Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Olíufélagið ESSO mismunar viðskiptavinum
Mánudagur 25. júlí 2005 kl. 15:20

Olíufélagið ESSO mismunar viðskiptavinum

Einn laugardagsmorgun í júní sl. Fórum við hjónin austur í  Hraunborgir, til að hitta þar vinafólk. Og eins og venjulega fórum við  fyrst á ESSO bensínstöðina hér í bæ, til að láta fylla bílinn af  bensíni og báðum um að láta setja rúðuvökva á í leiðinni.

Bensínið fengum við strax, en ekki kom rúðuvökvinn. Þá sá ég að  afgreiðslumaðurinn sem hafði sett á bensínið var farinn að setja bensín  á annan bíl. En þennan morgun streymdu bílarnir að. Ég hélt því að  annar afgreiðslumaður væri að sækja vökvann og beið því. En þá kom  afgreiðslumaðurinn sem hafði sett bensínið á og sagði mér; að ég þyrfti  að bíða eftir rúðuvökvanum, því honum bæri að láta það ganga fyrir, að  setja bensín á bílana. Þurftum við því að bíða þó nokkra stund þangað til að við vorum afgreidd með vökvann.

Þetta fannst okkur alveg furðulegt, að viðskiptavinum væri mismunað svona um þjónustu. Fyrst hún er á annað borð veitt. Hvert eru ráðamenn ESSO að fara? Er þetta  kannski afleiðing á bensínstríðinu sem nú stendur sem hæst, að þeir  þora ekki annað en að afgreiða í hasti bensínið, svo kúnninn keyri ekki í burtu. Einn afgreiðslumaðurinn sagði okkur að ef þeir hlýddu ekki  þessari reglu, þá yrðu þeir reknir. Þannig að sjáanlega er mikið í húfi  hjá Olíufélaginu. Þeir græða náttúrulega mest á bensíninu. En rúðuvökvinn skilar þeim litlu.

Eftir þessi viðskipti ákváðum við að hætta að versla við ESSO bensínstöðvar, sem við höfum gert í mörg ár. Við gerum það á þeirri forsendu, að það eigi ekki að mismuna  viðskiptavinum. Hvort þeir eru að kaupa bensín, rúðuvökva, smurolíu eða eitthvað annað. Það á að vera regla sem allir geta verið sáttir við, að vera afgreiddir eftir röð. Þegar við vorum að ræða þetta inni á afgreiðslunni. Þá kom konan með góða samlíkingu; að ef þú færir inn á matsölustað pantaðir mat og kók með matnum. Þá myndi gengilbeinan segja: "Ég kem með matinn brátt, en með kókið get ég ekki komið fyrr en ég er búin að afgreiða alla sem bíða eftir því að fá mat." Ég er hræddur um að sá veitingastaður yrði allavega ekki vinsæll. Ég vil að lokum beina orðum mínum til ráðamanna ESSO. Að endurskoða þessa ákvörðun sína, að mismuna viðskiptavinum. Ef þeir gera það, skal ég verða fyrstur til að kaupa hjá þeim að nýju, bensín, rúðuvökva og sitthvað fleira.
Virðingarfyllst,
Hafsteinn Engilbertsson
Heiðarhvammi 5
230 Keflavík
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024