Opið bréf til frambjóðenda í Reykjanesbæ vorið 2014
– Þóranna K. Jónsdóttir skrifar
Kæru frambjóðendur,
Mig langar að byrja á því að þakka ykkur fyrir að bjóða ykkur fram til að vinna fyrir bæjarfélagið okkar. Margir komu að máli við mig fyrir þessar kosningar varðandi framboð en ég vissi að ég gæti ekki gefið bæjarfélaginu nægilega mikið af kröftum mínum og afþakkaði því góð boð um samstarf og þakka það traust sem mér var sýnt. Ég er því afskaplega glöð að svo mikið af góðu fólki skuli bjóða sig fram og efast ekki um að við munum uppskera öflugan hóp í bæjarstjórn eftir kosningar.
Eitt af því sem hefur lengi brunnið á mér og mörgum fleirum sem hafa komið að máli við mig eru ímyndarmál bæjarins okkar. Við vitum hvaða frábæru hluti við eigum hérna í Reykjanesbæ, en það er því miður ekki svo að umheimurinn hafi jafn góða mynd af okkur. Í störfum mínum, sem fara mikið til fram utan bæjarfélagsins, finn ég töluvert fyrir því að ímynd okkar er ekki eins og best verður á kosið og finnst ég því miður oft þurfa að verja þá ákvörðun mína að vilja búa hérna suður með sjó.
Ég hef rætt þessi mál við fjölmarga. Margir sem ég tala við virðast halda að það sé nóg að taka til innandyra með því að bæta bæinn okkar og þá muni ímynd hans batna. Ég vildi að það væri svo, og að sjálfsögðu hvet ég okkur öll til að gera það. Staðreyndin er hinsvegar sú að ímynd bæjar, líkt og orðspor manneskju, byggist upp á löngum tíma og það er erfitt að breyta því nema farið sé meðvitað í markvissar aðgerðir til þess. Það sem fólk sér og skynjar er þeirra raunveruleiki, þó að raunveruleikinn sé svo allt annar en sú skynjun. Það er því ekki nóg að breyta raunveruleikanum, heldur verður að breyta upplifun fólks til að hún sé í samræmi við raunveruleikann.
Þetta er ekki gert með dýrum auglýsingaherferðum og látum. Þetta er gert með ákveðinni aðferðafræði. Vinnu sem tekur tíma og orku, en þarf ekki að kosta fjárútlát. Ég hef nefnt þetta oft, og vonast til þess að farið sé í þá vinnu að byggja upp ímynd bæjarins okkar á markvissan hátt. Þær umbætur sem gerðar hafa verið hjá okkur eru af hinu góða, en nú er kominn tími á að sýna umheiminum hver við erum og byggja upp ímynd okkar gagnvart honum svo þau megi sjá þann bæ sem við þekkjum og viljum búa í.
Því vil ég, kæru frambjóðendur, hér með, bjóða þeim sem ná kjöri í bæjarstjórn Reykjanesbæjar í komandi kosningum, og þeim sem að kynningarmálum bæjarfélagsins standa, að taka þátt í MáM Bootcampinu mínu í september næstkomandi. Þar er m.a. kennd aðferðafræði markaðsfræðanna sem lýtur að ímyndaruppbyggingu og nýst getur bæjarfélaginu okkar til að fá fólk til að upplifa Reykjanesbæ á þann jákvæða hátt sem hann á skilið. Þetta er mitt framlag til bæjarins míns og ég vona að þið þekkist boðið. Ég mun vera í sambandi þegar ný bæjarstjórn hefur tekið til starfa. Frekari upplýsingar um prógrammið má fá á www.mam.is/bootcamp.
Kær kveðja,
Þóranna K. Jónsdóttir
markaðsnörd hjá Markaðsmálum á mannamáli
Reykjanesbæ