Persónukjör – áhugaverður kostur
Í áramótaræðu minni á gamlársdag 2012 ræddi ég um kosti persónukjörs í smærri sveitarfélögum. Ég sé persónukjör fyrir mér með þeim hætti að kjósendur velji sjö nöfn úr hópi þeirra kandídata sem í kjöri eru. Þeir sjö efstu skipa þannig sveitastjórn og sjö næstu verða varamenn í þeirri röð sem atkvæðamagn þeirra segir til um. Þessi hópur myndar þannig stjórn sveitarfélagsins. Þessir einstaklingar geta haft ólíka sýn á hin ýmsu mál, þeir hafa rétt á að vinna hugsjónum sínum fylgi, hafa eflaust kynnt helstu stefnumál sín og svo framvegis. Þessir sjö gætu þess vegna haft einhvern nærhóp á bak við sig sem einstaklingar eða fleiri saman; hóp sem þeir virkja til að spegla hugmyndir sínar.
Helstu kostir þessa fyrirkomulags eru í mínum huga eftirfarandi:
Mál geta farið í gegnum sveitastjórn á ólíkum meirihluta hverju sinni. Samstarf er ekki sett í uppnám þó að um hitamál sé að ræða. Menn taka upplýsta ákvörðun, komast að niðurstöðu og halda áfram.
Hver sveitarstjórnarmaður er bundinn sinni sannfæringu og þarf að vera trúr henni. Treysti hann sér ekki til að vinna áfram tekur fyrsti varamaður sæti hans.
Minni líkur eru á að góðar hugmyndir fari forgörðum af því að þær komu ekki úr „réttri átt“ ef svo má að orði komast.
Opnir íbúafundir gætu verið upplýsandi og leiðbeinandi fyrir sveitastjórnarmenn um vilja íbúa í einstökum málum.
Meiri líkur eru á farsælu samstarfi allra fulltrúa þar sem allir eru í raun í sama liðinu.
Ég leyfi mér að skora á hin smærri sveitafélög hér á Suðurnesjum, þ.e. Voga, Grindavík, Garð og Sandgerði að hafa persónukjör í komandi sveitastjórnarkosningum og bera síðan saman bækur sínar reglulega á kjörtímabilinu til að meta árangur þessa fyrirkomulags. Vilji allra er sá sami: að bæta samfélagið í sinni heimabyggð.
Sigurður Grétar Sigurðsson, sóknarprestur Útskálaprestakalli.