Orð og efndir á Alþingi í atvinnuleysi
Atvinnuleysi á Suðurnesjum er komið í 26%. Hjá konum mælist það nú 29% en hjá körlum 24%. Svo mikið atvinnuleysi hefur aldrei áður sést og er verulegt áhyggjuefni. Á Suðurnesjum er atvinnuleysið tvöfalt hærra en á landsvísu og rúmlega það. Áhrif veirufaraldursins eru margþættari og víðtækari en okkur óraði fyrir nú þegar brátt er ár síðan fyrsta smitið greindist hér á landi. Þjóðin er stödd í verstu efnahagslegu þrengingum í manna minnum. Stjórnvöld hafa brugðist við með ýmsum úrræðum, ekki skal dregið úr mikilvægi þeirra. Sum þessarar úrræða hafa þó verið þung í framkvæmd og umsóknarferlið flókið og svifaseint. Brýnt er að lagfæra það. Miðflokkurinn hefur stutt tillögur ríkisstjórnarinnar sem miða að því að verja störfin og lágmarka hið efnahagslega tjón sem veirufaraldurinn hefur valdið þjóðinni. Atvinnuleysi hefur oft borið á góma á Alþingi undanfarna mánuði og Suðurnesin einnig nefnd í því samhengi. Þingmenn hafa lýst yfir áhyggjum af stöðunni. En það er ekki nóg að hafa áhyggjur. Það þarf að bregðast við. Það þarf aðgerðir sem skila árangri. Það er hlutverk Alþingis í fordæmalausum aðstæðum.
Tillaga um sértækan stuðning til Suðurnesja felld á Alþingi
Ég hef lagt áherslu á það á Alþingi að það þurfi sértækar aðgerðir fyrir Suðurnesin vegna mikils atvinnuleysis. Alþingi hefur fjárveitingarvaldið og getur ákveðið að ráðast í sérstakt átak gegn atvinnuleysi á Suðurnesjum. Það tækifæri fékk ríkisstjórnin við afgreiðslu fjárlaga skömmu fyrir jól en hafnaði. Í fjárlagavinnunni í desember flutti ég breytingartillögu við fjárlög um sértæka aðstoð til Suðunesja. Tillaga fól í sér tveggja milljarða króna framlag til Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum til að standa straum af ráðningarstyrkjum. Til þess að auðvelda fyrirtækjum að ráða starfsfólk. Með hverjum nýjum starfskrafti getur atvinnurekandi fengið ráðningarstyrk að upphæð 345 þúsund krónur á mánuði í sex mánuði. Hér er um mjög mikilvægt úrræði að ræða til að draga úr atvinnuleysi. Tillagan var fullfjármögnuð og hefði ekki aukið skuldir ríkissjóðs. Hún var felld af ríkisstjórnarflokkunum með 30 atkvæðum gegn 27. Þingmenn stjórnarflokkana hafa lýst yfir áhyggjum af stöðunni á Suðurnesjum. Þeim orðum fylgdu því miður ekki efndir.
Birgir Þórarinsson.
Höfundur er þingmaður Miðflokksins og situr í fjárlaganefnd Alþingis.