Olíubílar keyra á við 250.000 fólksbíla
Reykjanesbrautin er orðin alræmd vegna tíðra og alvarlegra slysa á henni. Umferð um hana fer vaxandi, m.a. vegna aukningar í ferðaþjónustu. Brýnt úrlausnarefni er að tvöfalda brautina enda er unnið að undirbúningi þess máls. Hins vegar má strax grípa til annarra aðgerða. Alkunna er að allt eldsneyti vegna flugumferðar kemur með bílum úr Reykjavík. Og það er ekkert smáræði. Í svari við fyrirspurn minni um þetta mál á þinginu kemur m.a. fram að 1998 fóru olíubílar 3.359 ferðir á brautinni með olíur hingað suður. Magnið er hvorki meira né minna en 136.778.586 lítrar! Hér þarf margt að skoða.Fróðir menn segja mér að hver fullhlaðinn olíubíll með tanki slíti brautina á við 80-90 fólksbíla. Þetta þýðir að olíuflutningarnir samsvari umferð meira en 250.000 fólksbíla á brautinni árlega. Skyldi þarna vera komin meginskýringin á hinum ljótu og hættulegu rásum sem ávallt myndast á Reykanesbraut vegna mikils álags? Ekki þarf flókna útreikninga til að sjá hversu mikill kostnaður samfélagsins er af þessu. Eða slysahættan af vatni eða snjó í rásunum.Enn alvarlegri er líklega mengunarhættan. Verði slys með þeim afleiðingum að olía lekur úr tönkum bílanna eru vatnsból í stórhættu. Hvernig halda menn að ástandið yrði hér ef vatnsbólum okkar yrði lokað. Mest er hættan gagnvart bólum Vogamanna en flutningar með svartolíu til Grindavíkur ógna hinum nýju vatnsbólum annarra Suðurnesjamanna. Slys á þeirri leið gæti eyðilagt vatnsbólin til lengri tíma.Helguvík og Grindavík.Höfnin í Helguvík er byggð sem olíuhöfn. Miklar bætur hafa verið unnar á höfn Grindvíkinga. Þess vegna er eðlilegt í alla staði að banna olíuflutninga um Reykjanesbraut og skylda olíufélögin til að nota sjóleiðina og landa olíunni í Helguvík og Grindavík. Í því felst mikil skynsemi. Öryggi vatnsbóla er stórlega bætt, slysahætta minnkar til muna og slit á Reykjanesbrautinni verður verulega minna. Í raun fæ ég ekki komið auga á nein rök sem mæla með því óheppilega fyrirkomulagi sem verið hefur í áratugi. Tímabært er að breyting verði á.Hjálmar Árnason,alþingismaður.