Bláa Lónið - 01apíl.
Bláa Lónið - 01apíl.

Aðsent

Opið bréf til sóknarbarna í Njarðvíkurprestakalli
Sr. Baldur Rafn Sigurðsson
Laugardagur 30. janúar 2016 kl. 14:58

Opið bréf til sóknarbarna í Njarðvíkurprestakalli

- Séra Baldur Rafn skrifar bréf til sóknarbarna sinna

Ágætu sóknarbörn.

Mér finnst rétt að ávarpa ykkur á þessum vettvangi vegna umræðu í nærsamfélagi okkar og umfjöllunar fjölmiðla um sóknarnefndir prestakallsins, Líknar- og hjálparsjóði Njarðvíkurkirkna og akstursgreiðslna til mín. Þetta geri ég til þess að varpa ljósi á málavöxtu í þeirri von að það geti leitt til sátta um starf mitt og að kirkjustarfið geti haldið áfram á sem eðlilegastan hátt.

Þegar ég tók við starfi sóknarprests í Njarðvíkurprestakalli fyrir 24 árum voru mér boðin sambærileg kjör og forvera mínum. Hluti af þeim kjörum voru greiðslur sem ætlað var að mæta hluta af útlögðum kostnað prestsins vegna akstur sem var ekki einsdæmi. Sitt sýnist hverjum um þessar greiðslur og skiptar skoðanir eru um þær innan kirkjunnar. Það er ekki mitt að meta lögmæti þeirra kjara sem mér voru boðin en ég hef nú afþakkað greiðslurnar sem eru til skoðunar hjá Kirkjuráði. Ég mun að sjálfsögðu lúta niðurstöðu ráðsins.

Kvenfélag Njarðvíkur hefur stutt Líknar- og hjálparsjóð kirknanna af miklum rausnarskap sem og önnur félög og einstaklingar og það verður seint fullþakkað. Árið 2012 færði Kvenfélagið sjóðnum 100 úttektarkort í matvöruverslun, hvert að verðmæti 20.000 krónur. Heildarverðmæti þessarar höfðinglegu gjafar nam því alls tveimur milljónum króna.

Við móttöku gjafarinnar voru kvenfélagskonur upplýstar um að gjöfin kæmi sér afar vel en að sjóðurinn ætti töluvert af eldri úttektarkortum og þeim yrði úthlutað áður en kæmi að kortunum frá kvenfélaginu, eins og gert var.

Úthlutun kortanna fer fram samkvæmt úthlutunarreglum Hjálparstarfs kirkjunnar. Upphæðin á kortum kvenfélagsins þótti í sumum tilvikum of há og þeim var því skipt út þannig að fyrir hvert kort fengust fjögur kort að verðmæti 5.000 krónum. Kortunum hefur að verið úthlutað til þurfandi í samfélaginu, en kortin eru útgefin af Samkaupum. Þessi góða gjöf kvenfélagsins hefur því komið sér vel og um áramótin voru eftir af gjöfinni kort að verðmæti 270.000 krónur og það sýnir vel hversu þörfin er mikil í samfélaginu okkar. Heildarstaða sjóðsins um síðustu áramót var 502.141 krónur.

Í umræðu síðustu daga hefur verið bent á að óheppilegt sé að reikningur Líknar- og hjálparsjóðs Njarðvíkurkirkna sé á kennitölu Ytri- Njarðvíkursóknar, þótt nefndin annist vörslu hans. Undir það get ég tekið en bendi jafnframt á að um sérstakan reikning er að ræða sem tengist ekki á nokkurn hátt rekstri sóknarinnar eða annarri starfsemi hennar.

Þeir fjármunir sem fólk leggur inn á reikning sjóðsins renna allir til samfélagsmála í sókninni. Stefna Líknar- og hjálparsjóðsins er að stuðla að aukinni velferð barna með því að styrkja fjölskyldur í samfélaginu sem eiga í erfiðleikum með því að greiða fyrir m.a. skólamáltíðir barna og frístundastarf þeirra. Ósk um þær greiðslur koma frá viðkomandi yfirvöldum og fara í öllum tilvikum í gegnum félagsþjónustu bæjarins. Um öll samskipti mín og þeirra er leita til sjóðsins ríkir trúnaður. Sóknarnefndir munu óska eftir fundi með kvenfélaginu til að fara yfir þessi mál.

Með kærri kveðju og einlægri ósk um að með þessu bréfi hafi tekist varpa ljósi á umfjöllun undanfarna daga.

Baldur Rafn Sigurðsson,

sóknarprestur í Njarðvíkurprestakalli.

Public deli
Public deli