Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Aðsent

Pistill Suðurnesjadeildar  Garðyrkjufélags Íslands 2021
Laugardagur 19. febrúar 2022 kl. 12:44

Pistill Suðurnesjadeildar Garðyrkjufélags Íslands 2021

Þá litið er út um glugga inn í innri garðinn, ríkir hér enn einn suðvestan hvellurinn  með tilheyrandi foki, þannig að vinir mínir, fuglarnir, halda sig fjarri fæðustöðvum um hríð. Ég hef byggt fyrir þá ein fimm hús af mismunandi gerðum til að laða þá að, í þeim tilgangi að fylgjast með hegðun þeirra sem hópsála og reyna skilja eðli fuglasálarinnar í þeirri viðleitni að lifa af. Það er um margt athyglisvert að skynja háttalag þeirra og heimfæra á eigin dýrategund.

Mér sýnist hið pólitíska litróf sem við þekkjum eiga sér staðalmynd meðal fugla. Þar er tekist á um lýðræðið, einræðið, sjálflægnina og jafnaðarstefnuna, svo nokkuð sé nefnt. Innan hverrar stefnu eru málpípur sem standa vörð um málstaðinn og brenna af hugsjón. Flokkssystkin virðast beita hvert öðru harðri refsistefnu á leiðinni að nægtarborðinu, þar sem hver goggar í annan, uns sigurvegarinn nær toppnum og verður um leið óumdeildur. Meðal þrasta eru háðar harðvítugar innbyrðis deilur um eplabitann, á meðan litið er á hóp starra sem sjálfsagðan hlut án ögrunar við þrastarsjálfið, þeir eru í augum þrasta, hálfgerð grey og falla undir skilgreiningu illgresis, meðal eðaljurta ræktunarmannsins, enda birtast þeir ætíð í hóp saman. Goggunarröð að matarborðinu er ótvíræð. Hæst trónar gráþrösturinn, þá hann birtist, einfarinn í villta vestrinu, óræður og til alls líklegur. Hann fær lotningarfullar móttökur og vikið er úr sætum, honum til tregablandinnar ánægju. Um daginn birtist hér fuglaherfa úr flokki svartþrasta, kvenfugl sem greinilega hafði mátt þola margt mótlætið á lífsferli sínum. Hún bar um hálsinn skærgult „men“ bjó um sig í stærsta húsinu og eirði engu sem nálgaðist, gæti þess vegna hafa tekið þátt í verkalýðsbaráttu þrasta. Allan daginn varði hún „húsið“ sitt, þessi valkyrja, með skyndiárásum á nærstadda uns hún að lokum hrakin var burt af flokki starra, sem lengi höfðu undirbúið áhlaupið úr launsátri. Matarborðið var nær óskert, þá húsið féll, þannig greiðir maður fyrir ofbeldið dýru verði.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Jólin eru tími matarafganga, því alltaf er allt of mikið á borðum. Við, sem aðhyllumst hringrásarhagkerfið, með sjálfbærni að leiðarljósi, látum reyna á þessi hugtök með hjálp vina okkar í garðinum. Útbúinn hefur verið sérstakur fæðubakki, ofnskúffa úr gamalli eldavél og á hana raðað matarleyfum, sem til falla til hverju sinni, og um jól eru þær takmarkalausar, íblöndun með korni og brauðmeti. Allt hverfur þetta, laufabrauðið, hangikjötið, síldarsallötin, steikurnar og kæfubeinin skilin eftir, gljáfægð, í trjákrónum. Af forvitnislegri meinfýsni bauð ég upp á kæsta skötu, hörðustu matgæðingum úr hópi starra til mikillar gleði. Hópar úr öllum áttum mættu til leiks og bruddu í sig hverja ögn að meðtöldu brjóski, svo eimdi eftir kæsingin í umhvefinu. Þannig hef ég útbúið mér sjálfvirka moltugerð hér í innri garði, um leið hlutdeild í hringrásarhagkerfinu, frá mold í hold.

Í pistli mínum í síðasta garðykjuriti hugleiddi ég áskorunina um, á hvern hátt vekja mætti áhuga yngri kynslóðarinnar á garðyrkju með því að sá fræinu nógu snemma, til að það fái dafnað og gefi í fyllingu tímans sprota sem fjölfaldist. Aldingarður æskunnar var þannig hugsaður, þá hann var vígður á vormánuðum 2019. Það var því gleðiefni að fá boð um að vera viðstaddur afhendingu Grænfánans á degi íslenskrar náttúru í leikskólanum Tjarnarseli vegna verkefnis sem leikskólabörn unnu í garðinum og um hann. Ef fer sem horfir, eygir maður þarna aðferðafræði til að meðhöndla meintan loftslagskvíða meðal ungra háskólaborgara, auk þess að fá nýtt og ungt blóð inn í stjórnir skóg- og garðyrkjufélaga með nýjum áherslum. Með hjálp Rótarýfélaga og leikskólabarna höfum við nú fullmótað þessa garðspildu, sem Reykjanesbær trúði okkur fyrir. Síðasti hluti verkefnisins var að jarðvegsskipta í reit þeim sem ætlaður er sígrænum runnum og síðan planta í hann efniviði af ýmsum gerðum. Við kvöddum garðinn fyrir vetrardvala með því að fylla hann af 800 túlípanalaukum, skýla og signa síðan yfir.

Það fylgdi því mikil áskorun, þegar Reykjanesbær afhenti Suðurnesjadeildinni 25 gróðurkassa til umsjónar og nýtingar síðastliðið vor. Engin smásmíði þessir kassar, fullir af mold, marghæða úr úrvals við.

Lotningarfull tókum við stjórnin á móti þeim í roki og moldviðri, þar sem þeir standa í Njarðvíkurskógum, útivistasvæði fjölskyldunnar, sem býður upp á ótæmandi tækifæri til samvista í því fjölmenningarsamfélagi sem við búum í. Við fáum þá til reksturs. Það er auðvitað verkurinn en í því felast tækifærin. Sumarið var hér eins og menn muna, votviðrasamt og lognið á endalausri hreyfingu. Samt nutu sumir góðrar uppskeru, aðrir aðallega illgresis og fjölbreytileika í roki. Verkefnið er á byrjunarstigi, en er umvafið tækifærum. Við getum sótt um umhverfisstyrki, laðað að okkur nýbúa, byggt gróðurhús, verið með námsskeið í ræktun, verið sjálfbær, allt til að auka lífsgæði í skauti náttúrunnar. Umhverfið kallar á okkur til verka, verið með.

Konráð Lúðvíksson,
formaður Suðurnesjadeild Garðyrkjufélags Íslands.