Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Óþarfi að fara langt
Laugardagur 14. apríl 2012 kl. 10:43

Óþarfi að fara langt


Áhugi almennings á útivist og náttúruskoðun hefur stóraukist á undanförnum árum.  Fjöldinn allur af gönguhópum hefur orðið til og stærri ferðafélögin hafa aukið félagatölu sína umtalsvert. Eftirspurn eftir upplýsingum og  fræðsluefni tengdu þessu hefur að sama skapi aukist.  Það varð kveikjan að verkefni sem ég vann á síðasta ári um gönguleiðir á Reykjanesskaga.

Gefnar hafa verið út gönguleiðabækur og kort af mörgum svæðum á Íslandi en hugmynd mín var sú að gera þetta efni meira lifandi og myndrænna.  Nýta þá tækni sem verður sífellt sterkari í miðlun nútímans  þ.e. myndbandið,  sem ekki er hægt að kalla myndband lengur þar sem þessi  tækni er orðin stafræn. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Til að sem flestir gætu notið afraksturs verkefnisins ákvað ég að gera efnið ekki að söluvöru heldur sótti ég um styrk til Menningarráðs Suðurnesja til að geta a.m.k. að einhverju leyti  staðið undir allri þeirri vinnu og kostnaði sem verkefnið hafði  í för með sér. Menningaráð tók hugmynd minni mjög vel og  ákvað ég að ráðast í gerð fjögurra fræðsluþátta um gönguleiðir á Reykjanesskaga, hvern um sig 11-13 mínútna langan. Til að almenningur hefði góðan aðgang að þáttunum fékk ég Víkurfréttir til að hýsa þá ásamt gönguleiðakortum sem fólk getur prentað út og hefur efnið verið aðgengilegt á vefsíðu Víkurfrétta.  Viðbrögð almennings við þessu framtaki hafa verið mjög jákvæð og vonandi á það eftir að gagnast þeim sem hugsa sér til hreyfings nú þegar vorið heilsar og sumarið er framundan.

Þættina er hægt að nálgast hér: http://www.vf.is/gonguleidir-a-reykjanesi/

Reykjanesskaginn er  miklu meiri náttúru- og útivistarparadís en margur heldur.  Nú þegar fáránlega hátt bensínverð sligar heimilin eru margir sem munu  fjárhagslega ekki treysta sér í langferðir. Því er um að gera að njóta náttúrunnar á heimaslóð og kynnast umhverfi sínu betur.

Á Reykjanesskaga er fjölbreytt og forvitnileg náttúra.  Krýsuvíkursvæðið og Reykjanesfólkvangur er mikil útivistarparadís. Á tiltölulega litlu svæði er hægt að sjá allar gerðir landslags og jarðmyndana. Uppi á Sveifluhálsi er stórbrotið hálendislandslag, ekkert ósvipað því sem maður finnur vestan Vatnajökuls undir Bárðarbungu. Háhitasvæðin með allri sinni litadýrð,  áhugaverðar hraunmyndanir, s.s. í Katlahrauni, sögulegir staðir eins og Selatangar, iðandi fuglabyggð í Krýsuvíkurbjargi, einu flottasta og litríkasta fuglabjargi landsins. Á fögrum degi  má sjá fólk veiða í Kleifarvatni eða róa á kajökum.  Allt er þetta vel aðgengilegt og steinsnar frá mesta þéttbýlissvæði landsins. Þá eru einnig áhugaverðar gönguleiðir á Hengilsvæðinu við allra hæfi t.d. í Reykjadal,  þar sem hægt er að baða sig í heitum læk.  Þá er Grændalur einkar fagur,  Innstidalur og Ölkelduhálsinn. Möguleikarnir til gönguferða og útivistar eru margir hér á Reykjaneskaganum og það þarf ekki að fara langt.

Njótið.

Með bestu kveðju,
Ellert Grétarsson.

 

Myndir:
Efri mynd: Á Trölladyngju. Spákonuvatn og Núpshlíðarháls fjær.  Ljósm/elg.

Neðri mynd: Göngufólk fær sér nesti í skjóli Gíslhellis. Hellirinn er hraunrás og er við Skipsstíg, eina af gömlu þjóðleiðunum á Reykjanesskaga.