Orkunýting og atvinnutækifæri
Frá því að við stigum á fyrstu skóflustunguna fyrir álveri í Helguvík hefur stuðningur við þá miklu framkvæmd vaxið stöðugt. Nú er svo komið að þegar að Helguvíkurframkvæmdir og tengd orkumannvirku fara á fullan snúning mun það skipta verulega máli til að treysta til framtiðar stoðir atvinnulífs á Íslandi og suður með sjó. Þá koma þessar framkvæmdir á óskastundu hvað varðar samdrátt í mannvirkjagerð og byggingaframkævæmdum. Því verðum við að leita allra leiða, stjórnvöld heima og í héraði, til þess að tryggja framgang framkvæmdanna. Fari uppbygging í Helguvík, álver og kísilverksmiðja auk gagnvaversins á Ásbrú á fullt gjörbreytir það stöðunni til hins betra. Því var það lykilatriði í vor áður en Alþingi var slitið fyrir kosningar að ljúka gerð fjárfestingasamnings á milli ríkisins og Norðuráls. Það tryggði að framkvæmdi gætu haldið áfram.
Ákvörðun umhverfisráðherra um Suðvesturlínur olli mörgum vonbrigðum en við verðum að tryggja að hún verði ekki til að hægja á verkinu svo neinu nemi. Aðeins til að varpa ljósi á mikilvægi Suðvesturlína er ágætt að halda því til haga að verkefnið snýst m.a. um raforkuöryggi á Reykjanesi og í raun á öllu landsnetinu og er því miklu stærra mál en virðist í fyrstu. Það er mannaflsfrek framkvæmd sem kæmi nú á besta tíma. Þá varð tjón í fyrravetur þegar hið einfalda línumannvirki á skaganum sló út og með hliðsjón af íbúa- og atvinnusvæðum, jafnvel alþjóðaflugi er afar mikilvægt að byggja upp og tryggja enn betur raforkuflutningskerfið og öryggi þess.
Gert er ráð fyrir að framkvæmdun við Suðvesturlínu verði skipt í fimm áfanga og er reiknað með að vinna við verkið geti hafist sumarið 2010 og standi yfir, með einhverjum hléum, til ársins 2017. Tímasetning og aðgerðaröð er ekki endanleg enda margir þættir sem þar geta haft áhrif. Mannaflaþörf við fyrstu fjóra áfangana í uppbyggingu raforkuflutningskerfisins á Suðvesturlandi er áætluð 380 ársverk en ársverk svarar til vinnu eins manns í heilt ár. Áætlaður framkvæmdakostnaður vegna fyrstu fjögurra áfanga verkefnisins er um 27,3 milljarðar króna, á verðlagi janúarmánaðar 2009.
Því er þetta margþætt og afar mikilvæg framkvæmd sem tryggir núframkvæmdir á borð við gagnavar og álver í Helguvík orku auk þess að stórbæta raforkuöryggi á Reykjanesinu öllu.
Bæjar-og sveitastjórnir Reykjanesbæjar og í Garði mótmæla báðar ákvörðun umhverfisráðherra um að fella úr gildi úrskurð Skipulagsstofnunar um Suðvesturlínur. Þau benda réttilega á að skatttekjur í sveitarfélögum á Íslandi, á hvern íbúa, eru lægstar í Reykjanesbæ og atvinnuleysi þar mest á landinu. Þessi veruleiki gæti breyst til hins betra, bæði í störfum og launum, um næstu áramót með fyrirhuguðum stórverkefnum á sviði álvinnslu. Þá segir í ályktun frá Reykjanesbæ að "undirbúningur hefur staðið yfir s.l. 5 ár og fyrirhugað var að hefja að fullu mannaflsfrekar framkvæmdir eftir 3 mánuði. Þúsundir manna fá þá að nýju atvinnu. Laun í álveri eru umtalsvert hærri en þau meðallaun sem íbúar búa nú við. Með störfum í álveri, kísilveri og gagnaveri getur því orðið kærkomin umbreyting á atvinnuháttum og launum fólks á svæðinu."
Undir þetta tek ég heilshugar og skora á alla sem að koma að standa saman í að tryggja framgang framkvæmdanna.
Björgvin G. Sigurðsson, 1. þingmaður Suðurkjördæmis.