Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Pökkum saman
Miðvikudagur 22. apríl 2009 kl. 15:10

Pökkum saman

Þær hafa ekki farið framhjá neinum í dag, miðvikudaginn 22. apríl, ferðatöskurnar sem hafa verið út um víðan völl í okkar víðfeðma kjördæmi sem nær allt frá Reykjanesbæ að Höfn í Hornafirði. Þessi listræni gjörningur er á ábyrgð okkar UNGRA SJÁLFSTÆÐISMANNA í Suðurkjördæmi.

Í ljósi þeirra staðreynda sem Sjálfstæðismenn standa frammi fyrir að boðskapur þeirra nær ekki til eyrna fólks ákváðu ungir sjálfstæðismenn að gera eitthvað róttækt til þess að reyna að ná athygli fólksins í kjördæminu.

Sjálfstæðisflokkurinn vill búa til 20.000 ný störf á kjörtímabilinu til að aðstoða heimilin í landinu, auka skatttekjur ríkissjóðs og vinna bug á atvinnuleysi. Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að gera þetta með því að ganga hreint til verks í því að stofna nýju bankana, standa vörð um þá atvinnustarfsemi sem er til staðar í dag og búa til jarðveg fyrir ný atvinnutækifæri í stóriðju, framleiðslu, ferðaþjónustu og nýsköpun.

Með því að nýta auðlindir okkar, greiða fyrir uppbyggingu stóriðju, virkja skattkerfið til að hvetja fjárfesta, veita skattaafslátt til fyrirtækja sem ráðast í nýsköpunar- og þróunarverkefni og treysta á frelsi einstaklingsins til athafna má fjölga störfum um mörg þúsund.  T.d. myndu 3-4.000 störf skapast á Suðurnesjum yfir uppbyggingartíma álvers í Helguvík, einnig myndi álverið skapa fjölda afleiddra starfa.

Grindvíkingar, okkar möguleikar á atvinnusköpun er í sjávarútvegi og stóriðju.

Á meðan Sjálfstæðisflokkurinn vill skapa 20.000 störf lofa vinstri flokkarnir að leggja niður 20.000 störf. Það gera þeir með því að lofa okkur fyrningarleið í sjávarútvegi, leggjast gegn nýtingu orkunnar, uppbyggingu stóriðju og inngöngu í Evrópusambandið.

Með fyrningarleið er verið að kippa fótunum undan öllum sjávarútvegsfyrirtækjum landsins. Þá munu þessi fyrirtæki fara í gjaldþrot og um leið byggðarlög á við Grindavík, Vestmannaeyjar, Höfn og Þorlákshöfn leggjast af. Þessi bæjarfélög ásamt fleirum eru byggð upp á sjávarútvegsfyrirtækjum sem hafa  stóran hóp íbúa í vinnu og fjölda fyrirtækja í viðskiptum. Þá um leið myndu skuldir þessara fyrirtækja ríkisvæðast og við ágætu skattborgarar þurfa að greiða brúsann. Í sjávarútvegi starfa um 5000 manns fyrir utan öll störfin í fyrirtækjunum sem þjónusta sjávarútveginn.
Ef sjávarútvegurinn fær að starfa áfram í því kerfi sem er í dag getur hann auðveldlega greitt sínar skuldir og haldið áfram að skapa okkur atvinnu, gjaldeyrir og viðskipti við fyrirtæki landsins. Núverandi sjávarútvegskerfi á að vera í sífelldri skoðun og það má laga þó ekki sé ástæða til að gjörbylta því um leið og fjöldi þjóða nýta sér það sem fyrirmynd. Ein breytingin gæti t.d. verið aukin veiðiskylda.

Með inngöngu í ESB mun störfum í landbúnaði og sjávarútvegi fækka til muna ef ekki hverfa alveg. Einnig er atvinnuleysi innan ESB yfir 10%. Samfylkingin leggur til fyrningarleið um leið og þeir segjast ætla að ganga inn í ESB af því að það vill taka upp íslensku sjávarútvegsstefnuna sem er nú í gildi.

Einkennilegt er að sjá nú þegar sjávarútvegur, landbúnaður og stóriðjan eru að halda uppi atvinnustigi og gjaldeyrisöflun landsins sé sett á oddinn að ganga í skrokk á þessum greinum.

Ef vinstri stjórn kemur upp úr kjörkössunum þá er vissara að byrja að pakka saman.

Freyja, ungir sjálfstæðismenn í Grindavík


Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024