Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Opið bréf til Sandgerðinga
Fimmtudagur 18. mars 2004 kl. 15:06

Opið bréf til Sandgerðinga

Ég hef ákveðið að segja upp starfi mínu sem íþrótta- og tómstundafulltrúi hjá Sandgerðisbæ.  Þessa ákvörðun tek ég að vel athuguðu máli og í samráði við mína nánustu.  Ástæða fyrir henni er bókun sem Óskar Gunnarsson, Reynir Sveinsson, Sigurbjörg Eiríksdóttir og Ingþór Karlsson gerðu á 208. fundi bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar 10. mars s.l.  Í bókun þeirra segir m.a.:

Afstaða Ólafs Þórs Ólafssonar vekur furðu þar sem hann er starfsmaður bæjarfélagsins og ætti að leggjast á sveif með núverandi meirihluta við uppbyggingu íþróttamannvirkja í bænum.
Hægt er að draga þá ályktun að afstað hans sé einnig í mótsögn við afgreiðslu tveggja fagráða er málið varðar þar sem hann er starfsmaður þeirra.

Í ljósi þessarar bókunar þeirra fjögurra einstaklinga sem fara með meirihlutavald í bæjarstjórn er ljóst að mér er ekki lengur vært í starfi íþrótta- og tómstundafulltrúa hjá Sandgerðisbæ.  Þau gera ekki greinarmun á milli starfsmanns bæjarfélags annars vegar og pólitísks fulltrúa hins vegar, skilja ekki að ég sit í bæjarstjórn sem fulltrúi nær fimmtungs kjósenda í Sandgerði en ekki sem starfsmaður þeirra.  Hitt þykir mér þó verra að ég er vændur um að sinna ekki störfum mínum fyrir íþróttaráð og tómstundaráð af heilindum.  Þetta sárnar mér, sérstaklega þar sem ég tel mig hafa sinnt starfi íþrótta- og tómstundafulltrúa af fagmennsku og trúnaði. 

Það er umhugsunarefni þegar meirihluti bæjarstjórnar notar pólitískt vald sitt á þann hátt sem hér hefur verið gert.  Ég er ekki reiðubúinn til að starfa við slík skilyrði og hef því tekið þá erfiðu ákvörðun að segja upp starfi mínu.

Í apríl 2004 verða átta ár frá því að ég hóf störf sem íþrótta- og tómstundafulltrúi.  Á þessum tíma hef ég fengið tækifæri til kynnast og starfa með mörgum frábærum einstaklingum og lært mikið.  Ég er þakklátur fyrir það.

Ólafur Þór Ólafsson
bæjarfulltrúi í Sandgerði

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024