Opið bréf til Guðjóns Hjörleifssonar, alþingismanns Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi
Heill og sæll kollegi
Ég sit hér með auglýsingu fyrir framan mig. Hún virðist komin frá Sjálfstæðisflokknum, og er frá kosningabaráttunni vorið 2003. Því er ekki að neita að ég er hugsi yfir henni. Á þessari auglýsingu er stór ljósmynd af þér brosandi til væntanlegra kjósenda, og henni virðist beint til fólks í Suðurkjördæmi. Textinn er skýr og skorinortur loforðaflaumur, og hljóðar orðrétt svo:
KOMUM ALVÖRU EYJAMANNI Á ÞING
- Við viljum meðal annars:
· Afnám kvóta á keilu, löngu og skötuseli.
· Þurrkví til Eyja.
· Fjármagn til rannsókna á jarðgöngum.
· Ferðajöfnunarsjóð íþróttafélaga.
· Lægri flugfargjöld.
· Afnám kvóta á kolmunna.
· Jarðgöng til Eyja.
· Og þannig mætti lengi telja.
Það sem gerir mig hugsi er að ég fæ ekki séð að þú hafir gert nokkurn skapaðan hlut í störfum þínum hér á Alþingi á liðnum vetri, til að reyna að efna neitt af þessum loforðum. Nema með einni undantekningu. Þú varst flutningsmaður þingsályktunartillögu, ásamt þingmönnum Framsóknar, Frjálslynda flokksins og Samfylkingar, um ferðasjóð íþróttafélaga. Sú fyrsta af 20 þingræðum sem þú fluttir á liðnum vetri fjallaði um þetta mál.
Samgöngu- og iðnaðarmál
Hvað varðar samgöngu- og iðnaðarmál í Vestmannaeyjum á ofangreindum loforðalista þínum, þá finn ég ekkert um þá málaflokka í störfum þínum sem alþingismaður. Ekkert um jarðgöng, rannsóknir á þeim eða þurrkví. Ekki heldur neitt um flugfargjöld til og frá Eyjum.
Þér hefði þó átt að vera í lófa lagið að beita áhrifum þínum í þessum málum. Þú ert jú þingmaður í flokki sem aðeins fékk atkvæði 29,2 prósenta kjósenda í landinu við síðustu alþingiskosningar, en kúgar nú þjóðina og ræður lögum og lofum á Alþingi og í ríkisstjórn eins og við sjáum glöggt þessa dagana.
En hér hefur æpandi þögnin ráðið ríkjum, nema þegar rætt er um jarðgöng. Þar hefur þú reyndar sagt fátt, en auknar rannsóknir á þeim kosti voru slegnar út af borðinu nú í vor eins og við munum glöggt. Vafalítið fyrir tilstilli Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra, flokksbróður þíns. Ekki alveg í takt við loforðin þín, er það nokkuð?
Hvar eru kvótaefndirnar?
Svo eru það loforðin um sjávarútvegsmálin. Þar ert þú nú heldur betur á heimavelli og ættir að vera í valda- og áhrifastöðu sem formaður sjávarútvegsnefndar. En það virðist ekki einu sinni hafa dugað til. Ekkert bólar enn á því að þú hyggist beita þér fyrir því að afnema kvóta á kolmunna, keilu, löngu og skötusel.
Hvað veldur? Þetta ætti nú heldur betur að vera einfalt. Það þarf bara að breyta nokkrum reglugerðum. Þú veist það jafn vel og ég að þetta yrði lyftistöng fyrir atvinnulíf í Vestmannaeyjum, og reyndar víðar í Suðurkjördæmi svo sem á Hornafirði og á Suðurnesjum. Eða er það ekki?
Þú ljáðir aldrei máls á þessu á Alþingi í vetur. Minntist ekki á þetta og tókst aldrei undir með mér og öðrum þegar við minntumst á þessa hluti í ræðustól Alþingis.
Eini gjörningurinn
Á síðustu dögum vetrarþings nú í lok maí sl., varst það þú sem formaður sjávarútvegsnefndar sem fórst fyrir þeirri aðför að hagsmunum sjávarbyggða Íslands í vor, að setja síðustu trillurnar í kvótakerfi. Af einhverjum ástæðum minntist þú ekki á þessa fyrirætlun í kosningabaráttunni fyrir rúmu ári síðan. Sá eini af þingmannaefnum stjórnarflokkanna í kjördæminu sem talaði um dagatrillurnar, var vinur þinn Hjálmar Árnason í Framsóknarflokki. Hann lofaði fólkinu í kjördæminu að berjast fyrir því að halda trillunum í dagakerfi en sveik það með eftirminnilegum hætti nú í vor.
