Opnaðu augun, fordómar leynast víða
Tíu ára stúlka kallar bekkjarsystur sína brúnan skít. Eldri maður spyr unga frænku sína af hverju hún hafi ekki bara fengið sér frekar hund þegar hann komst að því að nýi kærastinn hennar væri þeldökkur. Íbúar tveggja íbúða í blokk banka upp á hjá nýju nágrannafjölskyldunni sem er tælensk og setja húsreglur sem enginn annar íbúi í blokkinni kannast við að séu í gildi. Það sem þessar sögur eiga sameiginlegt er að þær eru allar sannsögulegar og áttu sér stað í Reykjanesbæ á undanförnum vikum.
Það er staðreynd að íslenskt samfélag er fjölmenningarlegt og því verður ekki breytt. Það er einnig staðreynd að þrátt fyrir það eiga kynþáttafordómar sér ennþá stað í íslensku samfélagi. Orðið fordómar þýðir að dæma án þess að þekkja. Dregnar eru upp einfaldar myndir af hópum eða þjóðum, svokallaðar staðalmyndir. Einstaklingar eru svo metnir út frá þessum staðalmyndum sem oftast eru neikvæðar.
Fordómar byggðir á staðalmyndum eru oft duldir. Duldir fordómar birtast einkum í hversdagslífinu og á Íslandi geta þeir lýst sér t.d. í verri þjónustu við útlendinga en Íslendinga í verslunum eða slæmu aðgengi útlendinga að leiguíbúðum og atvinnu þar sem fólki af erlendum uppruna er mismunað þegar það sækir um vinnu eða skoðar leiguíbúðir. Þá er þjóðerni eða kynþáttur alls ekki opinber útskýring á því hvers vegna viðkomandi fékk ekki tækifæri t.d. á atvinnuviðtali, heldur er hún dulin.
Ein af birtingarmyndum kynþáttafordóma er hatursræða en það er orðræða sem miðar að því að hvetja til haturs og fordóma og birtist í ýmsum tilbrigðum. Hatursræðu er hægt að tjá munnlega eða í skriflegu formi af hverjum sem er; stjórnmálamönnum, fjölmiðlum, bloggurum eða jafnvel nánum vinum. Skilaboðunum er síðan hægt að dreifa til almennings í gegnum félagsleg net, veraldarvefinn eða hið hefðbundna fjölmiðlaumhverfi. Hatursræða þarf ekki endilega að vera í munnlegu formi því einnig eru tákn valdamikið tjáningarform. Tákn sem túlka eiga hatur og fordóma er unnt að finna víðast hvar eins og t.d. í formi veggjakrots á húsi, húðflúrs á líkama og límmiða á bíl. Hatursræðu verður að gagnrýna, hvort sem hún birtist í daglegu tali, fjölmiðlum, á bloggum eða á samskiptavefum eins og Facebook. Það krefst hugrekkis til að andmæla kynþáttafordómum og misrétti hvort sem slíkt fer fram úti á götu, í skólum, á íþróttavöllum, inni á heimilum eða innan stofnana.
Í gær, 21. mars var alþjóðadagur gegn kynþáttamisrétti og vikuna í kringum þann dag eða 17.-25. mars er haldið upp á Evrópuviku gegn kynþáttamisrétti um alla Evrópu. Evrópuvikan miðar að því að uppræta þröngsýni, fordóma og skaðlega þjóðernishyggju í Evrópu. Markmiðið er að byggja Evrópusamfélag víðsýni og samkenndar þar sem allir eru jafnir, óháð útliti og uppruna. Mín von er að fólk opni augun og komi auga á fordóma, sína eigin og annarra og tjái sig gegn þeim.
Valgerður Björk Pálsdóttir
Verkefnastjóri Mannréttindaskrifstofu Íslands og íbúi í Reykjanesbæ