Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Pólitík skiptir máli – tökum þátt
Miðvikudagur 5. desember 2012 kl. 09:31

Pólitík skiptir máli – tökum þátt

Eftir um 150 daga ganga Íslendingar að kjörborðinu og kjósa til Alþingis. Prófkjör, forval og uppstillingar eru í gangi hjá öllum stjórnmálaflokkum og á næstu tveimur mánuðum skýrist hvernig framboðslistar flokkanna verða skipaðir. Nú er tækifæri til að hafa áhrif.

Stjórnmálin mega muna sinn fífil fegurri og við sem störfum á þeim vettvangi finnum sennilega öll fyrir minni áhuga, virðingarleysi og jafnvel vonleysi gagnvart stjórnmálum og stjórnmálamönnum. Eins skrýtið og það hljómar er mín upplifun samt sú að fólk sé þrátt fyrir þetta almennt pólitískara en áður. Hvert sem ég fer og hvar sem ég kem ræðir fólk við mig um pólitík, hvað það vill sjá betur gert og hvernig. Og hefur á því miklar skoðanir og margt til málanna að leggja. Í þessu er fólgin þversögn – almenningur er pólitískari á sama tíma og  hefðbundin þátttaka í stjórnmálum fer dvínandi.

Stjórnmál skipta máli, hugmyndafræði skiptir máli, vinnubrögð skipta máli og einstaklingar skipta máli. Ég leyfi mér að fullyrða að við öll sem störfum í stjórnmálum séum þar af góðum hug – við viljum hafa áhrif á samfélagið og við höfum sannfæringu fyrir því sem við erum að berjast fyrir. Og það er einmitt ekkert athugavert við það að stjórnmálum fylgi barátta, stundum átök um mismunandi aðferðir og hugmyndafræði. Þetta er það sem lýðræðið snýst um.
Við erum samt miklu oftar sammála þvert á flokkslínur á Alþingi heldur en menn halda – en átökin eru fréttnæmari. Við tölum oftar um og við hvert annað af virðingu á Alþingi – en virðingarleysið þykir fréttnæmara.
Þetta fælir gott fólk frá þátttöku í stjórnmálum og þessu vil ég breyta. Tökumst á um menn og málefni en umfram allt sýnum hvert öðru virðingu. Það er gaman í stjórnmálum, það er gaman að sjá hugmyndir fæðast og verða að veruleika. Til þess að hafa áhrif verða menn að taka þátt og nú er tækifærið.
Prófkjör okkar sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi fer fram þann 26. janúar og rennur framboðsfrestur út þann 14. desember. Ég vil hvetja fólk til dáða – komið með okkur í baráttuna, tryggjum góða þátttöku, tökum slaginn saman og gerum gott samfélag betra.

Ragnheiður Elín Árnadóttir,
oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024