Aðsent

Opinn fundur í Stapa
Mánudagur 27. október 2014 kl. 08:53

Opinn fundur í Stapa

Næst komandi miðvikudag, þann 29. október, verður opinn fundur í Stapa um fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar. Á fundinum munu ráðgjafar KPMG fara yfir helstu niðurstöður úttektar á fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar sem þeir hafa unnið að í sumar og haust.

Fyrri bæjarstjórn samþykkti með öllum greiddum atkvæðum sl. vor að láta gera slíka úttekt sem nú hefur litið dagsins ljós og fengið nafnið „Sóknin“. Þar er m.a. verið að vísa til þess að „Sóknin sé besta vörnin“. Síðan þessi vinna hófst hafa allir bæjarfulltrúar, stjórnendur og starfsmenn Reykjanesbæjar unnið vel með KPMG að gagnaöflun og verið einhuga í að nauðsynlegt væri að fá sem gleggsta mynd af stöðunni.

Það sem skiptir mestu máli núna er að finna leiðir út úr þeirri stöðu sem sveitarfélagið er í. Tilgangurinn með allri þessari vinnu er ekki að leita að sökudólgum heldur fyrst og fremst að átta sig á raunverulegri stöðu og leita lausna. Auðvitað er alltaf nauðsynlegt í slíkri vinnu að horfast  í augu  við og læra af mistökum sem hugsanlega hafa verið gerð en það má alls ekki verða aðal atriðið. Um það vil ég biðja alla bæjarbúa að sameinast. Notum kraftinn í að horfa til framtíðar og finna leiðir til að snúa málum til betri vegar. Það ætlar allir núverandi bæjarfulltrúar og stjórnendur Reykjanesbæjar að gera.
Skýrsla KPMG hefur þegar verið kynnt aðal- og varamönnum í bæjarstjórn og bæjarráði, framkvæmdastjórum sviða og deildarstjórum hinna ýmsum stofnanna Reykjanesbæjar. Hún hefur hins vegar ekki verið kynnt almennum starfsmönnum og eru þeir því hvattir til þess að mæta á fundinn.

Þær leiðir sem kynntar verða á fundinum samanstanda af ýmsum þáttum enda þarf í stöðu sem þessari að taka á málum frá öllum hliðum. Það þarf að auka tekjur, lækka kostnað, draga úr fjárfestingum, selja eignir og endursemja við lánadrottna svo fátt eitt sé nefnt. Til þess að Sóknin skili tilætluðum árangri þurfa allir hagsmunaaðilar; bæjaryfirvöld, íbúar, starfsmenn, lánastofnanir o.fl. að koma að málum. Það verður stærsta verkefni okkar allra næstu árin svo takast megi, með Sókninni, að snúa málum til betri vegar og halda áfram að byggja hér upp gott samfélag og þjónustu.  

Þegar þetta er ritað, á sunnudagsmorgni, er verið að leita leiða til þess að varpa fundinum út á netið. Ef viðunandi lausn á viðráðanlegu verði finnst verður hún kynnt sérstaklega.

Kær kveðja,
Kjartan Már Kjartansson,
bæjarstjóri Reykjanesbæjar

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024