Paddý’s yfirtekin með aðstoð Reykjanesbæjar
Undanfarið ár hefur ítrekað verið fjallað í fjölmiðlum um veitingastaðinn Paddý’s við Hafnargötu í Reykjanesbæ sem ég undirritaður, rak í rúm fimm ár. Vegna rangfærslna í þessum skrifum og fullyrðinga um vanskil mín við Reykjanesbæ tel ég rétt að birta mína hlið á málinu og segja frá því hvernig núverandi rekstraraðilum staðarins tókst að sölsa hann undir sig með dyggum stuðningi bæjaryfirvalda. Með þeirri aðgerð var tugmilljóna fjárfesting mín í Paddý’s gerð upptæk.
Árið 2009 keypti ég rekstur veitingastaðarins Paddý’s, en húsið var þá í eigu Reykjanesbæjar. Húsið við Hafnargötu 38 var nánast að hruni komið og því þurfti ég að ráðast í miklar endurbætur og styrkingar á því. Alls lagði ég um 30 milljónir króna í kaup á rekstrinum og í endurbætur á staðnum og eru þá ótaldar þær fjölmörgu milljónir sem ég greiddi í húsaleigu og önnur gjöld.
Bærinn lagði ekki krónu í viðhald á húsinu þann tíma sem ég var með það á leigu og skilaboðin frá þáverandi bæjarritara voru skýr um að það mætti rífa húsið hans vegna. Til að halda rekstrinum áfram var því ekki um annað að ræða en að lagfæra allt fyrir eigin reikning. Fyrir vikið safnaðist upp leiguskuld en leigan var há og í engu samræmi við ástand hússins eða um 350 þúsund krónur á mánuði. Í nóvember 2013 óskaði ég eftir að bæjarráð lækkaði leiguna og að skuld sem safnast hafði upp yrði sett á skuldabréf til þriggja ára. Þetta var samþykkt og skuldabréfið gefið út og það móttekið af Reykjanesbæ sem greiðsla á hinni vangoldnu leigu.
Í mars 2014 vildi ég fá að nýta efri hæð húsins og opna m.a. eldhús til að auka tekjumöguleika og gera reksturinn arðbærari. Til að ráðast í þessar framkvæmdir þurfti samþykki bæjaryfirvalda sem eiganda hússins og skilning á því að leigugreiðslur og greiðslur af skuldabréfi kynnu að tefjast eitthvað á meðan á framkvæmdunum stæði. Þegar það lá fyrir og framkvæmdum var lokið fékk Paddý’s endurnýjað vínveitingaleyfi með matsölu og í lok maí sama ár gat Paddý’s loksins tekið aðstöðuna í notkun.
Útburði hótað þrátt fyrir samning
Eftir sveitarstjórnarkosningar í maí 2014 komst til valda ný bæjarstjórn í Reykjanesbæ og tók bæjarritari þá tímabundið við störfum bæjarstjóra. Þann sama dag fékk ég útburðarbréf frá honum þar sem mér voru gefnir 10 dagar til að greiða upp skuld mína við bæinn eða yfirgefa staðinn ella. Hinn setti bæjarstjóri viðurkenndi ekki lengur skuldabréfið sem bærinn hafði samþykkt, án þess þó að skila skuldabréfinu. Þessir afarkostir settu allar áætlanir mínar í uppnám en eftir að hafa minnt á samning bæjarins við mig var mér veittur frestur fram á haust til að komast í skil. Þetta gekk eftir og í ágúst 2014 var leigan á Paddý’s aftur í skilum.
Í ágúst 2014 óskaði ég formlega eftir áframhaldandi leigu á húsnæðinu næstu 3 árin í samræmi við forleigurétt í leigusamningi sem átti að renna út um miðjan janúar 2015. Í bréfi til bæjarins gerði ég grein fyrir hvernig ég hyggðist greiða upp skuldina sem enn stóð út af vegna skuldabréfsins. Ég fékk engin engin svör frá bænum en í lok ágúst kom einn bæjarráðsmaðurinn til mín og greindi mér frá því að bærinn vildi uppgreiðslu á skuldabréfinu og væri tilbúinn að veita afslátt ef ég gæti borgað þetta upp, til dæmis strax eftir Ljósanótt sem var nokkrum dögum seinna, í byrjun september. Enn stóð ég frammi fyrir afarkostum.
