Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Óverjandi andstaða vinstri-grænna við álver í Helguvík
Fimmtudagur 16. apríl 2009 kl. 11:39

Óverjandi andstaða vinstri-grænna við álver í Helguvík


Þingmenn og frambjóðendur Vinstri-grænna, þau Atli Gíslason og Álfheiður Ingadóttir setja fram í grein til Víkurfrétta þann 15.apríl afstöðu sína gagnvart álveri í Helguvík. Grein þeirra staðfestir í sjálfu sér það sem margir vita að Vinstri-grænir leggjast gegn álversframkvæmdum í Helguvík burt séð frá öllum rökum eða staðreyndum. Hitt er þó verra að Vinstri-grænir hafa lagst gegn flestum góðum hugmyndum sem fram hafa komið um atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum að undanförnu og munu gera áfram fái þeir stuðning kjósenda til þess í kosningunum þann 25.apríl.

Misræmið
Þingmennirnir gera mikið úr því að misræmi sé í umhverfismati, leyfi til losunarheimilda og væntanlegum fjárfestingarsamningi sem þau hafa lagst eindregið gegn á alþingi. Staðreyndin er auðvitað sú að losunarheimildir (fyrir 150 þúsund tonna framleiðslu) eru eingöngu veittar til þess hluta framkvæmdarinnar sem næst er í tíma og hefur umhverfisráðuneytið ávallt sagt að losunarheimildir séu ekki afgreiddar til annarra framleiðsluþátta en þeirra sem liggja fyrir. Umhverfismat (fyrir 250 þúsund tonna álver) liggur fyrir og verði farið í meiri framleiðslu en það í Helguvík þarf að vinna annað umhverfismat. Það er einfaldlega ekki flóknara en svo. Hins vegar liggur fyrir vilji eigenda til þess að stækka verksmiðjuna í framtíðinni upp í 360 þúsund tonn og því er eðlilegt að fjárfestingarsamningur sem Vinstri-græn leggjast svo gegn á alþingi taki tillit til þess. Þá þarf a.m.k. ekki að fara aftur í gegnum það ferli á þinginu síðar. Afsakanir þingmannanna um að þetta misræmi sé óásættanlegt er fyrirsláttur og þarf ekki á nokkurn hátt að hafa áhrif á framkvæmdina.

Orkuöflun ótrygg
Öll fyrirtæki í framleiðslu þurfa að tryggja bæði aðföng og sölu til þess að starfsemin gangi til lengdar. Fyrirtæki í álframleiðslu þurfa væntanlega að hafa nóg hráefni til framleiðslunnar, orku til að kynda framleiðslutækin, skip til að flytja aðföng til landsins og frá og kaupendur sem kaupa það sem framleitt er. Orka er því aðeins einn þáttur af mörgum sem þarf að ganga eftir í ferlinu. Fyrir liggur að búið er að tryggja orku í fyrstu tvo áfanga verkefnisins. Engu að síður setja þingmennirnir það fyrir sig að fyrirtækið hafi ekki tryggt sér orku til framleiðslu sem hugsanlega verður framleidd eftir 5 ár eða svo. Ef þingmennirnir tveir telja svo nauðsynlegt að setja sig inn í rekstur einkafyrirtækis sem hér hyggst setja upp starfsemi ættu þeir líka að kanna hvernig samningar hafa verið gerðir um flutninga á aðföngum, kaup á hráefni eða sölu á framleiðslunni.  Ef ekki tekst að afla orku fyrir meira en fyrstu tvo áfanga verkefnisins verður væntanlega ekki af frekari framleiðslu og varla verða þingmennirnir ósáttir við það.

Raforkuverðið óljóst
HS Orka og Orkuveita Reykjavíkur hafa samið við Norðurál Helguvík um sölu á rafmagni og telja að um sé að ræða hagstæða samninga fyrir bæði fyrirtækin. Það er dæmigert fyrir Vinstri-græna að efast um slíka samninga og telja sig betur til þess fallin að meta gildi þeirra samninga en þeir einstaklingar sem fyrirtækjunum stjórna. Í þessu tilfelli hefur ríkið ekkert með það að gera hvernig samningarnir eru eða hversu hagstæðir þeir eru. Það er því algjörlega ólíðandi að nota slíkt sem rök gegn því að alþingi staðfesti fjárfestingarsamning við Norðurál Helguvík.

Ríkisstyrkur ???
Þingmennirnir telja að með samningnum sé verið að veita fyrirtækinu milljóna dollara ríkisstyrk, þar sé gengið lengra en fyrr í sambærilegum samningum, hann brjóti jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og aðrir sitji ekki við sama borð. Þetta eru stórar yfirlýsingar. Hið rétta er að samningurinn er algjörlega sambærilegur við samninga sem gerðir hafa verið við önnur álfyrirtæki, s.s. Ísal í Hafnarfirði, Norðurál í Grundarfirði og Fjarðarál á Reyðarfirði. Ef hann gengur lengra er það aðeins vegna þess að skattprósentan er lægri nú á atvinnurekstur í landinu en hann hefur áður verið og er það stefnu Sjálfstæðisflokksins að þakka. Fyrirliggjandi samningur við Norðurál í Helguvík er að engu leyti frábrugðinn þessum samningum. Ef samningurinn verður ekki staðfestur er hins vegar örugglega verið að brjóta jafnræðisreglu fyrirtækja innan sömu atvinnugreinar enda sitja þá ekki allir við sama borð. Yfirlýsingar um að t.d. garðyrkjubændur fái ekki sambærileg kjör á orkuverði eiga ekki við rök að styðjast. Öruggt er að stórnotendur, sem tilbúnir eru að kaupa jafn mikla orku og ganga frá jafnlöngum samningum um orkukaup og álfyrirtækin hafa gert, myndu fá nákvæmlega sömu kjör, hvort sem þeir framleiða ál eða agúrkur.

Alltaf á móti öllu
Sá málflutningur VG að fyrirtæki sem vill koma hingað til lands og fjárfesta fyrir milljarða króna sem skapar hundruði starfa til margra áratuga sé að leita í skattaskjól af því að það vill tryggja sig fyrir hugsanlegum skattahækkunum óskynsamra stjórnmálamanna eins og Vinstri-grænna er auðvitað fjarstæða. Það er einfaldlega skynsamlegt fyrir báða samningsaðila að ganga frá starfsumhverfi fyrirtækisins til lengri tíma. Þannig veit fyrirtækið að hverju það gengur til framtíðar og um leið gefur ríkisvaldið skilaboð út í alþjóðasamfélagið að stórfyrirtæki séu velkomin hingað til lands í öruggt starfsumhveri, vilji þau fjárfesta í atvinnuuppbyggingu sem skapar hagvöxt, atvinnu og bætir hag fólksins í landinu.

Það er sorglegt að verða vitni að því að þingmenn sem til áratuga hafa talað gegn stærsta atvinnurekandanum á Suðurnesjum leggi sig nú alla fram um að koma í veg fyrir að hér skapist fjöldi nýrra og vel launaðra starfa. Mikilvægt er að hafa það í huga þegar gengið verður til kosninga. Ekki síður er ástæða til þess að minnast þess að Samfylkingin vill tryggja þessu fólki setu í næstu ríkisstjórn.

Böðvar Jónsson
Höfundur er bæjarfulltrúi
fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024