Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Pökkum saman – við gefumst upp
Föstudagur 24. apríl 2009 kl. 10:31

Pökkum saman – við gefumst upp


Í lok átján ára valdatímabils Sjálfstæðismanna á Íslandi blasir við að frjálshyggjan, sem hefur verið leiðarljós flokksins á valdatíma hans, hefur beðið algjört skipbrot og efnahagskerfi þjóðarinnar er í molum. Afleiðingarnar af frjálshyggjustefnu Sjálfstæðisflokksins eru m.a. þær að heimilin og fyrirtækin í landinu berjast núna við mjög erfiða skuldastöðu, himinháa vexti, ónýtan gjaldmiðil og trúverðugleiki þjóðarinnar hjá alþjóðasamfélaginu hefur beðið hnekki - svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Ferðatöskugjörningurinn

Það þarf því ekki að koma neinum á óvart að ungir Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi hafi áhyggjur af því að fólk muni í stórum stíl flytja af landi brott. Það eru eðlilegar áhyggjur í ljósi þess ástands sem skapast hefur vegna stefnunnar sem þeirra eigin flokkur hefur fylgt á valdatíma sínum. Einnig hefur verið bent á það – jafnvel af innvígðum og innmúruðum Sjálfstæðismönnum – að verði ekki sótt um aðild að ESB á allra næstu mánuðum þá stefnum við hraðbyri að næsta hruni, þ.e. að fyrirtæki og fólk fari í stórum stíl að flytjast úr landi. Kannski hafa hinir hugprúðu ungu Sjálfstæðismenn í Suðurkjördæmi áttað sig á því að þetta væri raunverulegur möguleiki og séð sér leik á borði; að pakka saman og fela Samfylkingunni að bjarga þjóðfélaginu – enda hefur Samfylkingin boðað það sækja beri um aðild að Evrópusambandinu þegar í sumar. Sjálfstæðismenn hafa gefist upp – pakkað saman – og til þess að leggja áherslu á þá staðreynd hafa þeir dreift ferðatöskum á nokkra staði í kjördæminu með skilaboðunum x-s –pökkum saman (við gefumst upp).

Tilfinningalegt svigrúm nauðsynlegt
Við - ungir jafnaðarmenn í Suðurkjördæmi - fyrirgefum ungum Sjálfstæðismönnum alla listræna gjörninga og hvers kyns hræðsluáróður vegna þess að við vitum að heimsmynd þeirra - og sjálfmynd - hefur hrunið til grunna á síðustu mánuðum. Það er erfitt fyrir hvern sem er að horfast augu við það að hugmyndaheimurinn og gildin sem viðkomandi einstaklingar trúðu staðfastlega á reyndust, þegar á hólminn var komið, tálmyndir og óskhyggja. Í aðdraganda kosninganna ganga Sjálfstæðismenn því í gegnum tilfinningalegan hvirfilbyl og þá er alltaf meiri hætta en ella á því að menn framkvæmi hluti, sem eftir á að hyggja, hefði kannski verið betra að sleppa. Fólk í tilfinningalegu tjóni þarf tíma til þess að jafna sig og það virðum við jafnaðarmenn og viljum því veita ungum Sjálfstæðismönnum tilfinningalegt svigrúm til þess að komast í gegnum þetta öldurót. Við tökum með glöðu geði að okkur það verkefni að varða trúverðuga leið til framtíðar fyrir íslenska þjóð sem byggir á skýrri framtíðarsýn og grunngildum jafnaðarstefnunnar.
 
Ungir jafnaðarmenn í Suðurkjördæmi  

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024