Yfirtökutilboð
Þegar hér var komið sögu höfðu tveir ungir menn samband og buðust til að taka staðinn yfir gegn því að gera upp skuldina við bæinn auk greiðslna til seljanda sem var langt undir eðlilegu kaupverði fyrir veitingastað eins og Paddý’s. Í framhaldinu fóru ungu mennirnir í viðræður við bæinn og komu til baka með þau tíðindi að bærinn samþykkti að þeir fengju húsið ef ég afsalaði forleiguréttinum til þeirra skriflega. Fram kom að bærinn hyggðist nú fella niður skuldina og gilti þá greinilega ekki lengur það sama um Jón og séra Jón. Síðan liðu tveir mánuðir án þess að komið væri með leiguframsalið til undirritunar og því rak ég staðinn áfram. Í nóvember höfðu kaupendurnir aftur samband og sögðu bæinn ætla að bjóða út leigu á húsinu og að ég ætti engan forleigurétt. Þá fór ég á fund bæjaritara og bauðst til að greiða upp skuldina þrátt fyrir að hún væri umsamin til þriggja ára. Þessu tilboði mínu var ekki svarað en hins vegar fóru að birtast furðufréttir um málið í blöðum um að það ætti ýmist að rífa húsið eða færa það og að ég hefði ekki staðið við skuldbindingar mínar.
Enn höfðu hinir áhugasömu kaupendur samband í desember 2014 og óskuðu nú eftir að fá að taka við rekstri staðarins með því loforði að fengju þeir húsið sem átti að fara að bjóða út þá yrði gert upp við mig. Það varð úr að þeir tóku við rekstri Paddý’s í desember og var það til bráðabirgða á mínu nafni á meðan málið var enn óuppgert. Í janúar 2015 var ég spurður af bæjarritara hvort nýir rekstraraðilar gætu notað eitthvað af búnaði staðarins ef til kæmi. Ég ítrekaði að ég hefði boðið uppgreiðslu á öllum skuldum við bæinn og að bærinn hefði enga heimild til að ráðstafa innanstokksmunum á Paddý’s.
Svikin loforð
Í febrúar 2015 var upplýst að nýju rekstraraðilarnir hefðu keypt húsið af bænum og gerði ég þá ráð fyrir að í framhaldinu yrði staðið við loforð um uppgjör við mig. Þegar ég gekk eftir því kom skyndilega annað hljóð í strokkinn. Þeir buðust til að greiða 700 þúsund krónur fyrir tækin í Paddý’s og sögðust hafa keypt húsið af bænum með öllu naglföstu. Þetta gat ég ekki sætt mig við og vildi fá að sækja tæki og tól sem ég átti á staðnum og tilkynnti þeim jafnframt að Paddý’s nafnið fengju þeir ekki að nota. Þessu var öllu mótmælt með látum.
Þegar ég óskaði aðstoðar bæjarins við að sækja eigur mínar neitaði bæjarritari og sagði að við það yrði búnaðurinn verðlaus. Þarna fór með öðrum orðum fram eignaupptaka á búnaði og innréttingum í minni eigu, ekki eingöngu með velþóknun bæjaryfirvalda heldur beinlínis fyrir tilstilli þessara sömu bæjaryfirvalda. Allt út af skuld sem ég hafði boðist til að greiða upp. Allar götur síðan hef ég, ásamt lögfræðingi mínum, gert ítrekaðar tilraunir til að fá afhent gögn bæjarins um söluna á húsnæði Paddý’s við Hafnargötu 38 en án árangurs. Eftir stendur að framganga bæjarins í þessu máli vekur áleitnar spurningar um siðferði og heilindi þeirra sem bænum stýra og um ungu mennina sem sölsuðu undir sig Paddý’s með aðstoð bæjaryfirvalda.
Ármann Ólafur Helgason
fyrrum veitingamaður á Paddý’s