Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ókeypis námskeið fyrir verðandi foreldra
Laugardagur 12. janúar 2013 kl. 14:09

Ókeypis námskeið fyrir verðandi foreldra

Nú býðst öllum verðandi foreldrum hið árangursríka Gottman helgarnámskeið „Að verða foreldri“. Námskeiðið er samstarfsverkefni Rannsóknastofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF), Reykjanesbæjar og viðurkenndra Gottmanleiðbeinenda. Námskeiðið verður haldið í Reykjavík helgina 26. – 27. janúar. Kennslan fer fram með fyrirlestrum, og í par- og einstaklingsverkefnum.

Að eignast barn framkallar gleði og ábyrgðarkennd og mörgu jákvæðu hægt að koma til leiðar í fjölskyldum í upphafi foreldrahlutverksins. Dr. Sigrún Júlíusdóttir bendir á í grein sinni í Fréttablaðinu 1. desember 2012 að „Þrátt fyrir góða skipulagningu og að allt takist vel til, hefur tilkoma barns – þegar tveir verða þrír – samt oftast í för með sér þörf á einhverri endurskoðun og nýrri aðlögun í parsambandinu“ Því er mikilvægt fyrir verðandi foreldra að undirbúa sig.  http://www.visir.is/ad-verda-foreldri/article/2012712019967.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Námskeiðinu „Að verða foreldri“ er ætlað að hjálpa væntanlegum foreldrum að takast á við þær breytingar sem verða í parsambandinu með tilkomu barns. Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands er hæsta tíðni sambandsslita hjá pörum þegar börn þeirra eru á aldrinum 0-3 ára. Áætla má því að meiri en helmingur þeirra rúmlega eittþúsund barna sem ekki búa með báðum foreldrum á Suðurnesjum, hafi verið á leikskólaaldri og yngri þegar foreldrar þeirra slitu samvistum.

Á námskeiðinu er lögð áhersla á að efla vinatengsl og nánd í sambandinu, að læra að stjórna ágreiningi, að vera samstillt í uppeldishlutverkinu, að þekkja grundvallaratriði í þroska barna og  að vita hvert hægt er að leita eftir stuðningi og ráðgjöf þegar þörf er á. Á námskeiðinu er undirstrikað sérstakt og mikilvægt hlutverk feðra í uppeldi og þroska barna sinna.  Jafnréttisráð kynnti sér á árinu 2009 námskeið Gottman hjónanna og mælir með því sem árangursríkri leið. Í framhaldi var námskeiðið kynnt á fyrirlestraröð Jafnréttisnefndar Háskóla íslands með yfirskriftinni Mikilvægi feðra í frumbernsku.

Þeir sérfræðingar sem hafa kynnt sér námsefni „Að verða foreldri“ hérlendis telja vísindalegan bakgrunn þess ótvíræðan.  Í framangreindri grein dr. Sigrúnar Júlíusdóttur kemur fram að miklir hagsmunir eru í húfi og mikilvægt að hlúa að fjölskyldunni ekki síst  á þeim umbreytingartímum sem fæðing fyrsta barns er. Geti þátttaka á námskeiðinu stuðlað að meiri samstöðu parsins og stöðugleika í uppeldi, eykur það bæði hamingju foreldra og vellíðan barns.

Við skorum á verðandi foreldra á Suðurnesjum að sækja Að verða foreldri námskeiðið sem býðst þeim að kostnaðarlausu. Þannig má koma í veg fyrir þann mannlega harmleik sem gerist allt of oft við sambúðarslit og þegar að ágreiningur fer úr böndum. Verðandi foreldrar geta dregið úr áhættunni með fyrirbyggjandi aðgerðum.

Skráning og nánari upplýsingar hjá RBF netfang  [email protected]

Hera Ósk Einarsdóttir
félagsráðgjafi

Ólafur Grétar Gunnarsson
fjölskyldu- og hjónaráðgjafi