Öryggi á Ljósanótt
Öryggisnefnd Ljósanætur.
Senn líður að Ljósanótt, þeirri 12. í röðinni en undanfarnar vikur hefur öryggisnefnd hátíðarinnar verið að funda og skipuleggja starf sitt vegna hátíðarinnar. Öryggisnefndina skipa fulltrúar frá lögreglunni á Suðurnesjum, Brunavörnum Suðurnesja, ýmsum stofnunum bæjarins svo sem umhverfis- og skipulagssviði, þjónustumiðstöð, útideild og fjölskyldu- og félagsþjónustu, Björgunarsveitinni Suðurnes og Kvennasveitinni Dagbjörgu. Öryggisnefndin vinnur náið með Ljósanæturnefndinni. Megin markmið öryggisnefndarinnar er að tryggja öryggi gesta. Farið er yfir umferðarskipulag, lokun gatna, bílastæðamál, löggæslu, sjúkraflutninga og slökkvilið, verkefni björgunarsveitarinnar, eftirlit á sjó, uppsetning athvarfs, umsjón með börnum sem hafa orðið viðskila við forráðamenn sína og fleira.
Öryggismiðstöð Hafnargötu 8.
Lögregla, sjúkralið, björgunarsveit, athvarf og kvennasveitin hafa sína miðstöð á Hafnargötu 8 þar sem leigubílastöðin er til húsa. Lögregla er með sína stjórnstöð þar í nýrri vettvangsstjórabifreið Landsbjargar. Björgunarsveitin er einnig með sinn fulltrúa í bifreiðinni til að samhæfa störf björgunarsveitarmanna. Við vettvangsstjórabifreiðina verður staðsett sjúkrabifreið frá Brunavörnum Suðurnesja ásamt því að björgunarsveitin verður með sjúkraskýli við miðstöðina. Kvennasveitin Dagbjörg mun sjá um týnd börn og fleira.
Athvarf.
Hafnargata 8 verður síðan vettvangur athvarfs á kvöldin þar sem lögreglumenn munu, ef til þess kemur, fara með ungmenni sem eru undir áhrifum áfengis eða eru úti eftir að útivistartíma lýkur. Athvarfið er starfrækt í samvinnu við fjölskyldu- og félagsþjónustu Reykjanesbæjar, útideildina og FFGír.
Sýnileg löggæsla.
Hátt í 40 lögreglumenn verða á vakt á laugardagskvöldinu þegar hæst lætur. Lögreglumenn verða í fjölmennum gönguhópum á Hafnargötu, vel sýnilegir í gulum vestum. Lögreglumenn munu stuðla að því að tryggja öryggi borgarana með því að taka á þeim sem eru til vandræða. Lögreglumenn munu hafa afskipti, ef til þess kemur af ungmennum sem eru ölvuð eða með áfengi og þau færð í athvarfið. Lagt verður hald á áfengið og því eytt. Lögreglan á Suðurnesjum mun njóta aðstoðar sérsveitar Ríkislögreglustjóra ásamt því að umferðardeild lögreglunnar á höfðuborgarsvæðinu mun leggja til tvo bifhjólamenn til aðstoðar við umferðarstjórnun. Lögreglan mun njóta aðstoðar fjölda björgunarsveitarmanna við ýmis gæslustöf í tengslum við hátíðina.
Fjölskyldan saman á Ljósanótt.
Lögreglan hvetur foreldra til að fylgja börnum sínum og unglingum á Ljósanótt og njóta dagskrárinnar saman. Það er mikilvægt að foreldrar hugi að því að börn og unglingar séu ekki eftirlitslaus í bænum.
Þakkir.
Lögreglan á Suðurnesjum vill koma á framfæri þökkum til fulltrúa öryggisnefndarnnar fyrir gott samstarf í aðdraganda þessarar hátíðar. Öryggisnefnd hefur verið starfrækt frá fyrstu hátíð og er mikilvægur þáttur í því að tryggja öryggi borgarana.
Virðingarfyllst,
Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn í almennri deild.