Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Föstudagur 13. ágúst 1999 kl. 12:01

OPIÐ BRÉF TIL BÆJARSTJÓRNAR REYKJANESBÆJAR

Þar sem heyrst hefur að til standi að opna klámbúllu í Grófinni þá vilja undirritaðir skora á bæjarstjórn Reykjanesbæjar að gera það sem í hennar valdi er, lögum samkvæmt, til að hindra að þessi staður eða aðrir sambærilegir fái að opna hér í Reykjanesbæ. T.d. með synjun vínveitingaleyfis. Ástæðan fyrir ósk okkar er sú, að alls staðar í heiminum fylgir þessum stöðum sá andi sem virðist rífa niður mannlegt samfélag og heilbrigt líferni. Nægir þar að minna á eiturlyfjasölu, vændi, óþrifnað hvers konar, glæpi s.s. ofbeldi og jafnvel morð. Má þar benda á blóðuga slóð skemmtistaðarins Vegas, eiturlyfjasölu í Þórskaffi, og nafnið "club Clinton" er talandi dæmi um karakter eða karakterleysi þessara manna. Við viljum minna á að við erum að halda upp á 1000 ára Kristni á Íslandi og fátt stríðir meira gegn kristinni kenningu en það, að siðmenntað samfélag líði illa innrættum mönnum að fremja siðleysi af græðgi. Það er okkar álit, að láti bæjaryfirvöld þennan ósóma afskiptalausan, þá mun það kalla hvers kyns böl yfir bæjarfélag okkar og ekki síst æskuna. Það væri þá hræsni að halda áfram að hafa kjörorðin : " Reykjanesbær á réttu róli " við framdyr bæjarins og bjóða síðan saurlífssölumennina og dópsalana velkomna bakdyramegin. Við biðjum ykkur síðan og öllum sem þetta mál er viðkomandi Guðs blessunar. F.h. Hvítasunnukirkjunnar í Keflavík. Kristinn Ásgrímsson Tómas Ibsen.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024