Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Fimmtudagur 3. apríl 2003 kl. 10:19

Pólitíkin allsráðandi hjá Kallinum

NÚ ER KALLINN farið að hlakka til kosningafundarins sem haldinn verður á Ránni nk. mánudag - þann 7. apríl. Fundurinn hefst klukkan 20:30 og þar munu Suðurnesjaframbjóðendur stjórnmálaflokkanna takast á um pólitíkina. Það verður gaman að sjá hvernig þeir kljást því nú fer hiti að færast í menn.

FYRIRKOMULAGIÐ verður þannig að frambjóðendurnir kynna stefnumál sín og er miðað við 5 mínútur á hvern frambjóðanda. Í kjölfarið verða leyfðar spurningar úr sal til frambjóðenda og án efa eiga þeir eftir að skjóta á hvern annan. KALLINN skorar á Ellert Eiríksson að verða fundarstjóri á þessum fundi, enda þarf styrka stjórn þegar pólitískir andstæðingar koma saman. Ellert er þekktur fyrir röggsemi og Kallinn veit að hann mun stjórna fundinum af fullum heiðarleika þótt hann sé flokksbundinn Sjálfstæðisflokknum.

ÞAÐ SÆTIR FURÐU að mati Kallsins að engin kona sé í efstu sætunum á lista Kristjáns Pálssonar. Kallinn sá nöfnin á T-listanum á fréttavef Víkurfrétta og hann er hneykslaður á því að engin kona skuli verma eitt af þremur efstu sætum listans. Hvar eru jafnréttissjónarmiðin hjá T-listanum? Auðvitað hefði Kristján átt að nota tækifærið og setja konu í annað sætið. Framboð hans er ferskt og þar eru engir „gamlir“ pólitíkusar sem heimta sæti og hika ekki við að ryðja konum úr veginum. Það hefði verið hægt að stilla konu upp í það sæti. Að mati Kallsins hefur Kristján ekki farið rétt að ráði sínu - hvað þá kosningastjórinn hans. Tímaskekkja - algjör tímaskekkja.

REYNDAR hefur Kallinn þá trú að Kristján nái inn og Kallinn vonar það því hann er ekki búinn að gleyma því hvernig farið var með Kristján á sínum tíma.

REYNDAR er Kallinn ekki sáttur við að Hjálmar Árnason sé dottinn út af þingi í hverri skoðanakönnuninni af fætur annarri. Hjálmar hefur unnið vel fyrir Suðurnesin og verið áberandi, bæði í starfi og leik. Suðurnesjamenn þurfa einstaklinga eins og Hjálmar til að berjast fyrir hagsmunamálum og það er von Kallsins að Hjálmar nái öruggu sæti.

VONANDI verður framboðsfundurinn vel sóttur af Suðurnesjamönnum því nú er tækifærið til að spyrja fólkið sem við viljum að vinni fyrir okkur spurninga og krefjast svara.

KALLINN mætir að sjálfsögðu! Mánudagurinn 7. apríl kl. 20:30 á Ránni - Mætum!

Kveðja,
[email protected]
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024