Óverjandi samningur um Helguvík
Fulltrúar Vinstri-grænna í þremur nefndum Alþingis hafa lýst andstöðu sinni við frumvarp um fjárfestingarsamning um álver í Helguvík og telja óverjandi að samþykkja frumvarpið enda séu á því miklir annmarkar.
Misræmi í umhverfismati og losunarheimildum
Þannig gerir umhverfismat framkvæmdanna ráð fyrir heimild til byggingar 250 þúsund tonna álvers en samningurinn gerir ráð fyrir álveri sem framleitt geti allt að 360 þúsund tonnum. Við þetta bætist svo að Norðurál hefur aðeins losunarheimildir sem nema 150 þúsund tonna framleiðslu á ári. Þetta misræmi er æpandi og skekkir óumdeilanlega alla útreikninga sem reistir eru á ofangreindum tölum, s.s. arðsemisútreikninga og spár um fjölda nýrra starfa við byggingu og rekstur álversins. Samningurinn er auk þess framseljanleg söluvara sem gæti fyrr en síðar lent í höndum kröfuhafa móðurfélagsins.
Ágeng orkunýting og ósjálfbær
Orkuöflun til álversins er ótrygg enda liggur fyrir að orkulindir á Hengilssvæðinu og Reykjanesi duga ekki fyrir 360 þúsund tonna álver; því er ljóst að auk þess að þurrausa þær þarf að leita annarra virkjunarkosta, jafnvel í neðri hluta Þjórsár. Sú raforka verður þannig ekki nýtt í þágu vistvænni verkefna. Til viðbótar er rétt að hafa í huga að Hengilssvæðinu verður um að ræða gríðarlega ágenga nýtingu, sem mun á endanum leiða til þess að orkulindirnar tæmist. Orkunýting er þess utan einungis 10-12% þegar gufa jarðhitavirkjana er eingöngu nýtt í rafmagnsframleiðslu.
Raforkuverðið leyndarmál
Álverð á heimsmarkaði hefur undanfarin misseri hríðlækkað og framleiðsla áls dregist saman. Slíkar staðreyndir hljóta að vekja verulegar efasemdir um hvort réttlætanlegt sé útfrá viðskiptalegum og ekki síst þjóðhagslegum forsendum að ráðast í uppbyggingu fleiri álvera hér á landi. Þá má minna á þá staðreynd að lánsfé til virkjanaframkvæmda og línulagna er bæði dýrt og takmarkað. Engar upplýsingar liggja fyrir um raforkuverðið sem semningurinn byggir á. Því er ljóst að ekki er hægt að staðreynda arðsemisútreikninga samningsins frekar en samninginn um Kárahnjúkavirkjun.
16,2 milljónir dollara í ríkisstyrk
Í frumvarpinu er gert ráð fyrir verulegum undanþágum frá lögum fyrir Century Aluminum Company, sérstaklega hvað skattlagningu varðar og er samningurinn ígildi 16,2 milljón dollara ríkisstyrks til verkefnisins. Er þar jafnvel gengið enn lengra en fyrr því fyrirtækinu er veitt skjól gegn hækkun tekjuskatts umfram 15% enda þótt tekjuskattur allra annarra iðnfyrirtækja, þar með talinna hinna álfyrirtækjanna, yrði hækkaður. Ólíklegt er að slíkur samningur samrýmist jafnræðisreglu stjórnarskrár gagnvart öðrum atvinnurekstri í landinu, svo sem landbúnaði og sjávarútvegi. Til að mynda er ljóst að garðyrkjubændur sitja ekki við sama borð þótt þeir séu stórnotendur orku og stundi vistvæna starfsemi. Enn fremur má ljóst vera að afar lágt orkuverð til mengandi stóriðju hefur leitt og mun leiða til verulega hærra orkuverðs til annarra raforkunotenda. Það er sérlega ámælisvert gagnvart garðyrkjubændum sem hafa nýlega mátt þola skerðingu á umsömdum niðurgreiðslum ríkisins á raforkuverði.
Skattaskjól hjá þjóð í skuldaklafa
Fulltrúar VG í iðnaðarnefnd, umhverfisnefnd og efnahags- og skattanefnd leggjast alfarið gegn fjárfestingarsamningnum um Helguvík og telja skattaskjólið sem Century er veitt með honum vera óverjandi miðað við efnahagsástandið og þann skuldaklafa sem hvílir á þjóðinni. Samningurinn brýtur auk þess gegn markmiðum um sjálfbærra þróun; hamlar náttúruvernd og hindrar sjálfbæra og fjölbreytta atvinnustefnu.?
Atli Gíslason og Álfheiður Ingadóttir
höfundar eru fulltrúar Vinstri grænna í umhverfisnefnd og iðnaðarnefnd alþingis.