Pennavini svarað
– Hannes Friðriksson skrifar
Fátt finnst mér vænna um en að eignast pennavini. Hef hingað til ekki eignast þá marga í gegnum skrif mín á vef Víkurfrétta. Margeir Vilhjálmsson klappstýra hefur nú gert mér þann heiður og því sjálfsagt mál að svara honum. Það er jú það sem pennavinir gera.
Kæri Margeir. Það var gaman að fá bréfið þitt í dag, þar sem þú að nokkru leyti gerir upp fyrri bréfaskrif okkar, en sé þó að þar gætir enn smá misskilnings sem ég vil með vinarkveðju leiðrétta. Ekki var það meining mín með fyrra bréfi mínu að skilja þig með það í farteskinu að ég væri að níða af þér skóinn eða að ég bæri blindað hatur í garð Sjálfstæðisflokksins. Ekkert var fjær mér með skrifum mínum. Ég hvatti þig hinsvegar til málefnalegrar umræðu og draga ekki persónur og leikendur á ósanngjarnan hátt inn í málefni sem okkur báðum er hugleikið þessa dagana, sem sagt afar slæm staða bæjarsjóðs Reykjanesbæjar eftir 12 ára valdasetu íhaldsins .
Við deilum þeim áhyggjum og erum sammála um að betur hefði verið hlustað á aðvaranir þeirra er svo oft vöruðu við. Leitt þykir mér að sjá að þar teljir þú mig hafa lítið ekkert til málanna að leggja eða lagt, en ég get þó sagt með nokkru stolti að ég hef þó reynt. Nefni þar skrif mín og að nokkru leyti aðkomu að málefnum Hitaveitu Suðurnesja, Eignarhaldfélagsins Fasteign, og hjúkrunarheimilis að Nesvöllum ef það mætti breyta skoðun þinni að einhverju leyti En skaðinn er skeður og fátt annað í stöðunni en að líta fram á veginn og leiðrétta það sem unnt er með ró í huga og sátt í sinni.
Um beina eða blandaða leið
Eins og oft vill verða á meðal vina verða menn ekki alltaf sammála um hvað leiðir skuli skuli farið. En hvað skuldavanda bæjarins varðar getum við þó örugglega verið sammála um að endastöðin í því ferðalagi sem nú er lagt upp í skuli vera heilbrigðari fjármál bæjarins. Því miður er engin bein leið að því marki, til þess er eru úrlausnarefnin of flókin og yfir margar brekkur að fara. Í mínum huga hljómar hún því skynsamlega sú blandaða leið sem bæjarstjórn hefur valið að fara. Sú leið að vaða áfram beint af augum hefur því miður verið reynd og það er þess vegna sem við stöndum í þessum sporum í dag.
Um aksturpeninga og yfirvinnu
Ég tel rétt í ljósi uppsetningar bréfs þins og áherslna að byrja á að fjalla nokkuð um niðurlagið, þar sem mér sýnist þú hafa komist að nokkuð annarri niðurstöðu en ég. Kannski að það grundvallist á þeim upplýsingum er við höfum aflað okkur hver í sínu lagi. Vil því skýra þér mína sýn á það mál. Auðvitað er það grautfúlt þegar þarf að ná niður kostnaði við rekstur og sérstaklega þegar það kemur niður á launum starfsmanna. Um það erum við báðir sammála, en því miður er fátt annað í stöðunni nú en að taka erfiðar ákvarðanir sem virka hratt. Það markast af því að tíminn er naumur og fjárþörf bæjarins mikil eða 25 þúsund milljónir næstu þrjú ár. Það bil þarf að brúa og ráðast í aðgerðir sem hafa áhrif strax á næsta ári svo komið verði í veg fyrr enn alvarlegri afleiðingar fyrir bæjarfélagið svo sem gjaldþrot bæjarins myndi verða. Það hefur verið beðið of lengi að taka á málum. Hverjum það er að kenna vitum við báðir.
Skuldir hafnarinnar
Ég sé á bréfi þínu að við deilum skoðun hvað það varðar að verja bæinn okkar með kjafti og klóm, því báðum þykir okkur vænt um hann, þó að vísu annar okkar kjósi bara að búa í honum. En þannig er það oft, enginn veit sitt lífshlaup fyrr en allt er.En það er hinsvegar greinilegt að ekki deilum við skoðunum þegar kemur að einkavæðingu grunnstoða samfélagsins.
Fyrir mér lítur málið þannig út að Reykjanesbær hefur lagt í mikinn kostnað við að byggja upp höfn sem er þungur baggi á bæjarsjóði nú um stundir, en vonir standa til að muni brátt fara að skila hluta fjárfestingar sinnar til baka. Þar verðum við að vera bæði bjartsýnir og jákvæðir því eins og þú veist er mér síst neikvæðni í huga. Þarna eins og í öðru þarf að hugsa fram í tímann, sem þó betur hefði einnig verið gert fyrr og áður en í framkvæmdirnar var ráðist.
Skuldir hafnarinnar eru því miður að lang mestu leyti tryggðar í gegnum bæjarsjóð með útsvarstekjum bæjarbúa þannig að sú leið að setja höfnina í gjaldþrot er tæpast farandi í mínum huga. Hvað varðar niðurfærslu á upphæð skuldanna sýnist mér allir vera á sömu blaðsíðu hvað það varðar. Er það ekki einmitt ein af þeim leiðum sem bæjarstjórn hefur lagt til. Að endursemja um skuldirnar. En til þess að það megi verða þarf bærinn fyrst að sýna fram á að eitthvað sé til að semja um. Það er þess vegna sem fyrstu skref sóknarinnar eru jafn ákveðin og raun ber vitni. Til að skapa samningsstöðu um framhaldið. Báðir vitum við að Róm var ekki byggð á einum degi.
Að lokum
Kæri Margeir mér sýnist samkvæmt uppleggi þínu að við séum að mestu sammála þegar kemur að skoðunum um eignarhaldsfélagið Fasteign. Verst er að einnig í því máli valdi fyrrverandi meirihluti að skell skollaeyrum við og samþykkja samninga sem að mestu voru gerðir á forsendum lánadrottnanna. Hef nú þá trú að þar muni menn reyna með kjafti og klóm að fá að leiðrétt. Hlakka til að fá bréf um þann lið og sjá þær leiðir sem þú leggur til.
Ekki veit ég nú með vissu hverjar þínar pólitísku skoðanir eða hverra sjónarmiða þú ert klappstýra fyrir en vænt þykir mér að sjá að loksins er kominn maður sem er tillbúinn að leggjast á árar og viðra hugmyndir til lausnar. Þekki ég þá sem nú eru í meirihluta rétt munu þeir bæði hlusta á gagnrýni og tillögur með opnum hug í viðleitni sinni til að ná tökum á nær gjaldþrota bæjarsjóð eftir 12 ára setu íhaldsins. Við skulum styðja þá í því.
Með pennavinarkveðju,
Hannes Friðriksson