Aðsent

Píratar vilja stórefla heilbrigðisþjónustuna
Miðvikudagur 28. júní 2017 kl. 10:03

Píratar vilja stórefla heilbrigðisþjónustuna

Heilbrigðisþjónustu á Íslandi er verulega ábótavant og er staða hennar lakari en almennt gerist í nágrannalöndum okkar.  Þjónustan hefur farið versnandi á síðustu árum, sér í lagi fyrir þá efnaminni og þá sem búa fjær höfuðborgarsvæðinu. Mikið púður hefur farið í umræður um staðsetningu hátæknisjúkrahúss og innanlandsflugvallar vegna sjúkraflugs, en minna hefur farið fyrir kröfum um raunverulegar úrbætur og dreifingu heilbrigðisþjónustunnar um landið.

Heilbrigðisþjónusta er ein af helstu grunnstoðum samfélagsins sem Píratar vilja efla. Stefna Pírata er skýr:  Rekstur heilbrigðisstofnana á að vera að fullu fjármagnaður, fyrirsjáanlegur og gagnsær. Alþingi þarf að samþykkja langtímaáætlun í heilbrigðismálum þar sem tekið er á aðgengi, aðstöðu, fjármögnun, forvörnum, góðri þjónustu, kjörum starfsfólks, tæknivæðingu og skiptingu milli ríkis og sveitarfélaga.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Nýverið kom í ljós að heilbrigðisþjónusta á Suðurnesjum er langt því frá að vera viðunandi. Lýðheilsuvísar 2017 frá Landlæknisembættinu sýna að Suðurnesjabúum fjölgar hraðar en sem nemur landsmeðaltali. Þar kemur fram að dánartíðni vegna krabbameins sé hæst á Suðurnesjum og sker svæðið sig úr þegar kemur að fjölda einstaklinga sem greinast með krabbamein. Einnig kemur fram að fólk hér á Suðurnesjum býr við streitu yfir meðallagi á Íslandi og nota lyf í meira mæli en annarsstaðar á landinu. Þetta kallar á ítarlegri rannsóknir og átak þegar kemur að því að efla heilbrigðisþjónustu, forvarnir og meðferðarúrræði til að bæta hag íbúa á svæðinu. Það þarf að fá úr því skorið hvað það er í okkar umhverfi sem veldur því að tíðni krabbameina er meiri hér og að koma í veg fyrir að iðnaður sem aukið getur líkurnar á sjúkdómum fái að rísa óáreittur á svæðinu.

Gera þarf átak í úrbótum á HSS sem hefur verið stórlega vanrækt af yfirvöldum. Mikið álag er á Neyðarlínu og hana vilja Píratar bæta, auk þess að efla sjúkraflutninga. Vinda þarf ofan af þeirri þróun sem hefur átt sér stað síðastliðin ár, í átt að sífellt skertri þjónustu við sjúklinga á sama tíma og kostnaðarhlutdeild þeirra er aukin ár frá ári.

Píratar vilja að heilbrigðisþjónusta verði því sem næst gjaldfrjáls eins og best gerist í nágrannalöndunum. Til að svo megi verða þarf að fylgja langtímaáætlun bæði í heilbrigðismálum og öðrum málaflokkum þannig að áætluð opinber útgjöld séu fyrirsjáanleg til lengri tíma. Að sama skapi þarf að gera áætlun um tekjuhluta hins opinbera til að fjármagna útgjaldahliðina.

Það þarf algjöran viðsnúning í hugarfari er varðar heilsugæslu á Suðurnesjum sem er verulega undirmönnuð á sama tíma og aukning er á fólki sem nýtir sér þjónustu hennar. Píratar vilja að úr þessu verði bætt og sjá heildstæðar lausnir í eflingu heilbrigðisþjónustu auk ríks stuðnings við forvarnir og meðferðarúrræði.

Þórólfur Júlían Dagsson, Pírati

Kolbrún Valbergsdóttir, Pírati