einhverju leyti bætta þjónustu, eins og er gjarnan haldið fram. En það ber þó að taka inn í myndina að fjármál Reykjanesbæjar hafa alls ekki verið góð og eru þau orðin að grafalvarlegu vandamáli, sem þau hafa reyndar alltaf verið. Þessi fegrun bæjarins, sem meirihlutinn talar gjarnan um, var algjörlega byggð á lánum og skuldum og var því engin innistæða fyrir þessari fegrun. Líkja má hegðun Reykjanesbæjar fyrir hrun við hegðun íslenskra banka fyrir hrun. Umsvif þeirra jukust of mikið og þeir þöndust út of hratt. Þegar bankarnir féllu reyndist árangur þeirra einungis byggður á lántökum og skuldum. Líkt og árangur Reykjanesbæjar hefur alla tíð verið byggður á lántökum og skuldum. Til þess að standa straum af kostnaði lánanna þurfum við að öllum líkindum að skera niður og selja eignir bæjarins. Ég tel að það sé hægt að gera gott starf enn betra og fegra bæinn enn meira. Ég tel einnig að það sé hægt að leysa þennan fjármálavanda og í framtíðinni byggja svokallaða fegrun bæjarins á traustum fjármunum en ekki gríðarlegu skuldafjalli.
Stjórnendur fyrirtækisins eiga að standa sig betur
Ég, ásamt öllum öðrum íbúum Reykjanesbæjar, vil að fyrirtæki mitt standi sig eins vel og mögulegt er. Mér finnst núverandi stjórnendur fyrirtækisins ekki búnir að standa sig nægilega vel, alla vega alls ekki nógu vel til þess að vilja hafa þá áfram sem stjórnendur. Það er alltaf hægt að gera betur og tel ég tíma núverandi stjórnenda vera liðinn, þá vil ég fá nýja stjórnendur og reyna að ná betri árangri. Ég er hluthafi í þessu fyrirtæki, sem heitir Reykjanesbær, og deili þeirri stöðu með yfir 14.000 öðrum íbúum. Það er nánast lögmál í samfélagi manna að til þess að hámarka árangur er hæfasta fólkið ráðið í vinnu. Í fótboltaheiminum er skipt um þjálfara sem þykir ekki hafa staðið sig nógu vel og í verktakavinnu er skipt um starfsmenn sem þykja ekki nógu góðir, sama á við um stjórnendur stórfyrirtækja. Það er ekkert persónulegt við þetta, þetta er einungis gert til þess að hámarka árangur. Því ætti fólk að greiða þeim frambjóðendum, sem það treystir best til þess að reka bæinn, atkvæði sitt, en ekki byggja ákvörðunartöku sína á samúð eða persónulegum tengslum.
Mótun framtíðarinnar er í okkar höndum
Þó að háværar gagnrýnisraddir koma frá Styrmi Barkarsyni þá segir það ekkert til um hæfni hans sem kennara. Líkt og hæfni Árna Sigfússonar sem bæjarstjóra segir ekkert til um hvernig manneskja hann er. Einn hópurinn hefur kannski þá sýn á Styrmi að hann vanræki starf sitt sem kennari og hamast sveittur á lyklaborðinu að gagnrýna núverandi stjórn, hann er ásakaður um að vera svokallaður netníðingur. Annar hópurinn hefur kannski þá sýn að Árni bæjarstjóri og stjórn hans sitji í reykfylltu og dimmu bakherbergi að skipuleggja einhver ódæðisverk. Það þarf ekki mikla rökhugsun til þess að átta sig á því hversu fráleitar slíkar hugmyndir eru. Styrmir er ábyggilega frábær kennari, sem starfar með hagsmuni nemenda sinna að leiðarljósi, ég þekki hann reyndar og get vottað undir þetta. Árni er sömuleiðis ábyggilega ágætismaður sem vill öllum vel og reynir eftir bestu getu að gera okkar bæjarfélag betra, sem hefur þó ekki tekist betur en svo. Kosningarnar snúast um hver hæfasta manneskjan er til þess að reka fyrirtækið okkar fyrir okkur, ekkert annað. Því er það fullkomlega eðlilegt að setja út á ákveðin verk núverandi stjórnar, menn þurfa þó að hafa slíka gagnrýni innan velsæmismarka. Menn þurfa þá að varast allar persónuárásir og halda sig við efnið og málefnalega umræðu. Sama hver niðurstaðan verður í kosningunum er mjög mikilvægt að grafa pólitísku stríðsöxina og vinna í sameiningu. Leyfum ekki flokkspólitíkinni, eiginhagsmunagæslu eða asnalegum deilum hafa áhrif á mótun framtíðar okkar. Fögnum öllum ábendingum og gagnrýnisröddum um vandamál bæjarins. Að kveða niður alla gagnrýni jafngildir því að sópa vandamálunum undir teppið. Ef við gerum okkur grein fyrir vandamálunum og alvarleika þeirra þá erum við búin að taka fyrsta skrefið í átt að leiðréttingu vandans.
Að lokum
Í næstu kosningum kjósa hluthafar fyrirtækisins um hvort það eigi að fá nýja stjórnendur eða halda þeim sem hafa verið undanfarin ár. Þessar kosningar snúast um framtíð okkar og mótun þess næstu árin, þess vegna er mjög mikilvægt að velta hlutunum fyrir sér og kjósa svo eftir eigin sannfæringu. Meirihlutinn hefur haldið því fram að stjórn nokkurra flokka, með fagmann í farabroddi, gangi ekki. Þó að menn séu ósammála um ýmsa hluti eru þeir nú varla neinir pólitískir andstæðingar. Því öll vinnum við að sama markmiði, að bæta lífskjör íbúa. Besta leiðin til þess að ná þessu markmiði er að gera það í sameiningu. Setjum markið hærra, vinnum í sameiningu og leysum vandamálin
Setjið X við málefnalega umræðu, kosningu eftir eigin sannfæringu og samvinnu til þess að leysa vandamálin
- Bjarni Halldór Janusson, íbúi í Reykjanesbæ og áhugamaður um þjóðfélagsmál og pólitík