Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Fimmtudagur 5. júlí 2001 kl. 10:33

Ókleifir múrar Reykjavíkurborgar og dónalegir eldri borgarar

Fólk talar og talar og talar... en aðeins brot af ræðum almúgans rata inn á borð bæjarstjórna og alþingismanna. Í Svörtu og sykurlausu fjallar Silja Dögg Gunnarsdóttir um það sem gerist á bæjarstjórnarfundum en er ekki fært í fundargerðir, og það sem alþýðan talar um sín á milli á bakvið luktar dyr. Í þessari viku er umræðuefnið m.a. áttunda undur veraldar, þ.e. borgarmúrar Íslands, síamstvíburararnir á Suðurnesjum, sóðalegir nágrannar og dónaleg gamalmenni...


Vilja flugvöll á Lönguskerjum
Reykvíkingar ætla ekki að gefast upp í flugvallarmálinu. Óskar Bergsson, varaformaður skipulags- og byggingarnefndar Reykjavíkur, lét nýlega hafa það eftir sér að hin pólitíska lausn í flugvallarmálinu sé fólgin í því að gera nýjan völl á Lönguskerjum. Hann heldur því fram að þá geti allir verið sátti því þá losni allt land í Vatnsmýrinni og flugvöllurinn verður áfram innan borgarmarka Reykjavíkur.

Ókleifir borgarmúrar
Svo virðist sem borgarmúrarnir séu ókleifir Reykjavíkurmegin en utan frá séð, eru þeir ósýnilegir. Þetta er stórmerkilegt fyrirbæri og tilefni til að rannsaka það frekar. Gæti verið áttunda undur veraldar!

Hættir að leggja í einelti
Ólafur Thordersen gefur ekki áfram kost á sér sem formaður ÍRB. Hann þakkaði fulltrúum í TÍR og starfsmönnum íþrótta- og tómstundaskrifstofu gott samstarf og hrósaði þeim sérstaklega fyrir vel skipulagt vinabæjarmót. „Ég er alltaf að skamma þá og vil hrósa þeimi fyrir það sem vel er gert, til að þeir haldi ekki að ég sé að leggja þá í einelti“, sagði Óli á bæjarstjórnarfundinum sl. þriðjudag og átti þá sérstaklega við síamstvíburana Stefán Bjarkason og Ragnar Örn.

Síamstvíburarnir
Kristján Gunnarsson gat ekki orða bundist eftir þessi ummæli Óla og sagði að hann hefði nú ekki lagt þá í einelti, frekar hópelti. En það er aftur spurning hvort maður eigi að tala um tvíburana í eintölu eða fleirtölu?

Slæm umgengni
Tillitssemi kostar ekkert en svo virðist sem ákveðnir aðilar eigi erfitt með að tileinka sér hana. Í hverju einasta sveitarfélagi á Suðurnesjum fyrirfinnast sóðar sem sjá sóma sinn ekki í því að taka til í kringum sig, öðrum íbúum til mikillar mæðu. Svo ekki sé minnst á slysahættuna sem getur skapast fyrir börn á slíkum einkaruslahaugum og auknum ágangi nagdýra. Væri ekki mál að bretta upp ermarnar og gera fínt í kringum sig í tilefni sumarsins...

Áhugasamir púttarar
Púttið nýtur mikilla vinsælda á meðal ungra sem aldinna í Reykjanesbæ, sérstaklega á góðu veðri eins og verið hefur undanfarnar vikur. Púttvöllurinn við Mánagötu er yfirfullur af fólki flesta daga, sem er vopnað gljáfægðum púttkylfum. Eldri borgarar hafa verið áberandi á vellinum og haldið þar mót af og til sem hafa verið vel sótt.

Ungur nemur, gamall temur
Foreldrar yngri barna eru óánægðir með framgöngu ákveðins hóps eldri borgara, sem telur sig hafa einokun á vellinum, en samkvæmt upplýsingum VF er völlurinn ætlaður öllum íbúum Reykjanesbæjar. Það hefur ítrekað komið fyrir að eldra fólkið hefur rekið börnin heim af vellinum og ruðst fram fyrir þau á púttvellinum, í stað þess að bíða þar til kemur að þeim. Rétt er að undistrika að börnin læra það sem fyrir þeim er haft. Eldri borgurum og börnum ber því að sýna hvort öðru gagnkvæma virðingu og kurteisi, á púttvellinum og utan hans.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024