Ólíkar leiðir til að leysa vanda
Ég er einn þeirra varkáru í fjármálum sem lifði frekar spart og greiddi niður skuldir heimilisins á árunum fyrir hrun – og skulda því ekkert. Framsóknarsjálfstæðismenn ætla okkur að greiða niður skuldir hinna. Einkum skuldir þeirra ríku sem tóku stærstu lánin.
Indriði H. Þorláksson rýndi um daginn í gylliboð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks
Niðurstaða Indriða var þessi: “Eru þá tillögur Framsóknar og Sjálfstæðis að frátalinni ábyrgð eða ábyrgðarleysi hinar sömu? Nei, munur er á þeim að tvennu leyti. Annar er sá að tillögur Framsóknar þýða að 240 milljarðar verða sóttir í vasa allra skattborgara og greiddir þeim sem skulda. Samkvæmt tillögum Sjálfstæðisflokks munu milljarðarnir bara sóttir í vasa þeirra skattborgara sem ekki skulda eða fóru varlegar í fjárfestingar og greiddir hinum sem skulda. Hinn munurinn er sá að Framsókn ætlar að láta alla fá 20% niðurfellingu. Hjá Sjálfstæðisflokknum fá þeir sem eru undir skattleysismörkum enga niðurfellingu, aðrir tekjulágir fá litla niðurfellingu á löngum tíma en tekjuháir fá niðurfellinguna fljótt og vel. Þetta lækkar líka kostnaðinn lítið eitt. Það er því ekki sama hvaða kanína er dregin úr töfrahattinum. Önnur er græn og hin er blá.”
Skuldir íslenskra heimila náðu hámarki 2008 og höfðu þá þrefaldast á fimmtán árum. Með leiðréttingu lána, dómum um gengistryggð lán og viðbrögðum stjórnvalda hafa skuldir heimilanna lækkað og eru nú á svipuðu róli og 2006.
Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur markað ábyrga stefnu um hvernig taka megi á skuldavanda heimila. Leiðarljósið er jöfnuður og réttlæti. Vinstri græn munu beita skattkerfinu til þess að afla tekna og auka jöfnuð – til að létta byrðar almennings og fyrirtækja vegna hrunsins, og ráðstafa til þeirra sem á þeim þurfa að halda og eiga í mestum erfiðleikum. Ein leið dugar ekki öllum.
Síðasti landsfundur VG lagði til að fjármálakerfið á Íslandi verði endurskoðað með réttlæti og almannahagsmuni að leiðarljósi og horft verði sérstaklega á þá ójöfnu stöðu sem lántakendur hafa gagnvart lánveitendum í krafti verðtryggingar. Áfram verði unnið á þeim bráða vanda sem hrunið orsakaði. Nú þegar svigrúm hefur skapast munu Vinstri græn beita sér enn frekar fyrir að taka á vanda þess hóps sem tók húsnæðislán á árunum 2005 til 2008 og markaðir verða sérstakir tekjustofnar t.d. kolefnisgjald á iðnað, til að mæta þessum hópi. Ekki verða dregnar neinar kanínur upp úr hatti! Aðeins raunhæfar lausnir.
Til framtíðar litið þarf að stokka upp allt húsnæðiskerfið svo ungt fólkið sem nú er að vaxa upp eigi kost á góðu húsnæði á viðráðanlegum kjörum, líka þeir sem ekki hafa mikið á milli handanna. Kynnið ykkur sjálfbæra húsnæðisstefnu Vinstri grænna: http://www.vg.is/stefnan/sjalfbaer-husnaedisstefna/
Þorvaldur Örn Árnason,
íbúi í Vogum