Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Aðsent

  • Öldungaráð Suðurnesja stofnað
  • Öldungaráð Suðurnesja stofnað
    Eyjólfur Eysteinsson.
Föstudagur 21. nóvember 2014 kl. 11:34

Öldungaráð Suðurnesja stofnað

Sveitarfélögin og Félag eldri borgara á Suðurnesjum hafa tekið höndum saman og munu standa saman að stofnun Öldungaráðs Suðurnesja þann 29. nóvember á Nesvöllum. Miklar væntingar og vonir eru til þess að samvinna þeirra sem njóta þjónustunnar og þeirra sem veita hana verði til þess að bæta þjónustu við eldri borgara á Suðurnesjum.

Sveitarfélögin á Suðurnesjum og Félag eldri borgara á Suðurnesjum hafa gert með sér samkomulag um stofnun öldungaráðs sem gæta eigi hagsmuna eldri borgara og vera bæjarstjórnum til ráðgjafar. Ráðið skal vera ráðgefandi um framtíðarskipulag öldrunarþjónustu, uppbyggingu hjúkrunarheimila, þjónustu- og öryggisíbúða á Suðurnesjum. Öldungaráðið skal einnig vinna að samþættingu þjónustu og vinna að því að efla andlega og líkamlega líðan eldri borgara m.a. með skilvirkri læknisþjónustu, heimahjúkrun, félagslegri heimaþjónustu, dagvistun, iðju og sjúkraþjálfun sem hvetur til líkamsræktar og lífsleikni. Ráðið skal einng hafa sem víðtækast samráð við samtök aldraðra á Suðurnesjum og aðra þá sem láta málefni þeirra til sín taka.

Í dag er staðan þannig að það bíða tuttugu og níu sjúkir aldraðir eftir hjúkrunarrýmum á Suðurnesjum og það stefnir í óefni ef ekkert verður aðgert nú þegar. Efla þarf enn heimahjúkrun og heimilishjálp en meira þarf til þess að mæta þörfinni þar sem ljóst er að eldri borgurum mun fjölga mjög á næstu árum.
Bráðnauðsynlegt er að sveitarfélögin í Heilbrigðisumdæmi Suðurnesja marki saman stefnu sem first um framtíðarskipan þjónustu við eldri borgara um fjölgun hjúkrunarrýma og víðtæka þjónustu við þá, öllum til góða í framtíðinni. Stofnun Öldungaráðs Suðurnesja er mikilvægur áfangi í þeirri vinnu.
 
Eyjólfur Eysteinsson,
formaður Félags eldri borgara á Suðurnesjum.

 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024