Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ögmundur og Álfheiður – hvaða atvinnu má eiginlega skapa?
Þriðjudagur 2. mars 2010 kl. 09:07

Ögmundur og Álfheiður – hvaða atvinnu má eiginlega skapa?

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eftir Ragnheiði Elínu Árnadóttur, alþingismann

Heilbrigðisráðherrar Vinstri grænna, núverandi og fyrrverandi, hafa í vikunni báðir lýst megnri andstöðu sinni við uppbyggingu einkasjúkrahúss á gamla varnarsvæðinu á Ásbrú. Einkasjúkrahúsi sem ætlað er að flytja inn erlenda sjúklinga til ýmiss konar aðgerða á þeirra eigin kostnað, eða erlendra einka- eða almannatrygginga.

Vandlætingin er slík að virðingin fyrir staðreyndum hefur fengið að víkja fyrir heiftinni í garð verkefnisins. Óskiljanlegri heift þegar haft er í huga að þarna er um að ræða uppbyggingu sem mun skila um 300 fjölbreyttum störfum í heilbrigðisgeiranum þar sem hættan á atgervisflótta er ekki bara yfirvofandi, heldur þegar skollin á. Óskiljanlegri heift þegar haft er í huga að áætlað er að þessi störf muni skila hinu opinbera um 300 milljónum króna í dýrmætum skatttekjum og spara hinu opinbera um 500 milljónir sem annars færu í að greiða atvinnuleysisbætur. Ég minni á að um 1700 einstaklingar eru án atvinnu á Suðurnesjum og hefur þeim bara fjölgað á síðustu mánuðum.

Í viðleitni sinni til að bregða fæti fyrir þetta góða verkefni hafa félagarnir farið með ýmsar rangfærslur. Sá fyrrverandi hrópar um tvöfalt heilbrigðiskerfi og að 100 milljónum af skattfé íslensks almennings verði sólundað þarna um leið og skorið er niður í heilbrigðiskerfinu hér á landi. Sá núverandi bætir hressilega í og tífaldar 100 milljónirnar og gerir þær í einu augabragði að 1000 milljónum. Síðan er sú tala höfð eftir ráðherranum m.a. í fréttum Ríkissjónvarpsins og fjöðurin góða er orðin að bústinni hænu.

Sannleikurinn í málinu er þessi. Heildarfjárfesting Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar (Kadeco) í verkefninu er 100 milljónir sem það leggur fram sem hlutafé, auk fasteignar sem lítils virði er í dag en verður með þessu að verðmætum sem fara að skila arði fyrir ríkissjóð. Rétt er að geta þess að óumflýjanleg útgjöld ríkisins vegna spítalans væru 60 milljónir á þessu ári. Þau útgjöld eru í tengslum við almennan rekstur húsnæðisins og rafmagnsbreytingar sem lagaleg skylda er að framkvæma fyrir októberlok. Því fjármagni er því betur varið með þeim hætti að Kadeco leggi 100 milljónir sem hlutafé í nýtt félag ásamt öðrum fjárfestum, Seltún sem mun eiga og endurbæta spítalann og leigja hann út. Staðreyndin er sú að heildarendurbótakostnaður er 900 milljónir króna sem deilast niður á 3 ár. Fyrsti áfangi þeirrar framkvæmdar er áætlaður um 600 milljónir og unninn á fyrsta ári. Heildarlántökuþörf Seltúns er því áætluð um 700 milljónir sem deilist niður á þessi 3 ár. Sá kostnaður verður ekki greiddur af Kadeco eins og haldið hefur verið fram, heldur er einungis um að ræða 100 milljóna króna framlag sem félagið og ríkissjóður fá margfalt til baka.

Hugmyndafræðin sem starfsemi Kadeco byggir á er að koma byggingunum sem urðu eftir þegar herinn fór, í arðbær borgaraleg not. Hluti af tekjum félagsins af sölu og rekstri eigna sem þegar er búið að ráðstafa, eru nýttar til að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu. Afgangurinn rennur í ríkissjóð og þess má geta að hagnaður ríkisins til þessa af starfseminni er yfir 2 milljarðar króna. Það er því ekki þannig eins og tvímenningarnir halda fram að verið sé að færa 100 milljónir (og því síður 1000 milljónir) úr heilbrigðisrekstri í vasa einkaaðila. Þarna er verið að tryggja áframhaldandi uppbyggingu á Ásbrú eftir það mikla áfall sem brotthvarf hersins var fyrir atvinnulíf á Suðurnesjum.

Suðurnesjamenn eru duglegir og seinþreyttir til vandræða. En ef Vinstri grænir ætla að stöðva alla atvinnuuppbyggingu á svæðinu er okkur að mæta. Hvað má eiginlega gera Ögmundur – hvernig atvinnu megum við eiginlega skapa Álfheiður? Þetta verkefni er umhverfisvænt, það þarf ekki að virkja neitt nema mannauðinn sem við eigum svo mikið af. Þetta nýtir eignir sem við höfum bara kostnað af í dag og það sem meira er þetta verkefni glæðir von í brjósti svo margra um að það séu betri tímar framundan. Látið af þessari ömurlegu kergju og fylgið okkur hinum í því að skapa atvinnu. Það er það mikilvægasta sem við getum gert akkúrat núna.