Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

  • Ónýtur leigumarkaður
  • Ónýtur leigumarkaður
Laugardagur 3. maí 2014 kl. 07:07

Ónýtur leigumarkaður

– Halldóra Hreinsdóttir og Halldór Ármannsson skrifa

Það eru sjálfsögðu mannréttindi að fólk hafi þak yfir höfuðið og búi við öryggi, þó svo að fólk kjósi eða þurfi að vera á leigumarkaði. Raunin er hins vegar sú að leigumarkaðurinn hér á landi er mjög vanþróaður. Leiguhúsnæði er oft á tíðum í iðnaðarhúsnæði eða íbúðir sem eru þegar komnar á sölu. Leigjendur búa því við mikið óöryggi, neyðast jafnvel til að leigja í heilsuspillandi húsnæði og leiguverð getur verið mjög hátt. Félagslegt húsnæði er erfitt að fá. Staða fólks á leigumarkaði er því oft á tíðum mjög erfið. Þessi veruleiki á einnig við hér á Suðurnesjum og því þurfum við að breyta.

Nýtt húsnæðiskerfi í bígerð
Eygló Harðardóttir, Félags-og húsnæðismálaráðherra, skipaði vinnuhóp sl. haust sem fékk það verkefni að skila hugmyndum að framtíðarskipan nýs húsnæðiskerfis. Hópurinn mun skila af sér í lok apríl og það verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr þeirri miklu vinnu. Verkefnið var ekki einungis að finna leiðir að nýju húsnæðiskerfi en lyklalögin og afnám verðtryggingar fylgja líka með í pakkanum.

Tómar eignir í eigu ÍLS
Íbúðalánasjóður (ÍLS) á hlutfallslega flestar eignir á Suðurnesjum en hér er einnig skortur á leiguhúsnæði, bæði á almennum markaði og í félagslega kerfinu. Margar húseignir í eigu ÍLS hafa staðið auðar mánuðum og jafnvel árum saman. Þær grotna niður og eru nágrönnum til ama.  Það hlýtur að vera hægt að finna lausn á þessum vanda, þ.e. koma ónotuðu húsnæði í eigu ÍLS í leigu.

Tillögur til úrbóta
Kristinn Þór Jakobsson, bæjarfulltrúi Framsóknar, hyggst leggja fram tillögu í tveimur liðum fyrir bæjarráð Reykjanesbæjar. Í a) lið leggur Kristinn til að bæjarstjóri hefji viðræður við Félags- og húsnæðismálaráðherra og Íbúðalánasjóð með það að markmiði að koma íbúðum í eigu ÍLS í leigu. Í síðari lið tillögunnar leggur Kristinn til að skipaður verði starfshópur Reykjanesbæjar til viðræðna við ÍLS,  Félagsmálaráðherra og Fjármálaráðherra, verkalýðsfélög og lífeyrissjóði með það að markmiði að stofna samvinnufélag um húsnæðissamvinnufélag. Tilgangur slíks félags yrði að tryggja fjölskyldum og einstaklingum trygga langtímaleigu á íbúðarhúsnæði.
 
Halldóra Hreinsdóttir,
viðskiptafræðingur, skipar 2. sæti Framsóknar

Halldór Ármannsson,
útgerðarmaður og skipar 3. sæti Framsóknar.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024