En það að setja trillur í kvótakerfi var illur gjörningur, meira að segja fyrir Suðurkjördæmi, og þú beittir þar vafasömum og lúalegum vinnubrögðum sem formaður sjávarútvegsnefndar. Í kjördæminu þar sem fólkið býr sem kaus okkur báða til að gæta hagsmuna þeirra sem fulltrúar þeirra á Alþingi, lönduðu handfæratrillur í sóknardagakerfi alls um 3.000 tonnum af þorski á kvótaárunum 1998/99 – 2002/03. Það munar um minna. Þetta er til að mynda um 65 prósent af heildar þorskkvóta Vinnslustöðvarinnar á síðasta kvótaári. Fjöldi handfæratrilla á sóknarmarki í vor í Suðurkjördæmi var 34. Einsýnt er að þeim mun fækka eftir kvótasetninguna. Afli frá þeim verður minni og þetta á eftir að hafa neikvæð áhrif á atvinnustigið í kjördæminu.
Lýst eftir svörum
Í viðtali við Fréttir þann 3. júní síðastliðinn segir þú meðal annars að kvótasetning á alla smábáta eigi eftir að koma allri útgerð til góða og skapa sátt um kvótakerfið. Einnig að með þessu "geti trillukarlar hámarkað arðsemina sem sé ein styrkasta stoð kvótakerfisins".
Guðjón Hjörleifsson. Mig langar því til að spyrja þig einnar spurningar að lokum. Hvernig ætlar þú að rökstyðja hvers vegna eigi að afnema kvóta á kolmunna, keilu, löngu og skötusel, ef þú ert viss um að kvótakerfi hámarki arðsemi í fiskveiðum?
Þessari spurningu þarft þú að svara. Að öðru leyti læt ég kjósendur um að dæma þig, og láta þig standa reikningsskil gerða þinna sem alþingismaður og formaður sjávarútvegsnefndar.
Eigðu áfram gott sumar,
Ritað á Alþingi, 12. júlí 2004,
Magnús Þór Hafsteinsson,
9. þingmaður Suðurkjördæmis, þingflokksformaður og varaformaður Frjálslynda flokksins.
Ég sit hér með auglýsingu fyrir framan mig. Hún virðist komin frá Sjálfstæðisflokknum, og er frá kosningabaráttunni vorið 2003. Því er ekki að neita að ég er hugsi yfir henni. Á þessari auglýsingu er stór ljósmynd af þér brosandi til væntanlegra kjósenda, og henni virðist beint til fólks í Suðurkjördæmi. Textinn er skýr og skorinortur loforðaflaumur, og hljóðar orðrétt svo:
KOMUM ALVÖRU EYJAMANNI Á ÞING
- Við viljum meðal annars:
· Afnám kvóta á keilu, löngu og skötuseli.
· Þurrkví til Eyja.
· Fjármagn til rannsókna á jarðgöngum.
· Ferðajöfnunarsjóð íþróttafélaga.
· Lægri flugfargjöld.
· Afnám kvóta á kolmunna.
· Jarðgöng til Eyja.
· Og þannig mætti lengi telja.
Það sem gerir mig hugsi er að ég fæ ekki séð að þú hafir gert nokkurn skapaðan hlut í störfum þínum hér á Alþingi á liðnum vetri, til að reyna að efna neitt af þessum loforðum. Nema með einni undantekningu. Þú varst flutningsmaður þingsályktunartillögu, ásamt þingmönnum Framsóknar, Frjálslynda flokksins og Samfylkingar, um ferðasjóð íþróttafélaga. Sú fyrsta af 20 þingræðum sem þú fluttir á liðnum vetri fjallaði um þetta mál.
Samgöngu- og iðnaðarmál
Hvað varðar samgöngu- og iðnaðarmál í Vestmannaeyjum á ofangreindum loforðalista þínum, þá finn ég ekkert um þá málaflokka í störfum þínum sem alþingismaður. Ekkert um jarðgöng, rannsóknir á þeim eða þurrkví. Ekki heldur neitt um flugfargjöld til og frá Eyjum.
Þér hefði þó átt að vera í lófa lagið að beita áhrifum þínum í þessum málum. Þú ert jú þingmaður í flokki sem aðeins fékk atkvæði 29,2 prósenta kjósenda í landinu við síðustu alþingiskosningar, en kúgar nú þjóðina og ræður lögum og lofum á Alþingi og í ríkisstjórn eins og við sjáum glöggt þessa dagana.
