Óhugnanleg staða FS
Upp er komin sú staða að stjórnendur Fjölbrautaskóla Suðurnesja standa frammi fyrir enn einum niðurskurðinum. Komið er að þolmörkum í niðurskurði á flestum stöðum og þ.a.l. er eina ráðið að fækka starfsfólki og nemendum. Ef ekkert verður að gert mun þurfa að segja upp 12 til 14 stöðugildum og fækka nemendum um 200. Ótrúlegt en satt. FS hefur úr að moða 942 nemendaígildum samkvæmt fjárlögum, en nú stunda rúmlega 1100 nemendur nám við skólann. Samkvæmt lögum frá Alþingi þurfa framhaldsskólarnir að veita öllum þeim nemendum sem þess óska og hafa ekki náð 18 ára aldri, skólavist.
En fjárlög eru öðrum lögum æðri. þ.a.l. sjáum við fram á það að að skólinn muni ekki geta veitt þessum nemendum skólavist þó þeir óski eftir henni. Þeir þurfa þá annaðhvort að sækja sína menntun til annarra framhaldsskóla eða leita annarra leiða. Ekki er mikla vinnu að fá fyrir þennan aldurshóp á svæðinu og ekki eiga þessir aðilar rétt á atvinnuleysisbótum. Þeir þurfa því að vera á framfærslu foreldranna og mæla göturnar. Er það eitthvað sem við viljum? Viljum við ekki frekar að þeir nemi og séu með rútínu á sínu lífi? Svari hver fyrir sig.
Þetta er jú bara fjárlagafrumvarp og ekki búið að afgreiða frumvarpið frá Alþingi, en þetta er staðan eins og hún blasir við í dag. Ég sem formaður hagsmunafélags nemenda í FS er mjög uggandi. Mér finnst óhugnanlegt að hugsa til þess að allir þeir sem þess óska að fá að sækja sé menntun geti það ekki vegna skorts á fjárveitingu frá ríkinu. Vil ég trúa því að okkar þingmenn úr Suðurkjördæmi berjist fyrir okkar svæði, sem glímir við mikið atvinnuleysi og skuldavanda heimilanna, og finni flöt á þessari óhugnanlegu stöðu. Mennt er máttur. Nú þarf ,,velferðarstjórn“ Jóhönnu Sigurðardóttur að endurskoða að mínu mati í hverju þessi,,velferð“ liggur sem hún talar um.
Nemendur, starfsfólk og aðrir íbúar á Suðurnesjum, tökum höndum saman og látum þetta ekki gerast. Stöndum vörð um framtíð og menntun okkar allra.
Ísak Ernir Kristinsson.
Formaður Nemendafélags Fjölbrautaskóla Suðurnesja.