Opið bréf til bæjarstjórnar Reykjanesbæjar: Leikvellir – fyrir hverja?
Ég er nýflutt í bæinn aftur eftir tveggja ára fjarveru og finnst frábært að vera kominn aftur. Ég skynja hér mikinn kraft. Fólk er almennt bjartsýnt og áhugasamt um framtíð bæjarins. Það endurspeglar m.a. mikil uppbygging nýrra íbúðahverfa og fjöldi nýrra fyrirtækja. Herinn er farinn og mörg spennandi tækifæri hafa skapast í tengslum við varnarliðssvæðið.
Bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur að mínu mati haldið vel á spöðunum sl. ár. Bærinn hefur markaðssett sig með góðum árangri og rauði þráðurinn er fjölskylduvænn bær. Skólarnir hér eru svo sannarlega góðir og tiltölulega vel búið að börnum og fjölskyldum þeirra. En alltaf má gera betur.
Ég á eins árs gamla dóttur og hef verið heimavinnandi sl. mánuði. Við mæðgur höfum gaman af að fara út og skoða okkur um. Til að byrja með lagði ég leið mína á rólóvelli bæjarins í þessum gönguferðum. Ég þurfti ekki að fara oft til að sjá að þangað hefðum við mæðgur ekkert að gera. Ég hef ekki komið á rólóvellina síðan ég var krakki og ég var hissa á að sjá að mér sýndust sömu tækin vera á sama stað og lóðirnar verulega illa hirtar.
Tilgangurinn með heimsóknunum var að leyfa dóttur minni að leika sér, t.d. róla og hitta önnur börn og mig langaði til að hitta aðrar mömmur. En þarna var enginn á ferli enda fleiri í mínum sporum eflaust búnir að komast að sömu niðurstöðu, rólóvellirnir eru ekki barnvænir og ekki foreldrarvænir. Ástæðurnar að mínu mati eru m.a. þessar:
1. Tækin eru óspennandi og illa hirt.
2. Engar lokaðar rólur fyrir lítil börn sem hægt er að festa þau í.
3. Vantar litlar rennibrautir sem hægt er að leyfa minnstu krílunum að fara í.
4. Allt of mikið af hættulegu smádrasli á lóðunum sem börn geta meitt sig á. (Umsjónarmaður sem færi daglega um alla rólóvellina og hirti þá væri skref í rétta átt).
5. Vantar rusladalla til að henda umbúðum af nesti og öðru til að halda lóðunum snyrtilegum.
6. Möl er ekki hentug á rólóvöllum (Minnstu börnin eiga erfitt með að fóta sig og meiða sig auðveldlega þegar þau detta. Mjög erfitt að keyra kerrur á mölinni). Best væri að hafa gúmmíhellur undir tækjunum og gras allt í kring.
7. Væri huggulegt að hafa bekki fyrir fullorðna fólkið til að tylla sér á.
8. Sóðalegir sandkassar. Mætti útbúa þá þannig að þeim væri lokað á kvöldin, með loki eða segldúk þannig að dýr gætu ekki gert þarfir sínar í þá.
Ég lagði leið mína upp á Keflavíkurflugvöll í sumar og skoðaði nýja háskólasvæðið. Þar eru t.d. frábærir rólóvellir á víð og dreif. Þeir eru allir lagðir með gúmmíhellum, tækin eru skemmtileg og einnig er gert ráð fyrir að börn undir tveggja ára geti notað einhver tæki. Það væri frábært ef bæjarstjórn Reykjanesbæjar sýndi leikvöllunum hérna niðurfrá áhuga og gerði endurbætur á þeim. Stjórnin gæti tekið rólóvellina á Vellinum sér til fyrirmyndar.
Leikvellir hafa samfélagslegt gildi. Það ætti að vera einn góður rólóvöllur í hverju hverfi þar sem foreldrar geta hist með börn sín og átt góðar stundir.
Silja Dögg Gunnarsdóttir
Mynd: Frá leikvelli á Keflavíkurflugvelli, sem eru í mun betra ástandi en leikvellirnir utan girðingar.