Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Opið bréf til bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar
Miðvikudagur 15. mars 2006 kl. 11:31

Opið bréf til bæjarstjórnar Sandgerðisbæjar

Í bréfi frá Sandgerðisbæ, dagsett 15.03. ´05, undirritað af Sigurði V. Ásbjarnarsyni bæjarstjóra til undirritaðs, er mér tilkynnt að til að fá hluta af byggðakvóta Sandgerðisbæjar skuli ég leggja kr. 300.000 inn á bankareikning sem bæjarstjórinn tiltók.

Tvö árin þar á undan hafði ég fengið svipuð boð um að leggja fé inn á einkareikning bæjarstjórans, nótulaust, en ég hafði ekki sinnt því þar sem ég taldi slíkt ekki eðlilegt. Þar sem úthlutunarreglur Sandgerðisbæjar höfðu aldrei verið auglýstar, sem þó bar að gera samkvæmt lögum, snéri ég mér til sjávarútvegsráðuneytisins og bað það um túlkun á bréfi bæjarstjórans. Í bréfi sjávarútvegsráðuneytisins dagsett 18.03.´05 til undirritaðs segir um greiðslukröfur Sandgerðisbæjar fyrir byggðakvótann:
„Þær greiðslur eru endurgreiddar viðkomandi aðila með vöxtum, takist ekki að afla þeim frekari aflaheimilda með kaupum á almennum markaði. Ráðuneytið telur þetta í raun jafnast á við það þegar sveitastjórnir setja það að skilyrði, að aðilar leggi fram eigin veiðiheimildir á móti þeim heimildum sem þeir fá af byggðakvóta sveitarfélagsins.“ Tilvitnun lýkur.

Undirritaður greiddi þann 26.04.´05 inn á tiltekinn bankareikning en fékk aðeins kvittun fyrir bankafærslu, þótt beðið væri um bókhaldsnótu. Enginn keyptur kvóti var færður á bátinn á næstu vikum, og í lok fiskveiðiársins, þótt það væri orðið allt of seint, óskaði undirritaður munnlega eftir endurgreiðslu. Engin endurgreiðsla hefur borist. Undirritaður sótti síðan um byggðakvóta fyrir árið 2005 – 2006. Bréf barst síðan til undirritaðs þann 08.03.´06 dagsett þann 06.03.´06, undirritað af Sigurði Val Ásbjarnarsyni, fyrir hönd stjórnar. Ekki veit undirritaður fyrir hönd hvaða stjórnar. Og nú bregður svo við að eyðublaðið er ekki merkt Sandgerðisbæ, eins og fyrri bréf, og hann kallar sig ekki lengur bæjarstjóra, og ekki er heldur stimpill Sandgerðisbæjar notaður, eins og á fyrri bréfum. En farið er fram á það að undirritaður staðfesti, fyrir 11.03.´06 að hann muni greiða til samstarfsins, sem hann kallar svo, ekki er nú lengur talað um J.V.A., kr. 1.350.000, fyrir 17.03.´06 , en þó þurfi upphæðin hugsanlega að vera hærri.

Þar sem Sandgerðisbær hefur engan kvóta keypt þau þrjú ár sem byggðakvóta hefur verið úthlutað til bæjarins þótt útgerðaraðilar hafi verið látnir borga, þá óskar undirritaður eftir skýrum svörum frá bæjarstjórn Sandgerðisbæjar hvort Sandgerðisbær beri ábyrgð á fjárkröfum bæjarstjórans og óskað er eftir úrskurði lögmanns hvað það snertir.

F.h. Hvítingur ehf
Sigurgeir Jónsson 
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024