En hér hefur æpandi þögnin ráðið ríkjum, nema þegar rætt er um jarðgöng. Þar hefur þú reyndar sagt fátt, en auknar rannsóknir á þeim kosti voru slegnar út af borðinu nú í vor eins og við munum glöggt. Vafalítið fyrir tilstilli Sturlu Böðvarssonar samgönguráðherra, flokksbróður þíns. Ekki alveg í takt við loforðin þín, er það nokkuð?
Hvar eru kvótaefndirnar?
Svo eru það loforðin um sjávarútvegsmálin. Þar ert þú nú heldur betur á heimavelli og ættir að vera í valda- og áhrifastöðu sem formaður sjávarútvegsnefndar. En það virðist ekki einu sinni hafa dugað til. Ekkert bólar enn á því að þú hyggist beita þér fyrir því að afnema kvóta á kolmunna, keilu, löngu og skötusel.
Hvað veldur? Þetta ætti nú heldur betur að vera einfalt. Það þarf bara að breyta nokkrum reglugerðum. Þú veist það jafn vel og ég að þetta yrði lyftistöng fyrir atvinnulíf í Vestmannaeyjum, og reyndar víðar í Suðurkjördæmi svo sem á Hornafirði og á Suðurnesjum. Eða er það ekki?
Þú ljáðir aldrei máls á þessu á Alþingi í vetur. Minntist ekki á þetta og tókst aldrei undir með mér og öðrum þegar við minntumst á þessa hluti í ræðustól Alþingis.
Eini gjörningurinn
Á síðustu dögum vetrarþings nú í lok maí sl., varst það þú sem formaður sjávarútvegsnefndar sem fórst fyrir þeirri aðför að hagsmunum sjávarbyggða Íslands í vor, að setja síðustu trillurnar í kvótakerfi. Af einhverjum ástæðum minntist þú ekki á þessa fyrirætlun í kosningabaráttunni fyrir rúmu ári síðan. Sá eini af þingmannaefnum stjórnarflokkanna í kjördæminu sem talaði um dagatrillurnar, var vinur þinn Hjálmar Árnason í Framsóknarflokki. Hann lofaði fólkinu í kjördæminu að berjast fyrir því að halda trillunum í dagakerfi en sveik það með eftirminnilegum hætti nú í vor.
En það að setja trillur í kvótakerfi var illur gjörningur, meira að segja fyrir Suðurkjördæmi, og þú beittir þar vafasömum og lúalegum vinnubrögðum sem formaður sjávarútvegsnefndar. Í kjördæminu þar sem fólkið býr sem kaus okkur báða til að gæta hagsmuna þeirra sem fulltrúar þeirra á Alþingi, lönduðu handfæratrillur í sóknardagakerfi alls um 3.000 tonnum af þorski á kvótaárunum 1998/99 – 2002/03. Það munar um minna. Þetta er til að mynda um 65 prósent af heildar þorskkvóta Vinnslustöðvarinnar á síðasta kvótaári. Fjöldi handfæratrilla á sóknarmarki í vor í Suðurkjördæmi var 34. Einsýnt er að þeim mun fækka eftir kvótasetninguna. Afli frá þeim verður minni og þetta á eftir að hafa neikvæð áhrif á atvinnustigið í kjördæminu.
Lýst eftir svörum
Í viðtali við Fréttir þann 3. júní síðastliðinn segir þú meðal annars að kvótasetning á alla smábáta eigi eftir að koma allri útgerð til góða og skapa sátt um kvótakerfið. Einnig að með þessu "geti trillukarlar hámarkað arðsemina sem sé ein styrkasta stoð kvótakerfisins".
Guðjón Hjörleifsson. Mig langar því til að spyrja þig einnar spurningar að lokum. Hvernig ætlar þú að rökstyðja hvers vegna eigi að afnema kvóta á kolmunna, keilu, löngu og skötusel, ef þú ert viss um að kvótakerfi hámarki arðsemi í fiskveiðum?
Þessari spurningu þarft þú að svara. Að öðru leyti læt ég kjósendur um að dæma þig, og láta þig standa reikningsskil gerða þinna sem alþingismaður og formaður sjávarútvegsnefndar.
Eigðu áfram gott sumar,
Ritað á Alþingi, 12. júlí 2004,
Magnús Þór Hafsteinsson,
9. þingmaður Suðurkjördæmis, þingflokksformaður og varaformaður Frjálslynda flokksins.