Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Ofurvæntingar á ótryggum grunni?
Sunnudagur 23. október 2016 kl. 06:00

Ofurvæntingar á ótryggum grunni?

Aðsend grein frá Gunnari Þórarinssyni

Sigtryggur Sigtryggsson ritar grein í Mbl. 13. okt. undir fyrirsögninni: Nýtt „álver“ á hverju ári. Hann vitnar í skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Aton sem spáir því að störfum á Keflavíkurflugvelli muni fjölga um 10.000 til ársins 2040, að meðaltali 474 á ári. Þannig jafngildi árleg aukning beinna og óbeinna þjónustustarfa á flugvellinum því til starfa taki nýtt álver. Er það trúlegt?

Svarið kom reyndar daginn áður: „Hagkerfið berskjaldað fyrir áföllum í ferðaþjónustu“. Hér er vísað í frétt Þorbjörns Þórðarsonar á Stöð 2 sem vitnar í Fjármálastöðugleika, nýútkomið rit Seðlabankans. Þar eru birtar niðurstöður úr álagsprófum varðandi áhrif samdráttar í ferðaþjónustu á íslenska hagkerfið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Niðurstöðurnar eru sláand að mati ÞÞ: „Nýir útreikningar Seðlabanka Íslands sýna að Íslendingar myndu lenda í miklum efnahagssamdrætti sem myndi smita út frá sér inn í allt hagkerfið ef fækkun yrði í fjölda ferðamanna hér á landi og fjöldinn yrði aftur svipaður og hann var 2012.“

Afleiðingar þess að ferðamönnuum fækkaði um 40 prósent væru m.a. 10% samdráttur í heildarútflutningi fyrsta árið. Atvinnuleysi myndi aukast, yrði 6,5% fyrsta árið og 7,9% annað árið og verg landsframleiðsla drægist saman um 3,9% fyrsta árið og 1,3% á öðru ári.

Auk almenns fjárhagsvanda almennings s.s. rýrnun kaupmáttar, má búast við gjaldþrotum og hópuppsögnum. Í riti Seðlabankans er drepið á orsakir mögulegs bakslags, t.d. ef hækkun olíuverðs eða náttúrhamfarir valda erfiðleikum í flugrekstri. Þá rýrir ört hækkandi gengi íslensku krónunnar  virði þess að heimsækja Ísland. Margir koma hingað með lággjaldaflugfélögum. Fari sætanýting niður fyrir 60-80%, hætta flugfélögin flugi hingað.

Þó að vöxtur í ferðaiðnaði hafi verið þjóðarbúinu einstaklega mikilvægur, erum við minnt rækilega á hve óviturlegt það er að reisa nýjar skýjaborgir í anda áranna fyrir hrun. Þá spáðu skýrsluhöfundar því eimitt að ekkert lát yrði á vexti íslenska bankakerfisins – góðærisbrekkan héldi endalaust áfram. En raunveruleikinn er ekki þannig. Ferðaiðnaðurinn er háður sveiflum í eftirspurn og óútreiknanlegum náttúruöflum, að ekki sé minnst á þau ósköp sem hryðjuverk eru.

Fyrirsögnin „Nýtt álver á hverju ári“ er óraunhæf samlíking fyrir ferðaiðnaðinn. Meðallaun í áliðnaði svo miklu hærri. Álver skapa líka miklu fleiri bein og óbein störf en 474, nefnilega 1.500 -2.000. Loks gera álver samninga um orkukaup til margra áratuga og flýja ekki land þó að efnahagsaðstæður breytist.
Erum við strax búin að gleyma bjarghring okkar í hruninu 2008? Það voru nefnilega framleiðslugreinarnar sjávarúvegur og áliðnaður sem héldu þjóðinni á floti eftir fall fjármálageirans og komu í veg fyrir yfirvofandi þjóðargjaldþrot. Þessar máttarstoðir, sem alls konar lukkuriddarar höfðu reynt að útmála sem gamaldags, stóðust álagsprófið þegar allt annað brást. Þær héldu áfram að dæla erlendum gjaldeyri til landsins þegar skýjaborgir væntinga um endalausa hagsæld hrundu til grunna og útbólgin pappírsfyrirtæki urðu að engu.

Við skulum meta ferðaiðnaðinn að verðleikum fyrir hans stóra framlag varðandi gjaldeyrisöflun og atvinnustig sem hefur verið þjóðinni kærkomin lyftistöng. En reynum nú í þetta sinn að læra af reynslunni frá 2008 og forðast froðu ofurvæntinga á veikum grunni. Slíkur hugsunarháttur leiðir til ófarnaðar.

Gunnar Þórarinsson

bæjarfulltrúi í Reykjanesbæ og í 4. sæti á framboðlista Viðreisnar í Suðurkjördæmi fyrir Alþingiskosningarnar 29. okt. n.k.