Óþrjótandi tækifæri til framfara á Suðurnesjum
Suðurnesjamenn eiga ríkidæmi í auðlindum. Jarðvarminn, sjávarauðlindin, alþjóðaflugvöllur og ónýttur mannauður ætti að vera uppspretta tækifæra og framfara. Hvað hefur þá farið úrskeiðis?
Langvarandi arðrán og ófrelsi byggðar
Auðlindirnar bjóða upp á margbreytileika í atvinnusköpun og tækifæri til framfara. Í áratugi hafa Suðurnesjamenn verið hlunnfarnir af misvitrum stjórnmálamönnum sem tryggt hafa vinum sínum arðsemina af atvinnuvegunum. Einokun var komið á um verkefni á Keflavíkurflugvelli. Utanríkisráðuneytið síaði fólk inn í góð störf á vellinum meðan Kaninn var þar. Aðgangurinn að sjávarauðlindinni sætir einokun og takmarkar tækifæri til sjósóknar suður með sjó.
Fyrrverandi fjármálaráðherra seldi eiginlega bara sjálfum sér byggingar á vellinum og fyrirtæki sem sérhæfði sig í þjónustu við hátækni á Keflavíkurflugvelli lenti í vasanum á Framsóknarmanni sem átti að sjá um að einkavæða það. HS orka sem almenningur á Suðurnesjum hefur í raun byggt upp með dugnaði og útsjónarsemi er nú komin í hendur Magma Energy sem áhöld eru um hver eigi. Ferill SPK er raunarsaga út af fyrir sig.
Já, sagan er eiginlega bara nokkuð rotin þegar litið er til þess hvernig farið hefur verið með lífsbjörg og atvinnufrelsi byggðarlögum á Suðurnesjum. Í áratugi hafa Suðurnesja menn búið við það að hirða molanna sem hnjóta af borðum annarra. Þarf þetta ekki að breytast?
Atvinnuuppbygging
Umræðan um álver í Helguvík er suðupottur. Eina vonin í hugum margra. Ég ætla ekki að taka afstöðu til álvers í Helguvík en fjalla fremur hlutlaust um framtíðarhorfur atvinnumála á Suðurnesjum. Ég er þeirrar skoðunar að manneskjan eigi að vera í fyrsta sæti og náttúruvernd eigi ekki að hamla því að maðurinn geti lifað af landinu. Við verðum þó að stíga varlega til jarðar og muna að börnin okkar þurfa líka að lifa af landinu. Stjórnarfar á Suðurnesjum hefur bent til þess að ýmsir forystumenn hafa ekki séð fram yfir næstu mánaðarmót í stefnumótun og ákvarðanatöku.
Reykjanesbær hefur verið skuldsettur upp í rjáfur án þess að þess sjáist merki í aukinni velsæld og atvinnusköpun. Vonandi vilja menn ekki meira af slíku. Rentan af auðlindum þarf að skila sér til byggðarlagsins og fjárfestingar þurfa að skila viðvarandi atvinnusköpun, ekki bara næsta mánuðinn eða næstu tvö til þrjú árin. Vandann þarf að leysa til framtíðar. Um þessar mundir eru um 1500 manns atvinnulausir á svæðinu.
Frumréttur byggðarlaga
Með því að einblína á álver í Helguvík er verið að halda umræðu um aðra valkosti í gíslingu. Ég vil sjá að HS orka verði tekið úr höndum á þeirra sem keyptu nýtingarréttinn fyrir kúlulán og hrunkrónur. Jarðvarmaauðlindin er fæðingarréttur Suðurnesjamanna og þeir hafa fest þann rétt í sessi með því að standa að uppbyggingu mannvirkja sem sem umbreytir auðlindinni í verðmæti sem auka lífsgæði. HS orka skipti um hendur vegna athafna fjárglæframanna í stjórnmálum og bönkum. Það er hefðarréttur suðurnesjamanna að sækja fiskimiðin enda hafa þeir sótt hafa sjóinn í aldir. Að meina fólki að sækja sér lífsbjörg i þessari atvinnugrein er brot á mannréttindum.
