Orðum fylgir ábyrgð
– Álfhildur Sigurjónsdóttir skrifar
Ágætu kjósendur í Garði!
Ég er fædd og uppalin í Garðinum og hér á ég mínar rætur. Uppvaxin börn mín og barnabörn búa í Garðinum og vil ég leggja mitt af mörkum til þess að þau og aðrir njóti tilveru sinnar hér. Orð eru til alls fyrst og orðum fylgir ábyrgð. Ég vil að athafnir fylgi orðum bæjarstjórnar og mun leggja áherslu á þau vinnubrögð næsta kjörtímabil.
Síðustu fjögur ár hef ég starfað með N-listanum og hefur mér líkað vel þau heiðarlegu vinnubrögð sem þar eru viðhöfð. Á kjörtímabilinu hef ég setið í ýmsum nefndum bæjarins bæði sem aðal- og eða varamaður. Ég gef kost á mér í þriðja sæti N-lista, lista nýrra tíma með það markmið að sjá Garðinn blómstra sem líflegan fjölskyldubæ.
Ég vil að bæjaryfirvöld leggi áherslu á að friður ríki um skólastarfið. Allir starfsmenn Sveitarfélagsins Garðs, eiga að vera góðar fyrirmyndir og líti á sig sem slíkar. Sama krafa er gerð til þeirra sem vinna sem þjálfarar og leiðtogar í íþrótta-, félags- og menningarstarfsemi á vegum bæjarins.
Það þarf að lyfta grettistaki í félagsmálum bæjarbúa. Stór þáttur í því átaki væri að koma upp samkomustað eða félagsheimili sem bæjarbúar gætu verið stoltir af. Samkomuhúsið sem þjónað hefur íbúum síðan 1910 þarfnast gagngerðra endurbóta svo sómi verði að. Ég tel að vinna þurfi að úrbótum í þessum málum svo blása megi nýju lífi í gamlar glæður og efla og bæta félagslífið í okkar annars ágæta bæjarfélagi.
Mér finnst mjög brýnt að komið verði á hvatastyrk vegna tómstundaþátttöku barna og unglinga. Auka þarf fjölbreytni í tómstundavali þar sem börnin okkar hafa mismunandi áhugamál og öll eiga þau að fá að njóta sín á því sviði sem áhugi þeirra liggur. Það er bæjaryfirvalda að koma til móts við þennan hóp.
Það kom mér ekki á óvart að 600 manns skrifuðu nafn sitt við spurninguna „Styður þú persónukjör í Garðinum?“ Ég vil að hlustað sé á raddir bæjarbúa hér í samfélaginu og að íbúalýðræði verði virkt, t.d. með rafrænum kosningum um hin ýmsu málefni og framkvæmdir. N-listi leggur áherslu á að sveitarfélagið verði tilraunasveitarfélag í persónukjöri kosningaárið 2018.
Setjum X við N og njótum alls þess er Garðurinn hefur upp á að bjóða og gerum enn betur saman.
Álfhildur Sigurjónsdóttir
frambjóðandi í 3. sæti fyrir N-lista, lista nýrra tíma