Ofurlaunapartý á 10 ára fresti ?
Þann 1.október sl. skrifaði ég ritgerð í mastersnámi mínu í mannauðsstjórnun sem fjallaði um ofurlaun. Sárafáar og nánast engar heimildir voru fáanlegar um ofurlaunaþróun og hefðir þar að lútandi á íslensku og um íslenskt atvinnulíf og varð því úr að flestar þeirra voru sóttar til Ameríku.
Stjórnir fyrirtækja og ofurlaun
Í rannsókn sem gerð var árið 1994 þar sem fyrirtæki úr öllum sviðum atvinnulífsins voru skoðuð, var lögð fram sú tilgáta að forstjórar fyrirtækja muni alltaf reyna að beita áhrifum sínum til að komast fram hjá stjórnum fyrirtækja til að hámarka laun sín. Niðurstaða rannsóknarinnar benti til þess að styrkleiki stjórna fyrirtækjanna réði úrslitum um völd og áhrif forstjóranna. Því sterkari sem stjórnin var því minni áhrif höfðu forstjórarnir. Stjórnarmeðlimir fyrirtækja hafa því verið nefndir lykilpersónur í ofurlaunastefnu fyrirtækja því hagsmunir hluthafa vega þyngra en allra annarra hagsmunaðila fyrirtækisins, þ.m.t. almennra starfsmanna.
Langtímaáhrif ofurlaunastefnunnar verðum við vör við á Íslandi í dag. Bæði í borg og í sveit. Ofurlaunastefnan dældi út ríflegum bónusum, oftast árangurstengdum en starfsmönnum hefur líka verið refsað harkalega fyrir að ná ekki hámarskárangri sem er auðvitað eingöngu mældur í peningum og yfirmenn og millistjórnendur eru í stöðugri hættu með störf sín.
Blaðran sprungin
Ennfremur er fjallað um það í greinum frá þessum árum að boðið sé í ofurlaunapartý á um það bil 10 ára fresti. Svo springur blaðran og samfélagið situr í súpunni og hirðir upp ruslið. Hljómar þetta kunnuglega? Reiði almennings í garð forstjóra og hluthafa sem hafa tekið til sín himinháar greiðslur og fært fé á milli eykst. Almenningur vill eiga rétt á því að vita hvernig fyrirtækin standa. Það skal vera tryggt að þeim sé stjórnað af ábyrgð og að eftirlit sé af hálfu stjórnvalda. Við þurfum reglur annars er hætta á eyðileggingu. Án eftirlits og með tilliti til veikleika mannskepnunnar munu markaðir of oft stjórnast af græðgi og spillingu.
Hvað segir þetta okkur, lítilli þjóð á barmi gjaldþrots? Er hægt að heimfæra þetta yfir á okkar aðstæður? Með einkavæðingu bankanna hófst atburðarrás sem endaði með stórslysi. Blaðran sprakk og enginn hafði gert ráð fyrir því versta. Allra síst stjórnvöld sem firrtu sig allri ábyrgð. Nú sem aldrei fyrr þarf breytt hugarfar og hugsa lengra fram í tímann. Ekki bara fram á næsta ársfjórðung.
Ætlum við að læra af reynslunni og velja nýtt fólk til starfa sem trúir á aðrar áherslur í samfélaginu? Fólk sem treystir því ekki í blindni að peningavit sé eina vitið. Að ekki sé hægt að mæla velgengni eingöngu í krónum og aurum, milljónum eða milljörðum. Að frelsi einstaklinganna felist í auknum jöfnuði. Við verðum að hugsa okkur um og velta því fyrir okkur hvernig samfélagi við viljum tilheyra. Hvaða breytingar viljum við sjá og í hverju munu þær felast?
Það er mannskepnunni eðlislægt að hræðast breytingar. Skrifaðar hafa verið heilu bækurnar um breytingar og áhrif þeirra. En það eru ekki breytingarnar sem slíkar sem við óttumst, heldur hvað við munum missa við breytingarnar. Við höfum búið við sömu pólitísku hugmyndafræðina sl. 20 ár. Í 65 ára sögu lýðveldisins hefur Sjálfstæðisflokkurinn setið við völd í 44 ár. Kæru Íslendingar. Það eru fleiri færir um að stjórna á Íslandi og hún er orðin langþreytt tuggan um að engum sé treystandi nema Sjálfstæðisflokknum.
Bestu kveðjur,
Jórunn Einarsdóttir,
kennari og mastersnemi í mannauðsstjórnun.
3. sæti VG í Suðurkjördæmi