Orkan úr iðrum jarðar á að styrkja fyrirtæki á Suðurnesjum en ekki að veikja þau með því að láta þau greiða niður orku til stóriðju eins og nú er gert. Ef Suðurnesjamenn fengju að nýta sér sjálfir orkuna sem þeir sjálfir sótt í iður jarðar myndi þeim reynast auðvelt með aðgangi að hóflegu fjármagni að byggja upp fiskeldi, ilrækt eða aðra mannfreka starfsemi sem leysir atvinnuleysisvandann á Suðurnesjum. Með slíkar frumgreinar og þekkingu mætti síðan þróa fullvinnslu afurða á erlendan markað. Nándin við alþjóðaflugvöll gerir íbúum auðvelt að koma ferskri vöru á erlenda markaði.
Munurinn á smáiðnaði og fyrirtækjarekstri annars vegar og stóriðju hins vegar er í stórum dráttum fyrir heimamenn að arðsemin af rekstri heimamanna skilar sér í vasa þeirra sjálfra og skatturinn til bæjarfélagsins. Stóriðjan flytur hinsvegar arðinn úr landi og kemur sér undan því að greiða skatt með því að flytja skuldir erlendra móðurfyrirtækja á álverin hér á landi.Ég hvet því fólk að hugsa um atvinnuuppbyggingu í stærra samhengi.
Stjórnarkrá sem verkfæri byggðafrelsis
Suðurnesjamenn eru ekki einir um að takast á við gríðarvanda sem rekja má til viðvarandi stjórnmálaóreiðu í landinu um áratugi. Rætur vandans liggja í óhæfu kerfi og vondri stjórnmálamenningu. Eins og einn ágætur sveitastjóri á Suðurnesjum benti okkur á, við lítinn fögnuð femínista, stjórnmálakerlingarnar eru ekki að vinna sitt verk. Stjórnmálin eru ónýt til síns brúks. Stjórnmálastéttin hefur hirt stjórnmálin af almenningi og gert þau að leikvelli græðgiafla. Til þess að tryggja framtíð barna okkar þurfum við að ná stjórnmálunum af stjórnmálamönnunum. Tryggja að uppspretta valdsins sé hjá þjóðinni og að ákvarðanir valdhafanna endurspegli vilja almennings.
Nú spyrja kannski einhverjir hvað þessi kona er að íhlutast um málefni heimamanna. Ég ólst upp í Sandgerði, dóttir Óla píp og sótti m.a. skóla í Keflavík. Starfaði um hríð á vellinum en flutti svo til Reykjavíkur þegar ég fór í sambúð. Ég heimsæki oft vinafólk í Njarðvík og Keflavík og fjölskyldu mína sem býr enn suðurfrá. Áhyggjurnar eru margvíslegar, atvinnuleysi, heilsugæslan í molum og félagsleg vandamál sem þessu fylgja.
Ég ákvað að bjóða mig fram til stjórnlagaþings í von um að geta orðið þar að gagni. Tel kannski að reynsla mín af lífsbaráttu hinnar venjulegu konu auk góðrar menntunar og þekkingu á stjórnsýslu gæti komið að gagni. Ég vil ekki verja núverandi stjórnarskrá heldur vil ég sjá nýja stjórnarskrá sem virkar og hefur í för með sér grundvallarbreytingar í stjórnmálum. Það eru til skotheldar leiðir til þess að tryggja það að stjórnarskráin sé virt, það þarf bara að beita þeim. Stjórnarskrá þarf að tryggja hæfni og jafnræði í stjórnsýslu og taka með kerfisbreytingum á þeirri spillingu sem hefur verið viðvarandi í íslensku stjórnarfari. Umfram allt þarf að tryggja að heimamenn í hverju byggðarlagi hafi frumrétt til þess að nýta náttúruauðlindir og stöðva arðrán þeirra sem kallaðir hafa verið víkingar.
Ég var í námi við Háskólann í Gautaborg og lauk því til Kand. Mag. gráðu í stjórnsýslufræði. Ég hef lokið við M.Sc. gráðu í stjórnun við Háskóla Íslands og hef verið í doktorsnámi við Háskóla Íslands og Háskólann í London en ég hef lokið við að skrifa doktorsritgerð í menntunarfræðum.
Jakobína Ingunn Ólafsdóttir
Stjórnsýslufræðingur
Í framboði á stjórnlagaþing