Öldungar til áhrifa
– Kristinn Þór Jakobsson skrifar
Ein af þeim hugmyndum sem Framsókn í Reykjanesbæ er með á sinni stefnuskrá er Frístundakort fyrir aldraða. Frístundakortið væri á sama formi og sambærilegt kort fyrir börn og unglinga. Íbúar Reykjanesbæjar sem náð hafa 67 ára aldri gætu sótt um slíkt kort og notað það til niðurgreiðslu tómstundastarfs. Framsókn vill einnig að stofnað verði Öldungaráð, og form þess yrði það sama og Ungmennaráðs sem starfað hefur í 2 ár með góðum árangri.
Maður er manns gaman
Tómstundastarf fyrir eldri borgara er nokkuð blómlegt í Reykjanesbæ og eldri borgarar eru duglegir að nýta sér það sem í boði er. Maður er manns gaman og það eykur lífsgæði verulega að eiga líflegt félagslíf, hvort sem maður er ungur eða gamall. Frístundakortið myndi gilda fyrir allar tómstundir, hvort sem þær væru á vegum bæjarins eða ekki. Eina skilyrðið væri að viðkomandi tómstundafélag gerði samning við Reykjanesbæ um starf sitt í þágu eldri borgara.
Syngjum og syndum
Kortið myndi til dæmis nýtast á þá leið að „Jóna“ setti hluta af upphæð kortsins í að kaupa árskort í sund og síðan hluta í að greiða fyrir kórinn eða þann klúbb sem hún vill starfa í. Ef Jóna stundar ekki sund gæti hún notað allt kortið eða hluta þess í annað frístundastarf. Aðalatriðið er að allir sem náð hafa ellilífeyrisaldri gætu sótt um frístundakort og nýtt til að greiða fyrir þátttöku í félagsstarfi sem gert hefur tilhlýðandi samning við Reykjanesbæ.
Kostnaður bæjarsjóðs er áætlaður um 20 milljónir miðað við 1200 eldri borgara. Fjármögnun væri tryggð með því að hagræða í rekstri og forgangsraða á annan hátt en gert hefur verið sl. 12 ár. Það eru innviðirnir sem skipta máli, ekki yfirborðið.
Aldnir og vitrir
Framsókn í Reykjanesbæ mun styðja stofnun Öldungaráðs sem mun hafa það hlutverk að fjalla um og koma að stefnumótun í málefnum aldraðra. Eitt af þeim málefnum sem Framsókn átti frumkvæði að á liðnu kjörtímabili var stofnun Ungmennaráðs sem hefur komið með og mótað hugmyndir er varða starf og málefni ungmenna í Reykjanesbæ. Ráðið hefur starfað í um 2 ár og kom m.a. með hugmynd að stofnun ungmennagarðs við 88 húsið sem vakið hefur mikla lukku. Öldungaráð yrði vettvangur skoðana og stefnumótunar fyrir eldri borgara. Eldri borgara vilja nefnilega ekki bara fá þjónustu, þeir vilja líka hafa eitthvað um málin að segja og hafa áhrif í bæjarfélaginu. Framsókn ætlar að beita sér fyrir að svo verði.
Kristinn Þór Jakobsson,
oddviti Framsóknar í Reykjanesbæ