Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Óþarfa áhætta fyrir íbúa Reykjanesbæjar
  • Óþarfa áhætta fyrir íbúa Reykjanesbæjar
Laugardagur 3. október 2015 kl. 03:00

Óþarfa áhætta fyrir íbúa Reykjanesbæjar

– Benóný Harðarson skrifar

Áform um uppbyggingu verksmiðju Thorsil í Helguvík fela í sér mikla áhættu fyrir lífsgæði íbúa í Reykjanesbæ. Í áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum verksmiðjunnar segir að þrátt fyrir að styrkur mengunarefna frá henni sé almennt talinn verða innan viðmiðunarmarka þá muni loftgæði í nágrenninu rýrna umtalsvert. Þar kemur einnig fram að brennisteinsmengun geti farið yfir viðmiðunarmörk og því þurfi að viðhafa sérstakta vöktun við íbúðabyggðina sem stendur næst Helguvík. Er þessi skerðing á lífsgæðum áhættunnar virði?

Aðrir kostir í boði

Þeir eru til sem halda því fram að skert lífsgæði vegna verksmiðju Thorsil sé eðlileg fórn til þess að fjölga vel launuðum störfum á svæðinu. Slíka fórn er hins vegar algjör óþarfi að færa því aðrir, og jafnvel álitlegri, kostir til atvinnuuppbyggingar eru þegar til staðar. Auk þess má færa rök fyrir því að verksmiðja Thorsil takmarki aðra atvinnuuppbyggingu á svæðinu.

Nú þegar er United Silicon að byggja kísilmálmsverksmiðju í Helguvík af sömu stærð og sú sem Thorsil vill fá að byggja. Komið hefur fram að uppbygging fyrri áfanga hennar ljúki í maí á næsta ári, þegar hún tekur til starfa, og þeim seinni árið 2018. Gert er ráð fyrir að 160 manns muni starfa í verksmiðjunni þegar hún er komin í fullan rekstur.

Einnig hefur komið fram að fyrirtækið Atlantic Green Chemicals vilji byggja upp lífalkahólverksmiðju við hlið verksmiðju United Silicon í Helguvík. Í umhverfismatsskýrslu á vef Skipulagsstofnunar kemur fram að  þegar verksmiðjan verður fullbyggð verði þar um 50 fjölbreytt heilsársstöf sem krefjast fjölbreyttrar menntunar. Í áliti Skipulagsstofnunar um umhverfismatið kemur fram að umhverfisáhrif séu metin í lágmarki og að raforkuþörfin sé 6 MW.

Ruðningsáhrif Thorsil

Forsenda verksmiðju Atlantic Green Chemicals er að hún sé staðsett við hlið United Silicon til að hægt sé að nýta útblástursvarma úr þeirri síðarnefndu. Í fjölmiðlum hefur komið fram að Atlantic Green Chemicals telja Reykjanesbæ hafa svikið sig þegar þegar hann úthluti Thorsil sömu lóð og fyrirtækinu hafi áður verið veitt vilyrði um og er það mál nú fyrir dómstólum.

Vegna þess hversu takmarkað framboð er á raforku er ljóst að mikil samkeppni mun verða á milli United Silicon, sem þarf að afla orku til síðari áfanga sinnar verksmiðju, og Thorsil, sem þarf að tryggja sér orku til fyrri áfanga sinnar verksmiðju. Verði Thorsil ofan á í þeirri samkeppni er hætt við því að í Helguvík verði starfræktar tvær hálfar verksmiðjur í stað einnar í fullri stærð.

Það er alveg á hreinu að með því að hafna verksmiðju Thorsil í Helguvík er engin áhætta tekin hvað varðar atvinnutækifæri á Suðurnesjum en alvarleg áhætta tekin varðandi mengun og umhverfi ef hún rís. Reyndar gæti samþykki á verksmiðju Thorsil skilað verri niðurstöðu fyrir íbúa á Suðurnesjum með tilliti til atvinnuppbyggingar.

Lýðræðisást bæjarstjórans

Kjartan Már Kjartansson sagði nýverið að ekki yrði hlustað á íbúakosningu sem nú er verið að undirbúa. Kjartan Már verður að gera sér grein fyrir því að eðlilegt er að hlusta á vilja íbúa sveitarfélagsins. Ef hann og meirihlutinn er ekki tilbúinn til þess að hlusta, þá hefur þetta fólk ekkert með það að gera að stjórna bæjarfélaginu. Kjartan Már Kjartansson verður að gera sér grein fyrir því að hann er ekki talsmaður erlends stórfyrirtækis, hann er talsmaður bæjarbúa í Reykjanesbæ, og þarf að sinna því starfi.

Benóný Harðarson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024