Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Mánudagur 11. ágúst 2003 kl. 11:50

Óvissu tónlistarnemenda eytt

Að undanförnu hefur töluverð umræða farið fram í fjölmiðlum um neikvæð viðbrögð margra sveitarfélaga á Íslandi við þeirri ákvörðun Reykjavíkurborgar að hætta að niðurgreiða tónlistarnám í tónlistarskólum borgarinnar fyrir nemendur úr öðrum sveitarfélögum. Minna hefur farið fyrir umræðu um þau sveitarfélög sem hafa tekið þessari ákvörðun borgaryfirvalda vel og ákveðið að axla þessa ábyrgð sjálf.Þegar þessi umræða hófst í vor flutti undirritaður tillögu í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar um að Reykjanesbær leitaði samninga við borgaryfirvöld um að taka við þessum niðurgreiðslum fyrir þá tónlistarnemendur sem væru í námi í tónlistarskólum í Reykjavík en ættu lögheimili í Reykjanesbæ. Bæjarstjórn vísaði tillögunni til frekari umfjöllunar innan bæjarkerfisins og nú er þeirri umræðu og skoðun lokið og bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ búin að samþykkja að taka þessar niðurgreiðslur á sig. Þar með geta tónlistarnemendur úr Reykjanesbæ, sem hafa verið í tónlistarnámi í Reykjavík, verið rólegir því búið er að eyða óvissunni. Það er því miður ekki svo í mörgum öðrum sveitarfélögum og þegar þetta er ritað, í byrjun ágúst, eru tónlistarnemendur í mörgum stærstu sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu enn í óvissu með sitt nám næsta vetur. Það er ekki gott og í raun óþolandi að nemendur skuli með þessum hætti verða fyrir barðinu á skilningsleysi sveitarstjórnarmanna í mörgum sveitarfélögum á þessu brýna máli.

Ég ætla ekki að fjalla um aðrar skoðanir mínar á þessu máli s.s. um hvort ríkið eigi að greiða fyrir tónlistarnám nemenda á framhaldsskólastig o.s.frv. heldur vildi ég aðeins upplýsa nemendur um að með þessari tillögu minni og ákvörðun bæjaryfirvalda í kjölfarið hefur óvissunni verið eytt.

Þeir nemendur sem hér eiga hlut í máli geta snúið sér til Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar og fengið nánari upplýsingar.

Kveðja
Kjartan Már Kjartansson
bæjarfulltrúi Framsóknarflokksins
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024