Píratastjórn vinstri grænna eða sterk Viðreisn
- Aðsend grein frá Skúla Thoroddsen
Kostnaðurinn af því að vera Íslendingur er of hár. Því þarf að breyta. Helsta vandamál íslensks samfélags er að lífskjör hér eru ekki samkeppnishæf við það sem býðst í nágrannalöndunum. Því þarf að breyta og það er á valdi kjósenda. Píratar vilja í stjórn og hafa hallað sér til Vinstri grænna og Samfylkingarinnar sem á um sárt að binda og bjartra framtíðarsinna. Viðreisn er hér og nú en Píratastjórn vinstri grænna þar sem hinir fá að fljóta með liggur á teikniborðinu. Vilji menn annað stjórnarmunstur verður Viðreisn að koma sterk út úr kosningunum. Þá er möguleiki á sterkri miðjustjórn.
Þeir sem standa að Viðreisn er fólk úr öllum áttum sem vill leita skynsamlegra leiða og stíga ábyrg skref til að gera lífskjör í landinu samkeppnishæf við önnur lönd. Þetta verður ekki gert öðruvísi en að lækka þann kostnað sem fólk og fyrirtæki bera af því að búa á Íslandi. Á því hefur Viðreisn skilning. Hér þarf að skapa umhverfi sem hentar framsæknu fólki með stórar hugmyndir í stað þess að reiða sig bara á láglaunastörf til framtíðar. Ferðaþjónustan er vissulega lyftistöng, en koma verður í veg fyrir neikvæð áhrif hennar, að ferðamaðurinn traðki landið í svaðið og/eða að Ísland verði að endingu láglaunasvæði. Á kjörtímabilinu mun Viðreisn leggja sérstaka áherslu á eflingu háskólastigsins og tæknivæðingu kennslu í grunn- og framhaldsskólum. Ísland þarfnast þess til framtíðar.
Treystum við því að Píratastjórn vinstri grænna muni styrkja þau kerfi sem við rekum hér sameiginlega, svo að þjónusta þeirra sé að minnsta kosti sambærileg og jafnvel betri en gerist annars staðar? Að forgangsraðað verði í þágu heilbrigðiskerfisins á kjörtímabilinu og að enginn þurfi að neita sér um heilbrigðisþjónustu vegna fátæktar? Með sterkri Viðreisn á næsta kjörtímabili aukast líkurnar á því.
Kostnaðurinn af því að vera Íslendingur er of hár. Ein megin orsök þess eru allt of háir vextir sem eru afleiðing af sveiflukenndu hagkerfi og óstöðugri krónu. Mun Píratastjórn vinstri grænna taka á krónuvandamálinu? Ég efa það. Íbúðarkaupandi á Íslandi þarf nú að greiða tvisvar til þrisvar sinnum fyrir eign sína í formi vaxta, á meðan íbúðarkaupandi á Norðurlöndum greiðir bara einu sinni fyrir sína eign. Þessu þarf að breyta og þessu mun Viðreisn breyta.
Það má vera að vilji Píratastjórnar vinstri grænna standi til þess að lækka tekjuskerðingar öryrkja og aldraðra og að lágmarkstekjur þeirra hópa fylgi lágmarkslaunum á vinnumarkaði. Sterk Viðreisn myndi geirnegla það. Eins og jafnlaunastefnuna. Það eru mannréttindi.
Ég dreg í efa vilja Píratastjórnar vinstri grænna til að gera róttækar breytingar á tekjuskattskerfinu í tvö þrep, 25% á tekjur undir 650 þúsund á mánuði og 43% á tekjur yfir þeim mörkum eins og Viðreisn vill gera. Að skattleysismörk hækki úr 140 þúsund krónum á mánuði í liðlega 190 þúsund krónur á mánuði. Dugar Píratastjórn vinstri grænna til þess?
Kostnaðurinn af því að vera Íslendingur er of hár. Það er á ábyrgð Framsóknar og Sjálfstæðisflokksins fyrst og fremst. Því verður að breyta. Gömlu flokkarnir allir hafa þó haft tækifæri til þess, en þeir nýttu sér ekki það tækifæri. Þó þeir lofi nú bót og betrun til að gera allt best eru þeir tæplega traustsins verðir. Píratastjórn vinstri grænna er óskrifað blað. Ég treysti Viðreisn til að breyta. Til þess þarf hún að koma sterk út úr kosningunum á laugardag.
Skúli Thoroddsen. Höfundur skipar 12. sæti á lista Viðreisnar í Suðurkjördæmi.